Miðvikudagur 7. júní 2023

Góðar minningar frá Eyjum

Þegar ég settist niður til að skrifa grein sem birta ætti í staðarblaði í Vestmannaeyjum ákvað ég að beina sjónum mínum að þeirri reynslu sem ég bý að sem fyrrverandi íbúi í Vestmannaeyjum. Ég á góðar minningar frá Vestmannaeyjum allt frá barnæsku þegar ég heimsótti ömmu og afa á Miðstræti og nafna minn áIllugagötunni. Það var því auðveld ákvörðun þegar ég lauk námi að flytja búferlum til Vestmanneyja þar sem við hjónum bjuggum um sex ára skeið. Þarna hófum við okkar búskap og eignuðumst okkar elstu börn sem nutu góðs atlætis sem þau búa enn að. Það þarf ekki að lýsa fyrir Eyjamönnum hversu gott og kröftugt samfélag hér er að finna og hversu mikilvægur hver og einn einstaklingur er þessu samfélagi. 

Þrátt fyrir að vera að mörgu leyti einstakt samfélag hér á landi þá þurfa ákveðnir grunnþættir að vera til staðar líkt og í öðrum samfélögum til að hægt sé að halda áfram að byggja upp farsælt samfélag. Öll gerum við kröfu um að geta sótt heilbrigðisþjónustu sem næst heimabyggð, við viljum að börn okkar hafi tækifæri til að sækja sér menntun, að fjölbreytt störf séu í boði og ekki síst að samgöngur séu góðar og öruggar.

Af eigin reynslu veit ég að í þessum efnum er hægt að gera betur. Þannig er sjálfsögð krafa að hægt sé að sækja hefðbundna læknisþjónustu í Vestmannaeyjum og í þeim tilvikum þar sem slíkt er ekki mögulegt að til staðar sé úrræði til að hægt sé að koma viðkomandi hratt og örugglega undir læknishendur. Ég þekki hvernig það er að þurfa að sjá á eftir óléttum maka fara til Reykjavíkur og dvelja þar um nokkurra vikna skeið fyrir fæðingu vegna þess að heilbrigðisþjónustan bauð ekki upp á annað, eða að þurfa að bíða eftir sjúkraflugi frá Akureyri til að ferja slasað barn í aðgerð til Reykjavíkur. 

Betri heilbrigðisþjónusta í Vestmannaeyjum

Samkvæmt fjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar blasir ekki annað við en niðurskurður á opinberri þjónustu. Samfylkingin hafnar þessum áætlunum ríkisstjórnarflokkana og vill meiri fjárheimildir til opinberrar heilbrigðisþjónustu. Samfylkingin hefur sett heilbrigðismál á oddinn í þessum kosningum og vill að heilbrigðisþjónustan sé fyrir okkur öll óháð efnahag og búsetu. Þau mál sem frambjóðendur flokksins hér á Suðurlandi ætla að berjast fyrir eru aukinn fjárstuðningur við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, þannig að starfsstöðvum verði gert kleift að bæta húsnæði, starfsaðstöðu og það sem skiptir á endanum mestu máli að tryggja fullnægjandi mönnun heilbrigðisstarfsmanna. Það er kominn tími til að hlusta á heilbirgðisstarfsmenn sem hafa lengið kallað eftir úrbótum. Úrbótum sem gerir starfsmönnum kleift að veita þjónustu nærri íbúum. Við frambjóðendur höfum talað skýrt um að bæta þurfi heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum, tryggja mönnun við grunnþjónustu og gera íbúum kleift að sækja aukna þjónustu á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum. 

Samkvæmt grein núverandi heilbirgðisráðherra á vefmiðli visir.is er ráðgert að framkvæma tilraunaverkefni um sjúkraþyrlu sem staðsett yrði á suðvesturhorni landsins. Þessu höfnum við frambjóðendur Samfylkingarinnar og leggjum mikla áherslu á að fjárfest verði í sjúkraþyrlu sem staðsett verði á Suðurlandi, þar sem þörfin á að veita hraða heilbrigðisþjónustu og veita bráðaþjónustu er mikil.

Stóraukinn stuðningur við barnafjölskyldur

Samfylkingin hefur sett sér það markmið fyrir þessar kosningar að setja fram stefnuskrá sem tryggja mun betra líf fyrir alla og setja fjölskylduna í forgang. Þessar tillögur eru í samræmi við tilögur sem oddiviti Samfylkingarinnar á Suðurlandi Oddný Harðardóttir hefur lengi barist fyrir á Alþingi. Þannig viljum við jafnaðarmenn að fleiri fjölskyldur fái barnabætur og kerfið þjóni þeim tilgangi að millitekjuhópar fái stuðning á þeim tíma þegar fjárútlát fjölskyldunnar eru hver mest. Barnabætur sem greiddar verða út mánaðarlega. Þetta þýðir fullar barnabætur með öllum börnum til foreldra með allt að meðaltekjum (u.þ.b. 1200 þúsund á mánuði hjá pari eða 600 þúsund krónur fyrir einstætt foreldri), þannig að meðalfjölskylda með tvö börn, sem nú fær engar barnabætur, fái allt að 54 þúsund krónur í hverjum mánuði og einstæðir foreldrar 77 þúsund krónur á mánuði. 

Hér er nokkur dæmi sem sýna útfærsluna:

Með fyrsta barni sem er undir 7 ára yrðu greiddar 374.500 kr. á ári til sambúðarfólks en 530.700 kr. til einstæðra foreldra ef einstaklingarnir eru með 600 þúsund kr á mánuði í laun. Mánaðarlegar greiðslur til heimilisins yrðu því 31.208 kr. til sambúðarfólks en 44.225 til einstæðra foreldra samkvæmt tillögum Samfylkingarinnar. Í dag fær sambúðarfólk með þessi laun engar barnabætur en einstæðir foreldrar fá 20.473 kr. á mánuði sem greiddar eru út fjórum sinnum á ári.

Með tveimur börnum – og annað þeirra undir 7 ára aldri – yrðu greiddar 653.700 kr. á ári til sambúðarfólks en 931.500 kr. til einstæðra foreldra ef einstaklingarnir eru með 600 þúsund krónur á mánuði. Mánaðarlegar greiðslur til heimilanna yrðu því 54.475 kr. til sambúðarfólks en 77.624 kr. til einstæðra foreldra samkvæmt tillögum Samfylkingarinnar. Í dag fær sambúðarfólk með þessi laun 4.339 kr. á mánuði en einstæðir foreldrar 48.893 kr. sem greiddar eru út fjórum sinnum á ári.

Með tveimur börnum – bæði eldri en 7 ára – yrðu greiddar 225.700 kr. á ári til sambúðarfólks en 647.500 kr. til einstæðra foreldra ef einstaklingarnir eru með 800 þúsund krónur á mánuði. Mánaðarlegar greiðslur til heimilisins yrðu því 18.808 hjá sambúðarfólki en 53.958 til einstæðra foreldra samkvæmt tillögum Samfylkingarinnar. Í dag fær sambúðarfólk með þessi laun engar barnabætur en einstæðir foreldrar fá 33.893 kr. sem greiddar eru út fjórum sinnum á ári.

Samgöngur milli lands og Eyja

Ég var fluttur frá Vestmannaeyjum þegar Landeyjahöfn opnaði en miðað við reynslu mína þá og núna af ferðum til og frá Eyjum veit ég hversu mikilvæg samgöngumál eru fyrir íbúa og ekki síður fyrirtæki í bæjarfélaginu. Að geta gengið að öruggum ferðum hvort sem það tengist ferðalögum fjölskyldu eða til að sinna vinnu eða erindum vegna þjónustu sem hvergi er í boði nema á höfuðborgarsvæðinu.

Þrátt fyrir að nýting Landeyjarhafnar hafi verið góð undanfarin misseri er höfnin enn ekki fullbúin. Það er því mikilvægt að vakta þennan málaflokk til að tryggja hagsmuni bæjarfélagsins, sjá til þess að Herjólfur uppfylli á hverjum tíma þær kröfur sem gerðar eru varðandi flutningsgetu og tíðni og að hafnaraðstæður séu fullnægjandi. Meðan ekki er hægt að halda út flugi á markaðslegum forsendum þá þarf að tryggja með aðkomu ríkisins að flugleiðin milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja sé opin þannig að hún sé raunhæfur kostur fyrir íbúa og gesti sem koma til Eyja.

Þá vilja frambjóðendur Samfylkingarinnar á Suðurlandi að lokið verði við fullnaðarrannsókn varðandi fýsileika við jarðgagagerð milli lands og Eyja – það er ótækt að þessari spurningu sé einfaldlega ekki svarað og án niðurstöðu verður ekki með góðu móti hægt að taka ákvarðanir um framtíðaráætlanir varðandi samgöngur fyrir Vestmannaeyinga.

Samfylkingin hefur skýra sýn og stefnu um hvernig eigi að bæta þá grunnþjónustu sem íbúar þessa lands eiga rétt á, enda hafa jafnaðarmenn ávallt verið í fararbroddi fyrir bættri almannaþjónustu, réttlátara skattkerfi, húsnæðisöryggi, traustar almannatryggingar, bætur gegn atvinnuleysi og útrýmingu fátæktar. 

Enn í dag tökumst við á um sömu málefnin. Til að koma stefnumálum Samfylkingarinnar til framkvæmda þurfum við á þínum stuðningi að halda.

Viktor Stefán Pálsson, skipar 2. sæti á lista 

Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is