Þriðjudagur 25. júní 2024

Fölskvalaus jólagleði – af jólahaldi á Kleppi

19.12.2020

Í bókinni Vestmannaeyjar – af fólki, fuglum og ýmsu fleiru segir höfundurinn, Sigurgeir Jónsson, frá því er hann vann á Kleppi samhliða námi sínu í Kennaraskólanum.

Lýsing hans á jólahaldinu þar er í senn bæði hugljúf og hátíðleg og fer hún hér á eftir:

 

En það sem ég ætlaði aðallega að segja frá var jólahaldið á deild tíu.

Ég var á vakt á aðfangadagskvöld og það var í nógu að snúast. Spenningurinn og tilhlökkunin var eins og hjá börnum og oft var komið til að kíkja á klukkuna í eldhúsinu. Um hálfsexleytið voru allir komnir í betri fötin og að sjálfsögðu vorum við starfsmennirnir einnig í okkar sparifötum. Vart þarf að taka fram að húsakynni voru skreytt og jólatré á staðnum.

Klukkan sex hófst hátíðin, allir óskuðu hver öðrum gleðilegra jóla og hlustað var á messu í útvarpi. Klukkan sjö var svo matur borinn á borð og fengu allir að borða ómælt. Það var þó ekki venjan á matmálstímum, skammta varð matinn handa sumum svo að þeir hlypu ekki í spik. En á jólum fengu allir að borða eins og þeir vildu. Ekki man ég lengur hvað var til matar en mig minnir að það hafi verið hangikjöt og svo ávextir með rjóma á eftir. Að borðhaldi loknu hófst enn einn spenningurinn því að beðið var til klukkan átta með að opna jólagjafirnar. Og enn þurfti margoft að kíkja við í eldhúsinu til að sjá hvað tímanum liði. Svo loks silaðist klukkan yfir átta og allir söfnuðust saman á ganginum. Að sjálfsögðu fengu allir jólagjöf, spítalinn gaf öllum gjöf og margir fengu glaðning frá vinum og ættingjum að auki. Þarna fór enginn í jólaköttinn. Og aðra eins gleði yfir gjöfum hef ég aldrei séð, slík var hrifningin sem skein úr augum allra.

Þarna kynntist ég því sem ég vil kalla hina sönnu jólagleði.

Þegar þessi hátíð stóð sem hæst, varð ég að fara fram í eldhús og þurrka mér um augun. Enn í dag vöknar mér um augu við það eitt að rifja upp þessa stund sem er einhver sú ógleymanlegasta sem ég á í minningasjóðnum. Nú voru þessar gjafir flestar hverjar ekki mjög merkilegar, yfirleitt einhverjar flíkur en með fylgdi sígarettupakki eða neftóbaksdós ellegar sælgæti handa þeim sem ekki notuðu tóbak.

Og svo sýsluðu menn við það fram eftir kvöldi að sýna gjafirnar sínar og sjá aðrar, ásamt því að taka í nefið, svæla sígarettur og bryðja brjóstsykur. En klukkan tíu voru allir komnir upp í rúm og flestir sofnaðir.

Á þriðja í jólum var haldið ball.

Þetta var eina skiptið á árinu sem allir vistmenn spítalans komu saman. Þetta fór fram eins og jólaböll fara jafnan fram. Gengið var kringum jólatré og
sungið í nokkurn tíma en síðasta klukkutímann var svo alvöruball með harmonikkuleik og sá einn sjúklingurinn um þann þátt. Og nú buðu herrarnir dömunum upp eins og á alvörudansleik.

Í ljós kom að þarna voru margir prýðisdansmenn og -konur og augsýnilegt að þetta var ekki í fyrsta sinn sem þau tóku dansspor. Svo var fólk líka að stelast til að dansa vangadans og þegar hlé varð á dansinum, buðu menn dömunum sæti við hlið sér og gáfu þeim sígarettu eða buðu þeim í nefið.

Margar vikur á eftir var ballið aðalumræðuefnið á deildinni. Þetta fábrotna jólaball virtist vera sá miðpunktur í tilverunni sem lífið snerist um. Menn voru þegar byrjaðir að hlakka til næsta dansleiks, að ári liðnu. Mér fór þarna svipað og á aðfangadagskvöld að ég varð að draga fram vasaklútinn. Svo fölskvalaus var þessi gleði. Þótt æðimörg ár séu nú liðin síðan þetta gerðist, verður mér á hverjum jólum hugsað til þessa tíma.

Hvergi hef ég á lífsleiðinni fyrirhitt einlægara og falslausara fólk, fólk sem gladdist yfir jafnlitlu og aldrei kynnst þakklátara fólki, væri því rétt eitthvert lítilræði.

Á þessum jólum kynntist ég því hvernig á að halda gleðileg jól.

Sigurgeir Jónsson

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search