Fjórar milljónir mynda á yfir sjötíu ára ferli

04.09.2020

Sigurgeir Jónasson, ljósmyndari og lífskúnstner ber aldurinn vel og ekki á honum að sjá að hafa legið við dauðans dyr aðeins hálfum mánuði áður en við spjölluðum saman. Hann hinn brattasti og að vinna í myndasafninu sínu sem telur hátt í fjórar milljónir mynda. Hann á athvarf í kjallara Safnahússins þar sem safnið er til húsa eftir að Sigurgeir og fjölskylda afhentu það Vestmannaeyjabæ til varðveislu fyrir tæpum sjö árum. Sigurgeir er náttúrubarn, með auga fyrir því fallega og jákvæða og hefur á rúmum 70 árum skráð sögu Vestmannaeyja í myndum og skilur eftir sig safn sem á sennilega ekki sinn líka hér á landi og þó víðar væri leitað.

 

Slapp fyrir horn

Sigurgeir verður 86 ára í þessum mánuði en ekki að sjá að Elli kerling hafi náð að festa í hann klærnar svo nokkru nemi. En litlu mátti muna fimmtudaginn 13. ágúst sl. „Hvað gerðist? Ég varð blóðlaus og man lítið tvo sólarhringana á undan,“ segir Sigurgeir. „Man ekki eftir því hvort ég var heima eða í vinnunni. Ekki heldur hvort ég fór heiman að frá mér eða Sjúkrahúsinu þegar ég fór í þyrluna. Man ekkert,“ segir Sigurgeir.

Hið rétta er að hann var í vinnunni, en fór á læknavaktina á þriðjudeginum 11.8. og er sagt að mæta í blóðprufu daginn eftir.  Á fimmtudeginum er hann í vinnu á safninu fram að hádegi. Eftir hádegi, þegar læknirinn er búinn að fá niðurstöðu úr blóðprufunum er ákveðið að leggja hann inn á spítalann hér. Þá var hann orðinn mjög blóðlítill og var ákveðið að senda hann suður. Mikil þoka var og þurfti þyrlu Landhelgisgæslunnar til að flytja hann á sjúkrahús í Reykjavík.

Meira og meira blóð

Verulega var af Sigugeiri dregið þegar hann mætti á sjúkrahúsið í Eyjum. Þar var dælt í hann tveimur pokum af blóði, einum í þyrlunni sem varð að lenda við Klaufina vegna þokunnar.  „Ég fór á Borgarspítalann og þar var haldið áfram að dæla í mig blóði, fjórum pokum til viðbótar. Þaðan var ég sendur á hjartadeildina á Landspítalanum þar sem ég lá í viku í allskonar rannsóknum og speglunum. Ég látinn fasta á meðan hinir voru að éta steikur en ég kjötsoð og sætsúpur.“

Hann var speglaður og rannsakaður innst sem yst en enginn fannst lekinn. Hugsanleg ástæða var að hann hafði étið nokkrar íbófentöflur við vöðvabólgu og þær sett gat á magann. „Var mér sleppt með þeim orðum að forðast íbófen og önnur bólgueyðandi lyf.“

Tekin 27. júlí 1980, í Geldungi í Vestmannaeyjum.
Hringvía með æti.

Byrjaði ungur að mynda

Í stuttri grein er erfitt að segja söguna alla af Sigugeir í Skuld en þessi sjúkrasaga lýsir okkar manni nokkuð vel. Kominn í vonlitla stöðu en lætur það ekki stoppa sig heldur áfram með jákvæðnina að vopni.

Það var snemma ljóst hvert hugurinn stefndi og viðfangsefnið klárt, fólk í leik og störfum, atvinnulífið, úteyjar og viðburðir í Eyjum og náttúra Vestmannaeyja. Sumir atburðir í stærri kantinum og hafa myndir Sigurgeirs birst í blöðum og bókum um allan heim. „Tólf ára gamall byrjaði ég að taka myndir í Álsey og er til heilt albúm eftir mig frá þessu sumri. Upp úr fermingu var ég að mynda fyrir bæjarblöðin, Fylki og fleiri blöð.“

Fyrstu myndir Sigurgeirs í einu af stóru blöðunum voru af grindhvala-vöðunni í Vestmannaeyjahöfn í ágúst 1958. „Það  var í Tímanum og sama haustið byrjaði ég að mynda fyrir Morgunblaðið. Síðan er ég búinn að lafa á Mogganum eða þeir á mér,“ segir Sigurgeir og hlær. „Alltaf sem ljósmyndari og stundum fréttaritari líka.“

Tekin 25. maí 1978 í Vestmannaeyjum.

Sigurgeir Jónasson frá Skuld finnur til skotsilfur sem gjald til Skerprestsins. Gömul venja fyrir þann sem kemur í sína fyrstu ferð í Súlnasker. Sést vel til Eyja.

 

Ævintýraferð með Árna Johnsen

Nokkrar ferðir fór hann um landið með Árna Johnsen að safna efni í Sjómannadagsblað Moggans sem þá kom út á hverju ári. „Einu sinni myndaði ég Grímsvatnagos af því að ekki var hægt að fljúga frá Reykjavík. Svo voru einstaka verkefni út um land sem ég tók að mér.“

Saman fóru þeir Árni mikla ævintýraferð til Honkong með Cargolux með millilendingu í Tælandi. „Við þurftum að lenda í Sýrlandi til að taka eldsneyti og þar fékk ég heiftarlega matareitrun eftir að hafa étið kjúkling. Varð hundveikur.“

Einstök ferð með Jöggu

Ekki var hún síðri ferð þeirra hjóna, Sigurgeirs og eiginkonunnar, Jakobínu Guðlaugsdóttur heitinnar til Galapagoseyja 1985. Það var sannkölluð ævintýraferð á vit hins óvænta. „Við flugum til Miami, þaðan til Panama og Ekvador á búgarð hátt uppi í Andesfjöllum. Næst tók við tólf daga sigling á bát, 50 tonna og mikill hiti. Káetan sem við vorum í var ekki stærri en svo að annað okkar varð að vera í kojunni á meðan hitt klæddi sig úr eða í. Þetta var ekki konum bjóðandi en Jagga kvartaði ekki.“

Og þau urðu ekki fyrir vonbrigðum. „Náttúran og dýralífið er eitthvað sem maður hefur aldrei kynnst fyrr eða síðar. Öll dýrin svo spök að maður gat gengið að þeim. Það kom mér m.a. á óvart hvað egg albatrosins eru lítil. Albatrosinn með sitt tveggja og hálfs metra vænghaf kemur úr eggjum sem eru lítið stærri en fýlsegg eða súluegg,“ segir Sigurgeir sem myndaði allt sem fyrir augu bar.

Gunnar Marel Tryggvason, Friðrik Ragnarsson og Stefán Friðriksson á Erlingi Ve. að koma í land með fullan bát.

Myndað þróun sjávarútvegs

Þegar talið berst að myndatökum hér heima segir Sigurgeir að þar hafi fiskurinn og allt í kringum hann verið ofarlega á blaði þegar velja átti myndefni fyrir Morgunblaðið. „Ég held ég hafi farið í róðra á öllum tegundum veiðarfæra. Mislanga en lengst voru það nokkrir dagar á skuttogaranum Vestmannaey. Vantaði snurvoð en fékk að fara einn róður þegar þeir voru að veiða þorsk í tilraunaeldið í Klettsvíkinni.“

Sigurgeir hefur fylgt eftir allri þróun í fiskverkun. „Já, maður hefur séð allar breytingar í fiskvinnslu á þessum tíma. Fyrst voru tvær konur á borði, svo fjórar, næst tók flæðilínan við og nú sjálfvirknin. Það hefur verið gaman að mynda breytingar og þróun í fiskveiðum og vinnslu og nú er öll þessi merka saga til.“

Tekin 28. febrúar 1977.
Stýrimaðurinn greiðir fyrir blýteininum.
Andrés Þórarinsson frá Mjölni.

Tvö eldgos

Tvo stóra viðburði, Surtseyjargosið 1963 og Heimaeyjargosið 1973 fékk Sigurgeir í fangið. „Ég fór 130 ferðir með bát út að Surtsey, oftast á Haraldi. Ég var aldrei hraustur til sjós og lifði á sjóveikispillum, hálfvankaður. Já, það var mikið lagt á sig.“

Þarna urðu eldingarmyndirnar til sem borið hafa hróður Sigurgeirs um allan heim og framundir þetta er verið að fá þær til birtingar. „Með þeim komst ég á kortið hjá stóru blöðunum úti í heimi, Life, National Geographic, Paris Match og fleirum.“

Heimaeyjargosið hafði mikil áhrif á Sigurgeir eins og aðra Eyjamenn með allri sinni eyðileggingu en um leið stórfengleika. „Við fjölskyldan eins og svo margir aðrir misstum húsið okkar við Grænuhlíð undir vikur og hraun. Ég var hérna allan tímann og myndaði það mikla sjónarspil sem gosið var. Sorgin var líka mikil en við komumst í gegnum þessa þraut.“

En hvað finnst Sigurgeir skemmtilegast að mynda?

„Fólk og aftur fólk. Auðvitað skilja myndir úr Surtsey og Heimaeyjargosinu mest eftir sig en fólkið er númer eitt ásamt öllu því sem snýr að sjónum,“ segir Sigurgeir sem sennilega hefur myndað flesta Eyjamenn á um 70 ára ferli sem ljósmyndari. Og er ennþá að.

Feðgatindur við Steðjan í Álsey. Kristinn Pálsson á bát og Gísli Grímsson á landi.

Tígull vill taka fram að í blaði vikunnar er viðtalið einnig að finna, en því miður urðu tvær villur: undir mynd þar sem Sigurgeir er að setja mynt í vörðuna er sagt að hann sé í  Álsey sem er rangt hann er þar í súlnaskeri og einnig í texta:

Albatrosinn með sitt tveggja og hálfs metra vænghaf kemur úr eggjum sem eru lítið stærri en fýlsegg eða súluegg,“  en í blaðinu sendur kríuegg sem er rangt.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is