Ferð starfsfólks FÍV á Sólheimajökul

Það voru ævintýraþyrst starfsfólk úr FÍV sem héldu af stað í dagsferð upp á meginlandið í vorfríi skólans þann 24. apríl. Tilgangur ferðarinnar var að ganga upp á Sólheimajökul. Jökullinn sem er 8 km langur skriðjökull er á Suðurlandi og hluti af Mýrdalsjökli.  

Lagt var að stað kl. 9:30 með Herjólfi og keyrt austur þar sem við höfðum mælt okkur mót við leiðsögukonuna okkar hana Berglindi. Við rætur jökulsins hristum við okkur saman og útbjuggum okkur betur þ.e.a.s. settum á okkur belti, hjálm og klæddum okkur í brodda. Við vorum afskaplega heppin með veður þennan daginn. Það var milt og gott auk þess sem ekki voru margir ferðamenn á sama tíma og við á ferli við jökulinn eða á honum. Það vakti athygli okkar að við vorum fyrsti íslenski hópurinn sem Berglind hefur farið fyrir á meðan hún fer með ríflega 2000 nemendur frá Bretlandi upp á jökulinn árlega. Það er semsagt ekki algengt að Íslendingar fari í jöklaferðir á borð við þessa enda ráku aðrir leiðsögumenn upp stór augu þegar þeir mættu okkur, heyrandi að við vorum íslensk. Þegar upp á jökulinn var komið fengum við smá fræðslu um svæðið og Sólheimajökul sjálfan, hvernig hlýnun loftslags hefur áhrif á hann og hversu mikið hann hefur minnkað í gegnum tíðina. Það voru djúpar sprungur og hættur við hvert fótmál og mikilvægt að við héldum hópinn. Við stoppuðum stöku sinnum á göngunni, nutum stórbrotins útsýnisins og fengum okkur ískalt jökulvatn að drekka á meðan við spjölluðum um það sem fyrir augu bar. Við létum ekki staðar numið eftir Sólheimajökul heldur keyrðum einnig að Skógum og skoðuðum byggðasafnið þar sem er virkilega skemmtilegt. Við gengum einnig að Kvernufossi sem er í 10 mín göngufæri frá Byggðasafninu. 

Því er ekki hægt að neita að það að upplifa náttúru sem þessa er mikilvæg reynsla fyrir okkur öll. Þegar við upplifum hana með eigin augum, öðlumst við annan skilning á henni, styrkjum tengsl okkar við hana og áttum okkur þ.a.l. betur á því hve dýrmæt hún er fyrir okkur og hvernig á að fara með hana. Þetta var stutt en engu að síður ógleymanleg ferð og verður vonandi endurtekið árlega héðan í frá að fara í ævintýraför sem þessa en að auki að hafa fleiri vettvangsferðir fyrir nemendur sem hluta af námsmati í framtíðinni. 

F.h. FÍV

Jóna Heiða Sigurlásdóttir

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is