Það hafa eflaust flestir tekið eftir flottum krökkum úr 10.bekk standa við gangbrautir við skólana tvo hér í Vestmannaeyjum upp á síðkastið!
Nemendur í 10. bekk í GRV standa nú fyrir gangbrautavörslu á nokkrum fjölförnum gangbrautum á morgnana í svartasta skammdeginu með það fyrir augum að auka öryggi yngri nemenda á leið sinni í skólann.
Þetta er frábært verkefni sem eflir samfélagsvitund og samkennd og gefur nemendum tækifæri að taka þátt í samfélagsmálum á ábyrgan hátt. Þetta er í fjórða sinn sem 10. bekkur sinnir þessu verkefni og mun það standa fram í mars í ár.
Lögreglan í Vestmannaeyjum mun að sjálfsögðu vera áfram með venjubundið eftirlit við skólana og vera nemendum innan handar ef þörf er á.
Líkt og síðustu fjögur ár kemur Landsbankinn að verkefninu með veglegum styrk í ferðasjóð 10. bekkja í GRV og útvega vesti fyrir gangbrautaverðina. Landsbankinn vill með þessu framlagi leggja sitt lóð á vogarskálarnar þegar kemur að öryggi barna og unglinga í umferðinni í Vestmannaeyjum.
Lögreglan hvetur ökumenn, sem og gangandi vegfarendur, til að gæta fyllsta öryggis í umferðinni. Sérstaklega á það við nú þegar svartasta skammdegið stendur yfir þegar börn eru á leið til skóla á morgnana. Jafnframt hvetur lögreglan gangandi vegfarendur til að nota endurskinsmerki og ökumenn eru hvattir til að gæta fyllstu varúðar nærri skólum bæjarins sem og annars staðar.