27.09.2020
Eyjamaðurinn Haraldur Pálsson er annar stofnenda Fasteigna-miðlunarinnar e-fasteignir– sem hóf starfsemi fyrir skömmu. Þeir veita heildstæða þjónustu í fasteignaviðskiptum.
Skjalavinna verður eins sjálfvirk og rafræn og hægt er.
Söluferli fasteigna á svo til allt að geta gengið rafrænt fyrir sig þegar áformaðar breytingar eru gengnar í gegn.
Tígull tók hús á Haraldi og fékk hann til að svara nokkrum spurningum.
Fullt nafn og aldur?
Haraldur Pálsson, 31 árs.
Fjölskylda?
Sambýliskona mín er Íris Þórsdóttir, synir okkar heita Aron Gísli og Þórarinn Ingi báðir 6 ára. Foreldrar mínir eru Páll Þór og Rut, bróðir minn heitir Kristinn.
Fæddur og uppalinn?
Ég er fæddur á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja árið 1989, þekkti lítið annað en Vestmannaeyjar þar til ég fór í nám fyrir sunnan.
Námsferill?
Ég var í leikskóla á Sóla, tók grunnskólaprófið í Hamarsskóla og lauk stúdentsprófi í FÍV, samhliða tók ég stýrimanninn og hélt því áfram samhliða námi í hagfræði við Háskóla Íslands. Að endingu bætti ég við tölvunarfræðigráðu úr sama skóla.
Hverjir standa á bakvið e-fasteignir? Við erum tveir stofnendur að e-fasteignum, Ómar Þór er upphafs-maðurinn að kerfinu og ég kom að því sem meðstofnandi á síðari stigum.
Hvernig virkar e-fasteignir eða út á hvað gengur ferlið?
e-fasteignir virka þannig að seljendur geta fundið sinn fasteignasala gegnum kerfið. Seljendur skrá sína eign inn á vefinn og velja fasteignasölur sem þeir óska eftir tilboðum frá. Í kjölfarið senda fasteignasalarnir tilboð í söluþóknunina og seljandinn velur þann sem honum lýst best á í kerfinu. Besti parturinn er síðan að seljendur eru betur upplýstir um gang mála. Geta fylgst með stöðunni í kerfinu og séð þegar tilboð berast í eignina.
Hvernig kom til að þið fóruð út í þetta?
Okkur fannst vanta betri upplýsingar til bæði kaupenda og seljenda. Við töldum brýnt að stytta allar boðleiðir og auka aðgengi að sölugögnum til að gera ferlið skilvirkara og betra fyrir alla aðila í fasteignaviðskiptum. Síðan þróaðist þetta einnig út í uppboðsmarkað, rafrænar undirritanir og sjálfvirkt skjalakerfi.
Hvernig eru viðbrögð almennings við þessu? Við höfum fengið mjög góð viðbrögð. Við vitum að fólk vill meiri upplýsingar. Það getur verið mjög hentugt að geta athugað stöðuna á sölunni á þeim tíma sem helst hentar manni, frekar en á tilteknum opnunartímum. Við þekkjum þetta með heimabankann, núna erum við að færa fasteignaviðskiptin á vefinn.
Er þetta eitthvað sem við í Eyjum getum nýtt okkur? Tvímælalaust, rafrænar undirritanir í kerfinu hjálpa hjónum að ganga frá undirritunum í tilboðsgerðinni. Sérstaklega þegar annar aðilinn er í vaktavinnu, á sjó eða á erfitt með að bregða sér frá. Þá er einnig gott að geta sent undirrituð kaup- eða gagntilboð utan skrifstofutíma.
Síðan eru öflugir fasteignasalar í Eyjum. Það getur því verið vandasamt að velja á milli, kerfið getur því einfaldað þér valið, þar sem þú getur óskað eftir tilboðum frá þeim í þjónustusamninginn.
Eitthvað að lokum? Ég mæli með að fólk skoði vefinn okkar efasteignir.is, það er án skuldbindinga að leita eftir tilboðum í sölusamning.