Þriðjudagur 23. júlí 2024

Fjölgun bæjarfulltrúa lýsir fullkomnu taktleysi

16.09.2020

Fyrir bæjarstjórnarfundi morgundagsins liggur fyrir tillaga um nýja bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjabæjar. Verði hún samþykkt eins og hún liggur fyrir mun bæjarfulltrúum fjölga um tvo, úr 7 í 9.

 

Ákvörðun tekin án þess að kostnaður liggi fyrir

Líkt og oft áður ætlar meirihlutinn að taka kostnaðaraukandi ákvörðun fyrir bæjarsjóð án upplýsinga um verðmiðann sem ákvörðuninni fylgir.

Því óskaði undirrituð eftir slíkum upplýsingum en mánaðarlegur kostnaður vegna launa tveggja bæjarfulltrúa, þ.e. launa og launaliða er 450.412 kr og heildarkostnaðurinn á þriðja tug milljóna fyrir Vestmannaeyjabæ fyrir komandi kjörtímabil. Nú tínum við slíka fjármuni ekki upp úr götunni líkt og sumir virðast halda, en mánaðarlega þyrfti útsvar frá 10 nýútskrifuðum sjúkraliðum í fullri vinnu til að greiða laun þessara tveggja fulltrúa. Ég tel að útsvarinu væri betur borgið í beinni þjónustu við íbúana sjálfa, fremur en í vösum fleiri pólitískra fulltrúa.

 

Hróplegt taktleysi 

Á sama tíma og meirihlutinn leggur til að borga fleiri pólitískum fulltrúum laun er nýbúið að segja upp öllum starfsmönnum stærsta B-hluta fyrirtækis Vestmannaeyjabæjar, Herjólfi ohf. Þær fordæmalausu aðstæður sem heimurinn stendur frammi fyrir, efnahagsleg lægð og óvissa líkt og okkar kynslóðir hafa aldrei áður kynnst, ættu engu mannsbarni að vera framandi og hljóta að vera nægileg rök til að fá skynsamt fólk til að leggja slíkar hugmyndir til hliðar.

 

Óheilindi gagnvart kjósendum

Hvorugur flokkanna í meirihluta hafði það á stefnuskrá sinni að fjölga bæjarfulltrúum. Slík ákvörðun er stefnumarkandi og stór. Kjósendum þessara flokka var því haldið í myrkrinu gagnvart þessum fyrirætlunum. Hugsanlega hefðu einhverjir kjósendur hagað atkvæðum sínum á annan hátt hefðu flokkarnir verið opinskáir með stefnumál sín.

 

Pólitísk hrossakaup og gömul fyrirheit

Ragnar Óskarsson fyrrum bæjarfulltrúi Alþýðubandalagsins lét þau orð falla þegar Sjálfstæðisflokkur fækkaði bæjarfulltrúum úr 9 í 7 árið 1993 að ,,hann myndi beita sér fyrir fjölgun þeirra á ný”. Það má leiða líkum að því að ákvörðun um fjölgun bæjarfulltrúa sé ein af forsendum meirihlutasamstarfs E- og H- lista, ákveðin hrossakaup og að nú eigi loksins að efna, hátt í 30 ára gömul fyrirheit fyrrum leiðtoga vinstri manna í Vestmannaeyjum.

 

Hægt að auka lýðræðið án aukins kostnaðar

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa talað fyrir daufum eyrum þegar þeir benda á augljósa leið fyrir meirihlutann vilji þeir í raun og veru auka lýðræðið. Það er að fara að fordæmi Sjálfstæðisflokksins þar sem bæjarfulltrúar taka ekki sjálfir sæti í ráðum og nefndum heldur hleypa fleiri fulltrúum að ákvörðunartöku og umræðu um bæjarmálin og fá því fleiri raddir samfélagsins að heyrast. Það kostar sveitarfélagið ekki krónu en auðvitað bæjarfulltrúana sjálfa meiri vinnu og samstarf þó þeir fái sjálfir færri krónur í vasann. Það hugnast greinilega ekki fulltrúum H- og E- lista.

 

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu gera það að formlegri tillögu sinni á bæjarstjórnarfundi á morgun að ákvörðun um fjölgun bæjarfulltrúa verði dregin til baka.

 

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum

10 sjúkraliða þarf til að greiða laun tveggja nýrra bæjarfulltrúa

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search