Fagnað eins og týnda syninum á Þjóðhátíð

„Þegar ég fékk beiðni um að fara með Vestmannaeyingum á Njáluslóðir, vestur í Flóa og víðar um Suðurland var það hamingjustund fyrir mig því enginn þjóðflokkur á Íslandi er jafn skemmtilegur og Vestmannaeyingar. Það er alltaf stuð þar sem þeir fara um. Þannig að þetta var gríðarlega hátíðlegur dagur fyrir mig, mikið hlegið og gaman að vera með þeim,“ segir Guðni Ágústsson, fyrrum ráðherra og alþingismaður Framsóknar í Suðurlandskjördæmi.

Tilefnið var að heyra kynni hans af þjóðhátíð í Vestmannaeyjum en ferðin sem hann nefndi er dagsferð með eldri borgurum í Vestmannaeyjum um Suðurland fyrr í sumar þar sem hann var fararstjóri. Flott ferð og ánægja á báða bóga. „Þeir eru skemmtilegir enn í Vestmannaeyjum og svo hafði ég gaman að segja þeim nútímasögur og frá þessum jafnöldrum mínum á Njáluslóðum, Njáli og Gunnari,“ sagði Guðni þegar hann var spurður hvað 

hefði að hans mati staðið upp úr í ferðinni.

„Svo voru örlögin það þung að við hvorki komumst niður að Bergþórshvoli né að Hlíðarenda heim en horfðum á bleika akra og slegin tún. Minntumst þessara fallegustu hjóna Íslandsögunnar, Gunnars og Hallgerðar. 

Flóaáveitan og Kínamúrinn

Annars fannst mér margt standa upp úr. Við komum í Flóann, að hátindi frægðar Íslands, Flóaáveitunni. Þar þorði rútan ekki að fara tröllaukinn veg eftir ruðningunum og við urðum að aka yfir græn tún Ketils bróður míns til að sjá skurðinn mikla. En Flóaáveitan er frægasta mannvirki Íslands því þegar fyrsti tunglfarinn steig á tunglið forðum, hrópaði hann til jarðarinnar, ég sé tvö mannvirki á jörðinni, annað er Kínamúrinn og mér sýnist hitt vera Flóaáveitan. Þannig að það var sannarlega gaman að vera þarna með Vestmannaeyingum.“

Glöddust ef maður reif kjaft

Aðspurður sagðist Guðni eiga frábærar minningar frá Eyjum og Þjóðhátíð þekkir hann vel. „Ég á þaðan frábærar endurminningar úr minni pólitík og var þarna á óskaplega merkum fundum. Þá reyktu Vestmannaeyingar enn og reyktu svo mikið að maður var í kófi á fundunum. Þeir rifu kjaft, skömmuðu mann eins og hund og tóku svo utan um mann og kysstu á kinnina. Voru glaðir ef maður reif kjaft við þá.“

Dalurinn logaði af dýrð

Og ungur fór Guðni á Þjóðhátíð. „Já. Ég hef farið á Þjóðhátíðir. Fór með góðum félögum mínum á hátíðina 1972, þá síðustu fyrir gos. Það var ógleymanlegt að vera þar í tjaldi. Koma í hvítu tjöldin, þá óþekktur strákur og var tekið allstaðar eins og týndum syni. Svo minnist ég enn þegar Siggi Reim stökk upp að bálkestinum á Fjósakletti. Kveikti í og allur Dalurinn logaði af dýrð. 

Svo gerði ég það að gamni mínu fyrir örfáum árum að ég brá mér út, var einn dag og vakti í sólarhring. Gekk um og þeir fögnuðu mér enn Eyjamenn sem týndum syni þó fæstir þeirra hafi nokkurn tímann kosið mig. Það var alveg dýrleg stund að vera í Dalnum þar sem Árni vinur minn Johnsen söng þjóðsönginn. Nú hefur drengurinn hann Ingólfur Þórarinsson tekið við. Til gamans má geta þess að nú búa foreldrar hans í hvíta húsinu sem ég byggði við Ölfusárbrúna. Árni fann upp Brekkusönginn og gerði þjóðsönginn frægan og nú hefur Ingó tekið við. Þannig að ég á ekkert nema góðar minningar frá Þjóðhátíð.“

Pabbinn sótti manndóminn til Eyja

Og Guðni var ekki sá fyrsti í fjölskyldunni sem sótti Eyjarnar heim. „Faðir minn, Ágúst á Brúnastöðum sótti manndóm sinn til Eyjanna. Var á Kirkjubæ og reri með Eyjólfi Gíslasyni, skipstjóra á Bessastöðum í tólf vertíðir. 

Ragnar frændi minn, Raggi í Hvammi kom með tröllauknar sögur og mikinn hlátur. Þeir muna hann enn sumir og margir Vestmannaeyingar litu við á Brúnastöðum til að heimsækja pabba.“

Að lokum minnist Guðni vinar síns, Sigmunds Jóhannssonar, teiknara og uppfinningamanns með meiru. „Já. Þó þeir kysu mig ekki margir Eyjamenn hjálpaði Sigmund mér meira en margur. Hann teiknaði mig meira en 200 sinnum í Morgunblaðið og alltaf sem víking. Ég var aldrei í maddömukjólnum,“ sagði Guðni og biður fyrir kveðjur til Vestmannaeyinga.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search