Þriðjudagur 16. apríl 2024
Hvíta Húsið

Fólkið bakvið lista- & menningarfélagið: Kíktum á vinnustofuna hennar Elínar Árnadóttur

Elín Árnadóttir heiti ég, 30 ára eyjamær og er menntuð sem kjólaklæðskeri. Ég á og rek saumastofu sem heitir Einstök saumastofa en einnig vinn ég sem móttökuritari á HSU. Ég er gift Arnari Ingólfssyni, hann er meistari í bifreiðasmíði og vinnur í Bragganum. Saman eigum við tvo drengi, Ingólf Mána 5 ára og Gunnar Dag 1 árs.

Ég hef alltaf haft áhuga á öllu sem tengist handverki og hannyrðum og lærði ég ung á saumavélina hennar mömmu. Ég hef alltaf haft mikla þörf fyrir að skapa, það kom því ekki á óvart að ég tók stúdentspróf af Lista- og hönnunarbraut í Tækniskólanum og seinna fór ég svo á Fataiðnbraut. Ég útskrifaðist þaðan 2017 og tók strax á eftir sveinspróf í kjólasaum. Mér gekk það vel í sveinsprófinu að Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur tilnefndi mig til bronsverðlauna fyrir “sérlega vel útfært sveinspróf” eins og þau orðuðu það. En það sem mér þótti sérlega vænt um var að það hafa ekki verið gefin verðlaun eða viðurkenning fyrir sveinspróf í kjólasaum í mörg ár eins og sveinsprófsdómarinn tilkynnti mér. En það sem toppaði það var að mér var boðin vinna á mjög virtri saumastofu í Reykjavík sem sérhæfir sig í samkvæmis- og brúðarkjólum, maður kemur sjálfum sér sífellt á óvart.


Við fjölskyldan fluttum til Vestmannaeyja strax eftir sveinsprófið mitt en það var alltaf draumur okkar að flytja aftur heim. Í húsinu sem við keyptum okkur hér í eyjum var ég ekki lengi að eigna mér eitt herbergi og opnaði þar litla saumastofu. Eftirspurnin var mikil og varð ennþá meiri þegar ég var með einu opnu saumastofuna á eyjunni. Ég fór í fæðingarorlof í nóvember í fyrra þegar yngri strákurinn okkar fæddist og saumaði ég mikið í fæðingarorlofinu, en þó mest fyrir mig sjálfa. Við hjónin giftum okkur í sumar en ég hannaði og saumaði brúðarkjólinn minn og tvo blómastelpukjóla, eitt af því skemmtilegra sem ég hef gert hingað til. Ég var ákveðin að opna ekki aftur saumastofuna heima eftir fæðingaorlofið enda rýmið sem ég hafði löngu sprungið og varð ég því rosalega glöð þegar mér bauðst aðstaða í Hvíta húsinu.


Áður en ég fór í fæðingarorlof var ég einnig að sauma barnafatnað og selja. Ég kallaði barnafatamerkið Moon eftir eldri stráknum mínum sem heitir Máni í seinna nafni. Ég seldi fatnaðinn í Gallerý Tyrkja Guddu sem er því miður búið að loka. Þar komu saman margar hæfileikaríkar handverkskonur og var ýmislegt til sölu. Hér er svo mikið af hæfileikaríku fólki, þess vegna er svo frábært að Lista- og menningarfélag Vestmannaeyja sé komið með aðstöðu í Hvíta húsinu. Ótrúlega gaman að sjá hvað fjölbreytileikinn er mikill í sambandi við list og sköpun og gaman að sjá alla saman komna á einum stað.


Ég er mikið spurð hvort ég ætli að fara aftur út í það að sauma barnafatnað. Ég verð að viðurkenna það að ég er ekki búin að ákveða hvað ég geri. Ég hef meiri áhuga á að sauma kvenfatnað en ég tók samninginn minn fyrir sveinsprófið hjá RYK Íslensk hönnun en þar er hannaður og framleiddur fatnaður á konur. Mér fannst ótrúlega gefandi og skemmtilegt að vinna þar og er það eiginlega draumurinn að vera með saumastofu og framleiða kvenfatnað. Mér fannst svo ótrúlega gaman að hjálpa konum að finna föt sem passaði þeirra vexti. Það eru ekki allir sem passa í staðlaðar stærðir og vorum við mikið í því að stytta, lengja, víkka, þrengja o.s.fr. En svo verður maður auðvitað að taka það inn í myndina hvort það sé markaður fyrir svona framleiðslu hér í eyjum en ég ætla að vera skynsöm og byrja rólega og sjá hvað gerist.


Einstök saumastofa býður upp á sérsaum, viðgerðir, breytingar, mælingar og fl. Það er stór og góður mátunarklefi á saumastofunni og því get ég auðveldlega aðstoðað við mælingar, mátanir og fl. Það þarf ekki að hringja á undan sér, það er bara að mæta á opnunartíma en auðvitað má hafa samband við mig sérstaklega ef það er eitthvað. Stór verkefni eins og sérsaumur eða t.d. breytingar á brúðarkjólum og fleira sem taka lengri tíma þá er gott að heyra í mér og við ákveðum tíma saman. Ég vil einnig vekja athygli á því að ég er ein sem vinn á saumastofunni svo endilega að koma tímalega með fatnað sem þarf að vera tilbúinn fyrir ákveðna dagsetningu.
Einstök saumastofa er opin alla virka daga frá kl. 13:00-15:00 og er hún við Strandveg 50, 2. hæð (Hvíta húsið). Ef þessi opnunartími hentar ekki er hægt að hafa samband við mig í S: 698-2262 eða á facebook.com/einstoksaumastofa


Mig langar líka að nýta tækifærið og þakka kærlega fyrir frábærar móttökur.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search