Undir þessari fallegu mynd standa stafirnir J.J.Sig.
Þeir vísa til fátæklegs lífs mikilla fyrirheita. Þar er kominn Jóhann Jörgen Sigurðsson frá Frydendal, einkabarn Sigurðar Sigurðssonar formanns og Önnu Sigríðar Árnadóttur Johnsen. Anna þótti kvenkostur góður og var hún áður gift Jóhanni Jörgen Johnsen og átti með honum fimm syni, þeirra á meðal Gísla J. einn mesta framfaramann Eyjanna og Sigfús M. bæjarfógeta, en myndefni dagsins mun vera eiginkona hans, Jarþrúður Pétursdóttir Johnsen.
Lítt dugði það Jóhanni Jörgen yngri að vera svo vel í ætt skotið og svo fullur af hæfileikum þar sem vínið virðist hafa togað hann vestur um haf þangað sem hann er farinn alfari 1919, þá 25 ára gamall. Er undirritaður heimsótti eitt sinn Atla Ásmundsson þá ræðismann í Winnipeg og konu hans, Þrúði Helgadóttur, hitti hann gamla konu sem hafði þekkt Jóhann fyrir margt löngu.
Því miður gat hún aðeins rakið fáeina drætti í lífssögu Jóhanns en ef nokkur sá sem þessar línur les veit meira um örlög Jóhann Jörgen Sigurðssonar þætti okkur vænt um að heyra frá viðkomandi.