Stelpurnar í handboltanum fengu topplið Fram í heimsókn til Eyja á laugardaginn í 11.umferð Olísdeildar kvenna.
Vilmar fer hér í stuttu máli yfir leikinn:
Okkar konur byrjuðu leikinn betur og komust í stöðuna 6-2 og svo aftur 10-5 en í kjölfarið áttu gestirnir góðan kafla og komu sér betur inn í leikinn. ÍBV leiddi 12-11 þegar flautað var til hálfleiks.
Fram konur byrjuðu síðari hálfleikinn betur, skoruðu 4 fyrstu mörk hálfleiksins en ÍBV neitaði að leggja ára í bát hélt í við Fram-ara. Um miðbik síðari hálfleik náðu stelpurnar okkar forystunni og héldu frumkvæðinu það sem eftir lifði leiks, en þær náðu með 3 marka forskoti og því óhætt að segja að leikurinn hafi verið svolítið kaflaskiptur. Þegar mínúta var eftir að leiknum voru ÍBV 1 marki yfir og gestirnir fengu tækifæri til þess að jafna en misstu boltann og Hrafnhildur Hanna innsiglaði frábæran sigur 26-24!
Marta var flott í markinu og varði 12 bolta (34,3%).
Hrafnhildur Hanna fór mikinn í leiknum. Hún skoraði 8 mörk, skapaði 7 færi, átti 3 vítasendingar og 3 löglegar stöðvanir í vörn.
Hún var í leikslok valin Kráar-maður leiksins og það vel verðskuldað.
Það má með sanni segja að þetta hafi verið alvöru liðssigur og lögðu allir sitt af mörkum til þess að fara heim með stigin 2 gegn toppliði deildarinnar. Það var fínasta mæting í húsið hjá okkur og þökkum við ykkur fyrir stuðninginn kæru stuðningsmenn!
Mörk ÍBV í leiknum:
Hanna 8, Ásta Björt 7, Elísa 4, Sunna 3, Birna Berg 2 og Harpa Valey 2.
Kári Steinn Helgason var valinn Kráar-stuðningsmaður dagsins en hann mikinn á trommunum og sló taktinn eins og herforingi! Hann fékk að launum gjafabréf frá nafna sínum Kára og hans fólki í Kránni eins og Hanna.
Næsti leikur hjá stelpunum verður á miðvikudaginn kemur þegar þær fara í Hafnarfjörðinn og mæta Haukum. Leikurinn hefst klukkan 18:00 og verður í beinni útsendingu á Stöð2Sport!