Á undanförnum árum hafa málefni barna verið í forgrunni hjá Ásmundi Einari Daðasyni félagsmálaráðherra. Ásmundur hefur staðið fyrir einu mesta átaki í málefnum barna sem nokkru sinni hefur verið framkvæmt með það fyrir augum að öll börn njóti sömu réttinda til opinberrar þjónustu. Að því leyti voru samþykkt ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, sem er risa stórt skref í átt auknum réttindum og bættri þjónustu í þágu barna.
Eitt af þeim slagorðum sem fleygt hefur verið fram fyrir kosningarnar komandi laugardag er „fjárfestum í fólki“. Þetta slagorð eru ekki orðin tóm þegar horft er til þess árangurs sem náðst hefur á kjörtímabilinu undir forystu Framsóknarflokksins. Þau endurspegla eitt helsta áherslumál Framsóknar í kosningunum sem gengur út á það að öll fjárfesting í fólki skilar sér margfalt til baka í framtíðinni.
Liður í því er að styðja árlega við frístundir barna með 60 þúsund króna vaxtastyrk til allra barna óháð efnahag foreldra. Með því móti lækka útgjöld fjölskyldna vegna frístunda, hvort sem börn stunda íþróttir, listir eða aðrar tómstundir sem henta áhugasviði hvers barns. Margítrekað hefur verið sýnt fram á að tómstundastarf styrki þroska barna, bæði líkamlegan og andlegan og ýti undir sjálfstæði þeirra og styrki sjálfsmynd.
Vaxtastyrkurinn bætist ofan á þá styrki sem mörg sveitarfélög bjóða börnum, þ.m.t. Vestmannaeyjabær. Þessi aðgerð jafnar tækifæri barna til virkrar þátttöku í tómstundastarfi og gerir börnum kleift að vaxa og dafna í fleiri tómstundum en ella. Hann stuðlar að auknu heilbrigði barna, líkamlegu og félagslegu og er sömuleiðis mikilvægur í forvarnarskyni.
Velferðarmál eru fjárfesting frekar en útgjöld. Ávinningurinn af þeirri fjárfestingu er ótvíræður, samfélaginu öllu til heilla.
Er ekki bara best að fjárfesta í ungu fólki?
Njáll Ragnarsson