Föstudagur 23. febrúar 2024

Fastur tannlæknir kominn á hólagötuna – viðtal

Hlýja tannlæknastofan við Hólagötu er loksins að fá til sín fastan tannlæknir á ný

Það er hún Íris Þórsdóttir tannlæknir sem er að flytja til Vestmannaeyja. Tígull fékk Írisi til að kynna sig fyrir eyjafólki

Ég heiti Íris Þórsdóttir og er fædd árið 1989 í Reykjavík. 

Ég er elst þriggja systkina og ólumst við upp í Grafarvoginum og gekk ég í Rimaskóla. Eyjamenn þekkja líklega systur mína, Birtu, en hún hefur komið sem “farand”-tannlæknir hingað til Eyja nokkrum sinnum og svo á ég einnig bróður sem heitir Atli en hann hefur ekki þetta sama tanna-áhugamál og við systurnar og fór því aðra leið og lagði stund á flugnám. Ég æfði lengi frjálsíþróttir með Fjölni en ákvað að leggja gaddaskóna á hilluna þegar ég hóf tannlæknanámið. 

Mamma og pabbi, Agnes Ingadóttir og Þór Sigurðsson, eru miklir golfarar og almennt frábært stuðningslið okkar systkinanna og auðvitað strákanna minna líka en þau eru búsett í Reykjavík, (þótt ég voni nú að þau elti okkur hingað í golfparadísina).

Við Halli (Haraldur Pálsson) kynntumst á þjóðhátíð 2010 og hófum okkar sambúð um haustið 2010. Halli er sonur Rutar Haraldsdóttur og Páls Guðmundssonar Eyjamanna með meiru og bróðir hans er Kristinn Pálsson. Við Halli og strákarnir erum mikið þjóðhátíðarfólk og er fjöldi þjóðhátíða kominn í tveggja stafa tölu hjá mér en ég fór á mína fyrstu 2008. Við eignuðumst flottustu og bestu stráka í heimi í maí 2014, eineggja tvíburana Þórarinn Inga og Aron Gísla. Þeir gera alla daga betri og hafa mótað mig persónulega sem manneskju á fleiri vegu en hægt er að ímynda sér. 

Hvenær úrskrifaðistu sem  tannlæknir?

Ég kláraði Tannlæknadeild HÍ haustið 2015 og hef starfað á mörgum tannlæknastofum í Reykjavík síðan þá og fengið víðtæka reynslu, auk þess sem ég vann sumarið 2015 hér í Eyjum. Sumarið 2018 hóf ég störf hjá Hlýju tannlæknastofu í Glæsibæ en meðfram því hef ég sinnt stundakennslu við Tannlæknadeild ásamt því að sinna áhugamáli um fræðslu á tannheilsu í útvarpi og öðrum vettvangi.

Hvernig muntu haga vinnunni hér í Vestmannaeyjum?

Nú stefnum við á flutninga til Vestmannaeyja í sumar og mun ég praktísera hjá Hlýju tannlæknastofu hér í Eyjum. Tannlækningar eru ekki bara vinna fyrir mér heldur stórt áhugamál og þykir mér ég einstaklega heppin að hafa fundið starf sem ég brenn fyrir. Ég elska líklega mest að móta tannlæknaupplifun barna, gefa þeim jákvæða og skemmtilega reynslu og ef eitthvað kemur upp sem þarf að laga þá byggir það á fyrra trausti og vinskap. Ég notast mikið við glaðloft í minni vinnu með börn og hjálpar það á marga vegu, meðal annars gefur það ró og minnkar kvíða ef einhver er, börn fá oft bros á vör og “kósý-tilfinningu” í líkamann og erfið upplifun á ýmiss konar tannviðgerðum er satt að segja ansi fátíð þegar við notum glaðloftið. Annað áhugamál mitt innan tannlæknisfræðinnar eru útlitstannlækningar eða á mannamáli að gefa fólki fallegra bros. 

Hver er þín aðstoðarmanneskja/tanntæknir á stofunni?

Aðstoðarmanneskja mín á stofunni verður Svala Björk Hólmgeirsdóttir en hún var að útskrifast sem tanntæknir frá FÁ núna í vor og hlakka ég mikið til samstarfsins. Ég bind vonir við að fá fleiri tannlækna Hlýju til Eyja, hvort sem er í stuttar ferðir eða lengri tíma en ekkert hefur verið ákveðið í þeim efnum.

Hver verður opnunartíminn á stofunni?

Nú hafa Vestmannaeyingar búið við það um árabil að hafa ekki næga tannlæknaþjónustu og hugsa ég að það taki smá tíma að vinda ofan af þessu ástandi. Ég vona að Eyjamenn sýni því skilning og þolinmæði. Ballið hefst í rólegheitum seinni part júní í bland við flutninga og sumarfrí og í haust mun ég einnig sinna viðskiptavinum mínum í Reykjavík eina viku í mánuði. Ég hlakka til að taka á móti Eyjamönnum og mun byrja að taka við tímapöntunum í vikunni 20.-25. júní. Opnunartíminn verður hefðbundinn; 8:00-16:00 mánudaga-fimmtudaga og 8:00-14:00 föstudaga. Fyrst um sinn verð ég í fríi á föstudögum en stofan verður opin svo hægt verður að bóka tíma.

Einhver lokaorð?

Auk vinnunnar hér hlakka ég til að njóta eyjunnar fögru með fjölskyldu og vinum og njóta útivistar í fallegasta umhverfi í heimi. Ef þið finnið mig ekki á tannlæknastofunni eru líkurnar á að ég sé uppi á Heimakletti ansi miklar og aldrei að vita nema ég hefji tannfræðsluferðir þangað upp með haustinu. 

Þú getur fylgst með Írisi á Instagram: iristhorsdottir –   Íris Þórsdóttir tannlæknir

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search