Garðar verður Gullberg

Nýtt uppsjávarskip Vinnslustöðvarinnar, sem heitir nú Gardar upp á norsku með heimahöfn í Björgvin, verður nefnt Gullberg og fær skráningarnúmerið VE-292. Kunnuglegt nafn og númer í flota Eyjanna frá fyrri tíð. Þessu er greint frá á vefsíðu Vinnslustöðvarinnar. 

KAP VE-4 skiptir um nafn og númer og verður Sighvatur Bjarnason VE-81. Sömuleiðis kunnuglegt nafn og númer úr flota og sögu Vinnslustöðvarinnar.

Í þriðja lagi verður KAP II hér eftir skráð sem KAP VE-4.

Öldungaráð Vinnslustöðvarinnar ákvað þessar nafnabreytingar um sjómannahelgina. Ráðið er valdastofnun sem fáum sögum fer af og ekki er til í opinberu skipuriti félagsins en lætur frá sér heyra þegar mikið liggur við, svo sem að nefna skip og númera þau.

Gardar var tekinn í slipp í Danmörku eftir að gengið var frá kaupum Vinnslustöðvarinnar. Það er hluti af hefðbundinni skoðun við eigendaskipti. Ekkert óvænt hefur komið þar upp og nú er gert ráð fyrir því að skipið leggi af stað heim um miðja næstu viku og komi til Eyja undir lok júnímánaðar. Skipstjóri á Gullbergi verður Jón Atli Gunnarsson.

Við hæfi er að rifja ögn upp sögu skipsnafnanna þriggja Gullberg

Vinnslustöðin eignaðist 35% hlut í Ufsabergi ehf. á árinu 2008 og tók þá um leið við útgerð skips félagsins, Gullbergs. Síðar sameinuðust félögin undir nafni Vinnslustöðvarinnar.

Ufsaberg var stofnað 1969 og gerði út fjögur skip með sama nafni og númeri, Gullberg VE-292. Guðjón Pálsson, einn eigenda Ufsabergs, var meðal aflasælustu  skipstjóra Vestmannaeyja.

Eyjólfur sonur hans tók við skipstjórn og útgerð Gullbergs þegar faðir hans lést árið 1987. Eyjólfur Guðjónsson er nú skipstjóri á Vinnslustöðvarskipinu Ísleifi VE-63.

Vinnslustöðin seldi síðasta Gullbergið úr landi sumarið 2017.

Sighvatur Bjarnason

Vinnslustöðin átti um árabil og gerði út nóta- og togveiðiskipið Sighvat Bjarnason VE-81 sem smíðað var í Noregi 1975. Skipið lá hin síðari ár við bryggju í Vestmannaeyjum og var selt úr landi á dögunum. Það var nefnt eftir Sighvati Bjarnasyni eldri (1903-1975), fyrsta aflakóngi Vestmannaeyja og landsþekktum skipstjóra. Sighvatur hætti til sjós 1959 og gerðist framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar. Þegar Stefán Runólfsson tók við sem framkvæmdastjóri 1974 var Sighvatur kjörinn stjórnarformaður Vinnslustöðvarinnar og gegndi formennskunni til dauðadags.

Fjölskylduþræðirnir eru sterkir enn þann dag í dag. Guðmunda Áslaug Bjarnadóttir Sighvatssonar, fiskverkandi og útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, er í stjórn Vinnslustöðvarinnar og hefur verið undanfarin ár. Sonur hennar, Sindri Viðarsson, er sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar.

KAP

Þetta skipsheiti vefst fyrir ýmsum að skilja og ekki að undra. Kap er nefnilega gælunafn stúlkubarns og á rætur að rekja til bandarískrar skáldsögu, The Hidden Hand – Hin hulda hönd – sem birtist fyrst ytra 1859 en kom út í íslenskri þýðingu árið 1905 undir heitinu Kapítóla. Bókin varð geysivinsæl hérlendis sem annars staðar. Jón Jónsson, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, var í fjölmennum hópi fólk sem heillaðist af sögunni um Kapítólu og þau hjón, Jón og Þórunn Snorradóttir, skírðu eina dóttur sína Þuríði Kapítólu. Sú var víst allaf kölluð Kap og þá förum við að verða sjóðheit í leit að útskýringu á þessu skipsheiti Vinnslustöðvarinnar.

Kapítólu í skáldsögunni er þannig lýst að hún hafi verið hugdjörf, kraftmikil og uppreisnargjörn og helst ekki viljað hlýða nokkrum manni. Hún lenti í lífsháska oftar en einu sinni og oftar en tvisvar en bjargaði sér með djörfung og hugdirfsku.

Kapítóla læddist ekki með veggjum eins og mörgum fannst að konur ættu jafnan að gera, aðallalega auðvitað karlpeningi. Jónas Jónsson frá Hriflu skrifaði hneykslunargreinar í blöð um Kapítólu og sama gerði Bjarni frá Vogi.

Halldór Laxness tók hins vegar upp hanskann fyrir uppreisnarstelpuna og íslenskan útgefanda bókarinnar, Jóhann Jóhannesson. Í æviminningum sínum, Í túninu heima – útgefnum 1975, lýsti Nóbelsskáldið því yfir að Kapítóla væri „ágæt bók“ en hvaða dóna sem er hefði haldist uppi að kasta rýrð á Jóhann útgefanda sögunnar.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search