Bergey VE kom til Vestmannaeyja á laugardagskvöldið vegna þriggja skipverja sem greindust með COVID-19 í hraðprófum sem tekin voru um borð.
Að sögn Arnars Richardssonar, rekstrarstjóra Bergs-Hugins sem gerir skipið út eru skipverjarnir ekki mikið veikir, þó hafi sá sem greindist fyrstu verið frekar slappur í gær. „Þeir framkvæmdu hraðpróf um borð í kjölfar þess að skipsfélagi þeirra sem fór í land á fimmtudag greindist jákvæður á föstudag.”
Arnar segir að niðurstöðu allra skipverja úr PCR-prófum komu í gær og voru eingöngu þessir fjórir smitaðir. Hann segir hina smituðu í einangrun og restin af áhöfninni hafi farið beint í sóttkví við heimkomu. „Við fórum í einu og öllu eftir því sem okkur ber, tilkynntum um þetta til Landhelgisgæslunnar og heilbrigðisyfirvalda.”
Áhöfnin fer svo aftur í sýnatöku á miðvikudaginn, þá kemur í ljós betur hvort fleiri sé smitaðir.
Skipið hefur verið sótthreinsað hátt og lágt og er því lokað til morgundags. Arnar segir að nú sé verið að meta hvenær hægt sé að fara á miðin á ný.