Í kvöld var samþykkt á Alþingi að fæðingarorlof yrði lengt úr níu mánuðum í tólf og segir forsætisráðherra þetta vera góðan dag fyrir íslenskt samfélag.
Alþingi samþykkti í kvöld að fæðingarorlof yrði lengt úr níu mánuðum í tólf í tveimur skrefum. „Þetta er risastórt framfaraskref fyrir íslenskar fjölskyldur, börn og foreldra þeirra, en líka risastórt jafnréttismál,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra um málið á Facebook síðu sinni.
Saga réttinda til fæðingarorlofs á Ísland er frekar áhugaverð að mati Katrínar en í samanburði við við önnur Norðurlönd kom rétturinn seint til og var að auki þröngt skilgreindur framan af.
„Árið 1980 voru samþykkt lög um að allar konur fengju rétt til þriggja mánaða orlofs og greiðslur í sex mánuði, en heimavinnandi konur áttu rétt á þriðjungi af greiðslum sem konur á vinnumarkaði fengu,“ segir Katrín sem rekur sögu orlofsins í stórum dráttum í færslunni.
Tveir áratugir síðan síðustu breytinga
Núgildandi lög um fæðingarorlof komu til sögunnar árið 2000 og var rétturinn þá lengdur í þrepum í níu mánuði. „Önnur tuttugu ár liðu þannig án þess að orlofið lengdist nokkuð, þangað til núna í tíð okkar ríkisstjórnar.“
Ríkisstjórnin hafi á síðustu tveimur árum annars vegar hækkað greiðslur og hins vegar lengt orlofið. „Hvorttveggja mikilvæg skref til að vinna gegn fátækt barna og auka lífsgæði barnafjölskyldna. Góður dagur fyrir íslenskt samfélag,“ segir forsætisráðherra að lokum.

Tekið af vef Fréttablaðsins.