Fórnir fyrir ferilinn

06.03.2020

Fórnir eru nokkuð sem allir afreksíþróttmenn kannast við

Fórnir eins og að missa af samverustundum með vinum og fjölskyldu, álagið á líkamann og í sumum tilvikum andlegri vellíðan. Það er einfaldlega þannig að því hærra sem einhver stefnir í sinni íþrótt, því meiri verður sá einstaklingur að leggja á sig til þess að komast þangað.

Eins og Eliud Kipchoge frjálsíþróttamaður ársins 2019 og núverandi heimsmetshafi og Ólympíumeistari í maraþoni, orðaði einu sinni í viðtali stuttu fyrir INEOS 1:59 áskorunina, er hann varð fyrsti maður til þess að hlaupa 42,2 kílómetra undir tveimur klukkustundum: „Til þess að ná árangri í íþróttum, verður þú að fórna. Því meira sem þú fórnar, því meiri árangri nærðu. Ef þú fórnar litlu, þá nærðu litlum árangri, ef þú fórnar miklu, nærðu miklum árangri“. Fórnir hans eru til dæmis þær að sjá konu sína og þrjú börn bara einu sinni í viku, og vera alla aðra daga í æfingabúðum með sínum æfingahóp að einbeita sér að komandi verkefnum án ónæðis.

Þú verður að vera tilbúinn að fórna meiru en aðrir

Ef maður hefur hæfileika í sinni íþrótt og telur sig geta stundað íþróttina á hæsta stigi, eins og til dæmis á Ólympíuleikum, verður maður að vera viss um að maður sé tilbúinn til þess að fórna meiru en aðrir. Það eru eflaust margir íþróttmenn sem eru á næsta stigi við atvinnumennsku. Ég skilgreini það að vera með góða samninga og á launum hjá fyrirtækjum og telja sig hafa getu til þess að ná atvinnumannastigi með meiri æfingu, sem fórn. Mér fannst áhugavert hvernig Bandaríski methafinn í hálfmaraþoni, Ryan Hall, skrifaði í bókinni sinni ‘Run the Mile You’re In’ þegar hann sagði “að ná sínum hámarksárangri í hverju sem maður tekur sér fyrir hendur krefst fullrar einbeitningar. Það er einungis mögulegt í gegnum fórn, vegna þess að það að einbeita sér algerlega að einum hlut krefst þess að við tökum augun af öllu öðru“.

Erfitt val

Persónulega var þetta val erfitt fyrir mig. Eftir að hafa útskrifast með meistaragráðu í líffræði í Bandaríkjunum og að hafa keppt meðal þeirra bestu á háskólastiginu, komist á Bandaríska Háskólameistaramótið (NCAA championships) í víðavangshlaupum og svo í frjálsum og sett fjögur Íslandsmet á brautinni það árið, fannst mér ég hafa getu til þess að keppa við þá bestu í Evrópu og jafnvel heiminum, en til þess þyrfti ég meiri tíma og einbeitingu. Eftir að ég útskrifaðist var ég handviss um að ef Ólympíulágmörkin fyrir Tókýó 2020 væru óbreytt frá því í Ríó 2016, myndi ég án efa komast á Ólympíuleikana. Þegar nýju lágmörkin voru gefin út og ég sá að þau voru töluvert erfiðari en áður, vissi ég að til þess að eiga einhvern séns á lágmarki þyrfti ég að velja milli þess að einbeita mér bara að hlaupum eða telja þetta óyfirstíganlegt og byrja á einhverju öðru.

Flutti til staðar þar sem æfingafélagi var á sama sigi eða betri

Til þess komast á þann stað sem ég hafði séð fyrir mér, varð ég að flytja eitthvert sem ég hafði æfingafélaga á sama stigi eða betri, milt veður og geta einbeitt mér 100% að æfingum. Á sama tíma þýddi það að vera frá vinum og fjölskyldu, að tefja atvinnuferilinn enn frekar, sem kemur í veg fyrir að maður fái starfsreynslu á ferilskrá eða afla peninga fyrir eignum. Ég ákvað að láta reyna á það, vegna þess að eftirsjá er eitthvað sem ég vil ekki hafa á samviskunni þegar ég verð eldri og ég veit að þetta væri einstaka tækifæri fyrir mig til að sjá hversu langt ég get í raun og veru komist. Ég flutti því til Hollands til að elta þetta markmið og oft hef verið með vangaveltur um hvort að sú ákvörðun hafi verið rétt. Það sem heldur mér þó alltaf við efnið þegar illa gengur og hindranir verða á leiðinni, er sjálfstraustið og að ég bý yfir nógu miklum hæfileikum til þess að geta þetta og allar fórnirnar sem hafa verið á leiðinni verða að lokum þess virði. Árið 2019 var fyrsta árið mitt eftir háskóla og var það mjög lærdómsríkt. Ég er mjög þakklátur að hafa lært þær lexíur sem ég þurfti að læra árinu fyrir Ólympíuleika svo að ég geri ekki sömu mistök tvisvar.

Ég lít á allar fórnirnar í gegnum árin sem karakterbyggjandi og ég ætla að verða sá einstaklingur sem lætur ekkert stöðva sig á leiðinni að markmiðunum. 

Takk fyrir að lesa
Hlynur Andrésson
IG: @hlynur_andresson

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search