Framsókn ætlar að fjárfesta í fólki

Meginstefið í öllum baráttumálum Framsóknar fyrir kosningarnar 25. september er fjárfesting í fólki.

Það er í samræmi við þau megingildi Framsóknar sem einhvern tímann fyrir löngu voru meitluð í orðunum vinna, vöxtur, velferð. Öflugt velferðarkerfi, öflugt heilbrigðiskerfi grundvallast á öflugu atvinnulífi. Ný framsókn í innlendri verðmætasköpun.

Framsókn ætlar að fjárfesta í fólki

Flokkurinn vill beina orku stjórnvalda að því að skjóta fleiri stoðum undir innlenda verðmætasköpun. Beita þarf markvissum aðgerðum til að auðvelda fjárfestingu í hugverkaiðnaði, svo sem líftækni, lyfjaframleiðslu og tölvuleikjagerð. Frá því Framsókn setti á laggirnar endurgreiðslukerfi í kvikmyndagerð um aldamótin hefur greinin stöðugt sótt í sig veðrið. Við höfum trú á því að kvikmyndagerð geti orðið mun öflugri með því að hækka endurgreiðslur í 35% af kostnaði við gerð kvikmynda. Það ásamt frekari stuðningi við uppbyggingu innviða í greininni mun efla kvikmyndalandið Ísland enn frekar. Þetta er hluti af þeirri sókn skapandi greina sem Framsókn sér sem eina af leiðum Íslands inn framtíðina. Til þess að undirstrika þessa sókn vill Framsókn sérstakt ráðuneyti skapandi greina og menningar.

Ný framsókn í grænni atvinnuuppbyggingu

Framsókn trúir því að mikið sóknarfæri sé í grænni uppbyggingu og að Ísland geti með réttum áherslum orðið í lykilstöðu í þróun og framleiðslu á hreinu rafeldsneyti sem getur knúið skip, flugvélar og stærri farartæki. Íslendingar hafa sem þjóð þekkingu á hreinni orku og ef rétt er haldið á spöðunum þá getur sú þekking orðið afar dýrmæt í útflutningi og framlag Íslands til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum verið afar þýðingarmikið.

Ný framsókn fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki

Undirstaða hagvaxtar í samfélaginu er að skapa sem best umhverfi fyrir aukin atvinnutækifæri og fleiri störf og hefur Framsókn alltaf sett það á oddinn í okkar stefnu. Framsókn vill taka upp þrepaskipt tryggingagjald og lækka það gjald sem leggst á lítil og meðalstór fyrirtæki. Samhliða því er nauðsynlegt að taka upp fleiri þrep í tekjuskatti fyrirtækja. Einnig er mikilvægt að tekið sé tillit til stærðar fyrirtækja við álagningu ýmissa opinberra gjalda og skatta. Lítil og meðalstór fyrirtæki eru hryggjarstykki verðmætasköpunar og uppspretta atvinnu og verða að njóta þess.

 

Ný framsókn fyrir heilbrigði þjóðarinnar

Framsókn ætlar að fjárfesta í heilbrigði þjóðarinnar og stórefla heilbrigðisþjónustu utan stofnana. Framsókn vill að kerfið taki betur utan um það fólk sem orðið hefur fyrir alvarlegum áföllum í lífinu. Það er best gert með því að tengja saman ríki, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og fleiri sem saman taka utan um einstaklinginn svo hann nái fyrri styrk. Framsókn telur mikilvægt að heilbrigðiskerfið sé heilbrigð blanda af opinberum rekstri og einkarekstri. Skapa þarf skýra framtíðarsýn með aðkomu heilbrigðisstétta og þeirra sem nota heilbrigðiskerfið. Það er að okkar mati ljóst að áherslu verður að leggja á lýðheilsutengdar forvarnir, ekki síst hvað varðar geðheilbrigði. Framtíðarsýnin er sú að með öflugum forvörnum bætum við heilsu fólks og minnkum álagið á sjúkrahúsin. 

Ný framsókn fyrir framtíðina

Framsókn ætlar að fjárfesta í framtíðinni með mikilli áherslu á börn og barnafjölskyldur. Framsókn hefur sýnt það á yfirstandandi kjörtímabili með aðgerðum okkar hversu mikla áherslu við leggjum á málaflokkinn. Tvær mikilvægustu breytingarnar með nýjum Menntasjóði voru að þeir sem klára nám innan ákveðinna tímamarka fá 30% niðurfellingu á höfuðstóli lána sinna og í stað hærri lána vegna framfærslu barna námsmanna er nú veittur styrkur með hverju barni. Framsókn ætlar að halda áfram að hlúa að börnum með því að veita hverju barni frá sex ára aldri 60 þúsund króna vaxtarstyrk á hverju ári óháð tekjum foreldra og til viðbótar frístundastyrkjum sveitarfélaganna. Með þessum styrk veitum við fleiri börnum tækifæri til þess að vaxa og dafna í tómstundum, íþróttastarfi eða listastarfi. Þetta er hluti af þeirri sýn sem birtist svo glöggt í verkum barnamálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra á þessu kjörtímabili. Framsókn vill einnig leita leiða til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Ný framsókn í samgöngumálum

Eitt af sérkennum Framsóknar í gegnum tíðina hefur falist í því hugsa um allt landið sem eina heild. Samgöngur til og frá Vestmannaeyjum eru og hafa verið áherslumál Framsóknar. Þær hafa mikil áhrif á íbúaþróun, hvort að unga fólkið vilji koma til baka og setjast að og þær spila stórt hlutverk í komu ferðamanna til Vestmannaeyja. Nýr rafvæddur Herjólfur er fyrsta ferjan hér á landi sem gengur fyrir rafmagni. Reynslan er góð og tenging lands við Eyjar aldrei verið betri. Rafvæðing ferja og ekki síður rafvæðing hafna er mikilvægt skref sem þarf að stíga á næstu árum.

Endurbættur rekstrarsamningur um Herjólf sem Samgönguráðuneytið gerði við bæjarfélagið hefur reynst vel. Þessu til viðbótar þá var á kjörtímabilinu veittur veglegur stuðningur vegna Covid, viðbótarkostnaður bættur vegna tafa á afhendingu á nýjum Herjólfi, ferðum fjölgað og þjónustan bætt. Þá voru fargjöldin jöfnuð og er því sama gjald hvort sem Herjólfur siglir frá Landeyjahöfn eða Þorlákshöfn. Kostnaður gat áður verið hár ef það þarf að sigla til og frá Þorlákshöfn, sérstaklega fyrir fjölskyldur.

Það er ekki hægt að láta hjá líða að tala um Landeyjahöfns sem er órjúfanlegtur hluti af Herjólfi. Það er gaman að segja frá því að vel hefur gengið að hreinsa frá sand og halda höfninni opinni. Stór og mikilvægt breyta var gerð á tímasetningu og ákvörðunartöku dýpkunar. Nú er dýpkað eftir þörfum sem nýtist íbúum betur, í stað þess að dýpka eftir fyrirfram ákveðnum tíma. 

Ný framsókn fyrir Vestmannaeyinga

Framsókn segir: Aldur skiptir ekki máli. Framsóknarfólk vill afnema kröfu um að fólk fari á eftirlaun við ákveðinn aldur. Ráðast þarf í endurskipulagningu málefna eldra fólks á sama hátt og kerfinu var bylt í þágu barna. Framsókn vill gera fólki kleift að búa á heimilum sínum utan stofnana á meðan heilsan leyfir. Það þarf að vera skýrara að kerfið þjóni fólkinu. Og talandi um aldur þá viljum við að við átján ára aldur öðlist allir réttindi fullorðinna.

Framsókn er miðjuflokkur, og sé litið yfir sviðið þá virðumst við vera eini miðjuflokkurinn, miðjuflokkur sem vinnur að stefnumálum sínum með samvinnu og jöfnuð að leiðarljósi. Það er þessi samvinnuhugsun sem hefur gert stór umbótamál að veruleika á því kjörtímabili sem er að ljúka. Stjórnmál snúast nefnilega ekki aðeins um að setja fram stefnu og stefnumál heldur líka vinnubrögð – og heilindi.

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search