Föstudagur 1. desember 2023

Fullur gámur skilaði sér til Gambíu með fatnaði,tækjum og húsgögnum – Þóra Hrönn segir frá – myndir

11.03.2020

Tígull hefur fylgst með Þóru Hrönn Sigurjónsdóttir en hún tók sig til og safnaði í gám ýmsum hlutum, fatnaði og tækjum sem hún vissi að þörf væri á í Gambíu, hérna er pistill frá henni um förina út til að taka á móti gámnum og svo myndum af fólkinu taka á móti fötum og tækjum sem eru eins og gull í þeirra augum, blaðamaður Tíguls verður að viðurkenna að það láku tár við að sjá þessar myndir frá Þóru Hrönn. Þú átt heiður skilið kæra Þóra Hrönn fyrir þitt framlag til þessa hóps, við hjá Tígli segjum TAKK og við erum vissar um að við séum einnig að tala fyrir marga í Eyjum.

Hér er svo frásögn Þóru:

Í febrúar fór ég til Gambíu meðal annars til að taka á móti gám sem ég flutti þangað. Eftir mikla vinnu við að fá stimpla og  undirskriftir og hlaup á milli ráðuneyta í Gambíu hafðist að lokum að losa gáminn. Ég var orðin svartsýn á að það tækist á meðan ég væri á staðnum. 

Í Gambíu virðir engin tímann og við biðum á skrifstofum allt upp í tvo og hálfan klukkutíma til að láta svo bara vísa okkur á aðra skrifstofu. Þetta tók svakalega á taugarnar þar sem ég var í kapphlaupi við tímann. Það gekk rosalega vel að tæma gáminn og koma öllu á sinn stað. Tilfinningin var samt svona eins og þegar maður er búin að vera í 2 klukkutíma að græja matinn og það tekur 3 mínútur að borða. 

Þetta ferli tók nefnilega marga mánuði þ.e frá því að ég byrja að safna í gáminn og hann komst á leiðarenda. Það tók svo 45 mínútur að tæma  hann og sortera allt á rétta staði. Hluti af saumavélunum sem ég óskaði eftir á Facebook voru komnar í notkun strax daginn eftir, daginn eftir var líka búið að fara í gegnum allt skóladótið og halda fund með kennurum um hvernig ætti að deila því. 

Það var m.a ákveðið að skólatöskurnar yrðu notaðar sem verðlaun fyrir góðan árangur og þannig hvetja nemendur til að standa sig vel. Skólaborð og stólar sem ég fékk frá FÍV fara í skóla sem er verið að byggja í þorpinu, læknatæki sem ég fékk frá Selfossi munu nýtast um alla Gambíu.  

Á meðan ég var úti kom í fyrsta skipti hópur augnlækna frá Danmörku í þorpið, í gámnum voru tvö augnskoðunartæki sem þeir kíktu á og munu þeir í framtíðinni geta nýtt sér annað þeirra.

Allar ferðatöskurnar sem fóru í gáminn hafa nú fengið nýtt hlutverk, töskurnar notar fólk til að geyma fötin sín og barna sinna í því það á engin á fataskáp. Ég afhenti fatapakka sem voru í gámnum, pakkarnir voru settir saman í Rauða Krossinum. Börn sem koma í ungbarnaeftirlit fá þessa fatapakka, þau eru bólusett í þessu eftirliti og erum við að vona að það verði kvattning fyrir mæður að koma með börnin þegar þær fá fatapakka.  

Ég hitti auðvitað stúlkur og konur sem fengu fræðslu um blæðingar og poka með margnota dömubindum. Það er algengt að konur eigi 6-7 börn en það er ekki það sem þær vilja svo þeim er sagt í fræðslunni að þær geta fengið ókeypis getnaðarvarnir. Áður en ég kom með þessa fræðslu til þeirra þurftu konur að fara annað til að ná sér í getnaðarvarnir og það er ekki auðvelt fyrir alla en núna eftir að þær fá þessa fræðslu hefur eftirspurnin orðið það mikil að nú er búið að koma því þannig fyrir að þær geta fengið alla þessa þjónustu á heilsugæslunni í þorpinu.  

Það er svo frábært hvað svona „lítið“ verkefni getur haft mikil áhrif.  En það er líka gaman að segja frá því að eftir að ég var með fyrirlestur upp á Hraunbúðum fyrir heimilisfólk hefur orðið til samstarf okkar á milli þar sem þau hjálpa okkur með dömubindin og pokana utan um þau.  Eftir þessa síðustu ferð til Gambíu er auðvitað efst í huga þakklæti til allra sem hjálpuðu mér að safna í gáminn og koma honum á leiðarenda.  Ég get ekki talið alla upp en þið vitið hver þið eruð, allir sem lögðu eitthvað til hvort sem það var vinna eða hlutir – TAKK.

Ég er svo að fara af stað með risaverkefni (að mér finnst) sem tengist auðvitað Gamíu sem ég vona að bæjarbúar muni hjálpa mér með.  Meira um það seinna.
Kveðja
Þóra Hrönn

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is