Eyrnasuð

Eyrnasuð

Eyrnasuð (tinnitus) er hvers konar hljóð sem heyrist inni í eyranu eða höfðinu og kemur ekki frá umhverfinu. Vægt eyrnasuð er mjög algengt, segja má að næstum allir finni fyrir eyrnasuði eftir mikinn hávaða en eyrnasuð getur líka komið upp úr þurru en yfirleitt hverfur það eftir smá tíma.
Rannsóknir hafa bent á að 10-20% fólks finni fyrir langvarandi eyrnasuði. Suðið er missterkt og getur verið stöðugt eða komið með hléum.

Erfitt getur verið að lýsa eyrnasuði fyrir þeim sem aldrei hafa upplifað slíkt en því hefur verið lýst sem; suði, drunum, þit, tón, hringli, klið, hvísli, slætti og ískri. Það getur verið hvort sem er í öðru eyranu eða báðum. Eins getur styrkur suðsins/hljóðsins verið mjög breytilegur, stundum vægur og stundum sterkur. Eyrnasuð er ástand sem hrjáir fólk á mjög einstaklingsbundin hátt og getur verið mjög ergilegt og truflandi. Eyrnasuð er ekki sjúkdómur heldur einkenni einhvers sem truflar starfsemi eyrans eða heyrnartaugarinnar. Orsakirnar geta verið fjölmargar og eru sumar þekktar en aðrar ekki. Langflestir sem eru með eyrnasuð hafa fengið það eftir að hafa unnið í hávaða í lengri tíma en einnig er þekkt að einn hávær hvellur geti líka orsakað eyrnasuð til lengri tíma. Þess ber þó að geta að sumir sem eru með eyrnasuð hafa aldrei unnið eða verið í hávaða. Orsökin getur einnig verið bakteríusýking í miðeyra, veirusýking í innra eyra, skemmdir á taugaendum heyrnartaugarinnar, vöðvabólga, æxli í heyrnartaug, sjúkdómar í kjálkalið eða innra eyra, æðavandamál, ofnæmi, eyrnamergur, lyfjanotkun og fleira. Oft finnst engin orsök þrátt fyrir ítarlega leit.

Meðferð
Langflestir sem leita sér hjálpar vegna eyrnasuðs eru alheilbrigðir og suðið ekki einkenni um neitt alvarlegt heilsufarsvandamál. Fyrst og fremst skal einstaklingur með eyrnasuð ráðfæra sig við sinn heimilislækni sem sker úr um orsakir eyrnasuðsins eða vísar einstaklingnum til frekari skoðunar hjá háls-, nef- og eyrnalækni. Notast er við ýmiskonar próf til að greina orsök og eðli suðsins. Meðferðin ræðst svo mikið til af því hvort viðkomandi er með einhvern sjúkdóm sem veldur eyrnasuðinu sem hægt er að lækna. Í mörgum tilfellum fara saman eyrnasuð og heyrnartap sem getur verið í öðru eða báðum eyrum.
Ef ekki finnst orsök eyrnasuðsins er ekki hægt að finna lækningu við því en til eru ýmsar aðferðir við meðhöndlun þess sem gera eyrnasuðið bærilegra. Það er einstaklingsbundið hvað hentar hverjum og einum og þarf því að gefa sér tíma til að prófa ýmsar leiðir til að sjá hver reynist viðkomandi best.

Nokkrar aðferðir til að gera eyrnasuð bærilegra

 • Heyrnartæki. Heyrnartap fylgir stundum eyrnasuði og þá getur verið gott að prófa notkun heyrnartækja sem magna upp hljóð umhverfishljóða og gera suðið minna áberandi.
 • Suðari. Suðari er lítið tæki sem nota lágt samfellt hljóð til að maður greini síður eyrnasuðið. Suðari fjarlægir ekki eyrnasuðið heldur lætur suðið eða sónninn virka mýkri. Sumir eiga betur með svefn ef þeir nota maska.
 • Lyfjameðferð. Til eru lyf sem slá á eyrnasuð.
 • Ráðgjöf. Skilningur og hlustun fagaðila eða jafnvel vinar getur hljálpað
 • Tónlist/hljóð. Umhverfishljóð, sjávarniður, fuglahljóð.
 • Slökun. Slökun skiptir máli því streita getur magnað eyrnasuð.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Rán Jósepsdóttir,
Hjúkrunarstjóri heilsugæslu Rangárþingis

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

 • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
 • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
 • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
 • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
 • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
 • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
 • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search