Á fundi bæjarráðs síðastliðinn mánudag voru meðal annars ræddar forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024 og tímalína vinnu við áætlunargerðina. Framundan eru vinnufundir í fagráðum og bæjarstjórn. Jafnframt er gert ráð fyrir að auglýsa og vinna úr umsóknum um „Viltu hafa áhrif?“ á haustmánuðum og að framkvæmdastjórar skili áætlunum um rekstur og viðhald til fjármálastjóra. Gert er ráð fyrir að bæjarráð afgreiði fjárhagsáætlun til fyrri umræðu í bæjarstjórn 24. október nk. Vinna stendur yfir við undirbúning áætlunarinnar.
Í forsendum fjárhagsáætlunar er lagt upp með að útsvarsprósenta verði óbreytt á milli ára eða 14,68% og að framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði í samræmi við áætlun sjóðsins, sem ætti að liggja fyrir í september og endanlega fyrir fyrri umræðu um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn.
Vestmannaeyjabær hefur verið að skoða áhrif lækkunar á álagningaprósentum á tekjur bæjarsjóðs af fasteignagjöldum. Bæjarráð mun taka afstöðu til álagningarprósentu fasteignagjalda fyrir árið 2024 á næsta fundi. Unnið er að upplýsingaöflun fyrir forsendum álagningarhlutfalls.
Horft er til þess að aðrar tekjur málaflokka, svo sem vegna gjaldskráa bæjarins, hækki í samræmi við vísitölu neysluverðs, nema ákvörðun verður tekin um annað í vinnu við áætlunina.
Stuðst verður við sérstaka launaáætlun við undirbúning fjárhagsáætlunarinnar, sem tekur mið af mannaflaþörf á stofnunum bæjarins og útreikningi á áhrifum kjarasamninga. Með því eykst nákvæmni við áætlun launa. Gert er ráð fyrir að aðrir rekstrarliðir hækki almennt um 4,5%. Í því felst töluverð hagræðing á kostnaðarhlið fjárhagsáætlunar, þar sem verðlagsþróun hefur verið umtalsvert hærri.