Jæja nú er farið að halla á seinni hluta sumarsins og haustið nálgast óðum. Margir koma eflaust vel undan þessu ljómandi góða sumri, slakir og sólbrúnir.
Framundan er vertíðin þar sem allt daglega líf okkar fer í rútínu og við dettum inn í tímabilið þar sem kröfur og álag verða ráðandi, hvort sem um er að ræða í starfinu eða einkalífinu. Með auknu álagi og meiri kröfum fer líkami og hugur okkar í ósjálfrátt viðbragð sem kallast streituviðbrögð.
Streita er okkur eðlislægt ástand þegar við erum að takast á við áskoranir, ef við hefðum ekki þessi viðbrögð værum við hreinlega dauð.Þannig að þökk sé streituviðbrögðunum okkar sem við höfum þróað með okkur frá frummanninum að það sé til tegund sem kallast mannkyn.
Orðið „streita“ hefur fengið frekar neikvæða þýðingu í huga okkar, orðið er á allra vörum og oft tekið þannig til máls að „allir eru bara að drepast úr streitu“.
Streitan hefur bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar. Streituviðbrögðin eru okkur gagnleg þegar þau hjálpa okkur að takast á við áskor- anir á uppbyggilegan hátt, þá finnum við fyrir kappsemi, aukinni orku, árverkni, skýrri hugsun, framkvæmdargleði og endorfínið flæðir um líkamann. Þegar við höfum svo komist í gegnum áskorunina, leitar líkami og hugur í að jafnvægisstylla taugakerfið, þá finnum við að það slaknar á líkamanum og við finnum fyrir ró og vellíðan.
Ósjálfráða taugakerfið skiptist annars vegar í drifkerfið sem keyrir upp varnarviðbrögðin okkar og hins vegar sefkerfið sem hjálpar líkamanum og huganum í jafnvægi og ró. Á tímum frummannsins þá var streituvaldurinn eða ógnin (t.d. ljónið) sem birtist skyndilega og streituviðbrögðin keyrðu upp varnarviðbrögð frummannsins og honum tókst að flýja eða drepa ógnina, í kjölfarið tók þá sefkerfið við og frummaðurinn gat slakað á. Í dag er ógnin ekki að koma og fara eins og áður fyrr, í dag er
streituvaldurinn viðvarandi ástand og við sífellt með öryggiskerfið okkar í gangi, þá fer streitan að vera neikvæð og með tímanum fer ástandið að koma niður á heilsu og velferð okkar. Fyrstu einkenni neikvæðrar streitu er orkuleysi, eirðarleysi, vöðvabólga, hnútur í maga, svitaköst, svefntruflanir, minnisleysi, endurtekin veikindi, neikvæðar hugsanir, stuttur þráður, viðkvæmni og svona get ég lengi talið.
Álagið og streitan er viðvarandi í lífi okkar í dag, við erum undir álagi í starfinu og svo förum við í hlutverk einkalífsins og þar er álagið ekki síður til staðar.
Streituvarnir okkar eru háðar því hversu mikið við hlúum að því að hleypa sefkerfinu betur að og gefa okkur leyfi til hvíldar.
Það er í okkar höndum að verjast streituni og bera meiri ábyrgð á líðan okkar.
Helsta mótefnið gegn streitu er góður svefn, hvíld á líkama og huga, regluleg hreyfing, heilbrigður lífsstíll, einföldun daglegs amsturs, forgangsröðun verkefna og að gera allt til að reyna að draga úr álagi.
Vitandi af því að við erum öll að fara að keyra okkur inn í álagstímabil hvernig væri þá að tileinka sér forvarnir með því að stuðla að fyrirbyggjandi streituvörnum, þannig að þegar álagið eykst þá séum við betur í stakk búin að til að takast á við komandi álag.
Berum ábyrgð á okkur sjálfum og spyrjum okkur „Hvað get ég gert í dag til að koma í veg fyrir vandamál á morgun“.
- Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir
