Fyrir umhverfið

Umhverfis- og loftslagsmál eru ein stærsta áskorun samtímans. Sem samfélag þurfum við öll að leggja okkar af mörkum í þeirri viðleitni að takmarka neikvæð umhverfisáhrif okkar. Ég er ósammála þeirri staðhæfingu að Ísland sé svo lítið í stóra samhenginu að áhrif okkar skipti engu máli. Ef allir hugsa þannig þá breytist aldrei neitt. 

Vestmannaeyjabær hefur að undanförnu unnið að umhverfis- og auðlindastefnu. Takmark stefnunnar er m.a. að draga úr neikvæðum áhrifum starfsemi Vestmannaeyjabæjar á umhverfið, vinna að framþróun umhverfismála og stýra betur þeim þáttum er valda neikvæðum umhverfisáhrifum. Þá verður sömuleiðis haldið áfram að verja náttúru Eyjanna gegn ágangi ferðamanna t.a.m. með uppbyggingu gönguleiða og ferðamannastaða. 

Samhliða þessu er nauðsynlegt að efla umhverfisvitund bæjarbúa, skapa hvata fyrir fyrirtæki og einstaklinga til að sinna umhverfismálum og virkt samtal þarf að eiga sér stað milli bæjarins og almennings um það hver staðan sé og hvernig sé hægt að ná meiri árangri.  

Bærinn hefur að undanförnu stigið mörg lítil skref í þessa átt. Þannig má nefna að keyptir hafa verið vistvænni rafbílar, m.a. í þjónustumiðstöð bæjarins, innkaup á einnota plasti voru bönnuð hjá stofnunum bæjarins árið 2019 og næsta sumar munu rafmagns sláttuorf koma í stað gömlu bensínorfanna í þjónustumiðstöðinni. Vissulega eru þetta lítil skref en margt smátt gerir oftar en ekki eitt stórt. 

Til framtíðar eigum við að hugsa stórt. Risastórt skref var stigið þegar nýr Herjólfur hóf siglingar á rafmagni milli lands og Eyja og að sama skapi verður skoðað hvort nýr hafnsögubátur geti gengið fyrir rafmagni. Öll getum við lagst á eitt með því t.d. að kaupa vistvænni vörur og þjónustu, draga úr úrgangi og auka endurnotkun og endurvinnslu og umgangast náttúruna og auðlindir með hagkvæmni og nægjusemi í huga. 

Ég velti því stundum fyrir mér hvort mögulegt sé að Vestmannaeyjabær geti orðið kolefnishlutlaus og að hér verði sömuleiðis framleidd sú orka sem við notum – að bærinn verði sjálfbær um sína orku. Við vitum að framleiðsla á umhverfisvænni orku getur farið fram með ýmsu móti. Til að mynda eru möguleikar á því að virkja sjávarföllin og þá eru vindtúrbínur mögulega ákjósanleg leið til orkuframleiðslu þar sem slíkar túrbínur eru umfangsminni en klassískar vindmyllur og sjón- og hávaðamengun töluvert minni. Væri það mögulega lausn?

Við þurfum að hugsa stórt þegar kemur að loftslagsmálum og það gerum við bæði fyrir okkur sjálf og ekki síður fyrir komandi kynslóðir. 

Ég hvet bæjarbúa til að kynna sér umhverfisstefnuna sem nú er í vinnslu og taka þátt í mótun hennar. 

– Njáll Ragnarsson

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search