11.08.2020
Mbl.is greinir frá því að Rússar hafa þróað fyrsta bóluefnið sem veitir varanlegt ónæmi gegn kórónuveirunni en það segir forseti Rússlands, Vladimír Pútín.
„Í fyrsta skipti í heiminum þá var bóluefni gegn nýju kórónuveirunni skráð í Rússlandi í morgun,“ segir Pútín í útsendingu í sjónvarpi frá ríkisstjórnarfundi sem fór fram rafrænt í dag.
Í frétt Washington Post kemur fram að bóluefnið er þróað við Gamaleja stofnunina í Moskvu. Nú taki við framleiðsla á tugþúsundum bólusetningareininga. Yfirvöld í Rússlandi hafa heitið því að bólusetja milljónir Rússa, þar á meðal kennara og heilbrigðisstarfsmenn sem starfa í framlínunni. Tilkynnt var um bólusetningar fyrr í mánuðinum með tilraunaútgáfu bóluefnisins. Þegar tilkynnt var um þau áform voru ekki allir sáttir við að slík tilraunastarfsemi á fólki færi fram með bóluefni sem ekki væri búið að rannsaka nægjanlega. Ekki lægi fyrir hvort það væri öruggt og áhrifaríkt.