11.08.2020
Vinnslustöðin er með flotta heimasíðu þar sem þau eru dugleg að setja inn fréttir og kynna starfsfólkið sitt til að mynda. Tígull mælir með að þú kikir inn á hana og skoðir þessa flottu síðu vsv.is. Hérna er eitt viðtal við hana Daníelu Götschi sem er starfsmaður Vinnslustöðvarinnar. Það er virkilega gaman að fá að kíkja inn á svona stóran vinnustað og hvað þá að kynnast fólkinu sem vinnur hörðum höndum þar alla daga.
Rokkarinn róaðist og fór í fiskvinnslu
„Orkan í Vestmannaeyjum á vel við mig og náttúrufegurðin höfðar til mín. Ég kom hingað fyrst sem ferðamaður og fann að hér biði mín ævintýri, tækifæri til að prófa eitthvað alveg nýtt í lífinu. Eyjarnar toguðu í mig,“ segir Daniela Götschi, starfsmaður í fiskvinnslu hjá Vinnslustöðinni. Hún er Svisslendingur að ætt og uppruna og ólst upp í Männedorf, tólf þúsund manna bæ við Zürich vatn. Þar á hún foreldra á efri árum, systur og systurdætur og fer reglulega á æskuslóðirnar til að heilsa upp á ættingja og vini – og hlaupa.
„Fyrir þremur árum hljóp ég heilt fjallamaraþon í fyrsta sinn og náði því svo að láta rætast draum um að klára maraþon með pabba, rúmlega sjötugum, í þekktu víðavangshlaupi sem náði upp í um 2.000 metra hæð í Sviss. Það var mikil reynsla og ein magnaðasta upplifun ævinnar, eitthvað sem aldrei gleymist.
Heimaey er annars góður staður til að hlaupa á og æfa sig.“
Airwaves og Eistnaflug ár eftir ár
Daniela kom fyrst til Íslands sem venjulegur túristi árið 2003. Nokkrum mánuðum síðar birtist hún aftur, þá til að fara á Airwaves-tónlistarhátíðina í Reykjavík. Hún átti eftir að koma nokkrum sinnum á þessa hátíð og varð eiginlega Íslandsvinur á Airwaves.
Eftir að hún settist að í Eyjum fór hún nokkrum sinnum á þungarokksamkomuna Eistnaflug í Neskaupstað. Grunnt er því á tónlistargenum.
„Já, ég var býsna villtur rokkari og er enn rokkari í hjartanu en hef róast umtalsvert! Vestmannaeyjar stuðluðu að því að ná mér niður og veita mér frið í sálinni.
Heima í Sviss var ég eins langt frá fiski og fiskvinnslu og hugsast getur, ég hafði ekki einu sinni bragðað neitt úr sjó. Þá var ég í draumastarfi við að bera út póst og naut þess mjög.
Mér var sagt strax í fyrstu ferð hingað að ef ég vildi kynnast Íslendingum og íslenskri menningu ætti ég að fá mér vinnu í fiski. Svo höguðu örlögin því til árið 2006 að ég vildi breyta alveg um umhverfi og þá kom Ísland upp í hugann. Ástæðurnar voru persónulegar annars vegar og ævintýraþrá hins vegar.
Árið 2007 kom ég til Vestmannaeyja, vann fyrst í fiski í Pétursey í fjóra mánuði og fór þaðan til Vinnslustöðvarinnar. Keypti meira að segja hús í Eyjum til að búa í og hér er ég enn.“
Alþjóðasamfélagið í Eyjum
„Hér er fínt að vera og ég hef kynnst vel íslensku samfélagi og menningu. Margt er öðru vísi en ég vandist heima í Sviss en áhugavert og gaman. Hins vegar bjóst ég ekki við því í upphafi að ég myndi líka lifa og starfa í alþjóðlegu umhverfi í Vestmannaeyjum. Það varð samt staðreynd. Hér starfar fólk sem kemur víðs vegar að úr veröldinni, með fjölbreyttan bakgrunn og menningu sem gefur mér mikið að kynnast.
Ég bý vissulega í Vestmannaeyjum og á rætur í Sviss en þegar öllu er á botninn hvolft býr hið raunverulega heimili innra með manni sjálfum. Það er tilfinning og hugarástand burt séð frá því hvar maður er staddur hverju sinni.“
Grein og mynd er frá heimasíðu vsv.is