Eyjastrákar í atvinnumennsku í þýskum handbolta

Þýska handboltaliðið Vfl Gummersbach er gamalt stórveldi í þýskum handbolta

Liðið spilar í dag í annarri deild en er í toppbaráttunni um að komast upp í fyrstu deild.  Þjálfari liðsins er Guðjón Valur Sigurðsson sem sjálfur lék með Gummersbach á árunum 2005-2008 og varð markakóngur á fyrsta tímabili sínu með liðinu, sem þá var í fyrstu deild. Þetta er fyrsta verkefni Guðjóns Vals sem þjálfara hjá stóru liði. Áður hafði annar íslendingur; Alfreð Gíslason þjálfað Gummersbach á árunum 2006-2008. 

En þetta er ekki eina tenging íslendinga við Gummersbach heldur spila tveir ungir eyjamenn með liðinu og fóru þeir þangað beint frá ÍBV.  Elliði Snær Viðarsson gerði samning við liðið á haustmánuðum 2020 og Hákon Daði Styrmisson fór utan nú í haust. 

Liðið Gummersbach er í samnefndum bæ sem er staðsettur í 50 kílómetra fjarlægð austur frá Köln og telur bærinn um 51.000 þúsund íbúa.

Elliði Snær Viðarsson hefði ekki getað beðið um betri stað til að byrja á

Elliði Snær hefur verið hjá Gummersbach síðan rétt fyrir tímabilið 2020/2021 en hann kom til þeirra á miðju undirbúningstímabili.  “Guðjón þjálfari hringdi í mig og ég var kominn út 5 dögum seinna og rétt fyrir fyrsta æfingaleikinn, svo það gerðist frekar hratt segir Elliði. Hann segist ekki hafa getið beðið um betri stað til að byrja á og bjó hann heima hjá Guðjóni þjálfara fyrstu tvo mánuðina meðan hann var að bíða eftir íbúð. Svo það má segja að heil fjölskylda hafi tekið honum opnum örmum þegar hann mætti á staðinn.

Elliði spilar á línu en er í vörn líka.  Elliði átti allan sinn feril hjá ÍBV fyrir komuna til Gummersbach, en hefur einnig spilað með unglingalandsliði Íslands og landsliðinu. Elliði er með samning út þetta tímabil og var að framlengja um eitt tímabil í viðbót. 

Gaman að vera í litlu samfélagi þar sem fólk kannast við hvort annað

Honum hefur líkað mjög vel úti, þetta er huggulegur bær og gaman að vera í svona litlu samfélagi þegar maður kemur frá Vestmannaeyjum.  Stórborgin hefði ekki hentað mér vel segir Ellliði.  Þó það búi ákveðinn fjöldi hérna finnur maður að þetta er lítið samfélag og fólk kannast við hvort annað. 

Aðspurður um framtíðina í handboltanum segir hann að vonandi klári þeir þetta tímabil með sóma og ef allt gangi upp fari þeir upp um deild og þá í fyrstu deildina en akkúrat í dag eru þeir í efsta sæti annarrar deildar. Annars verður bara tíminn að leiða í ljós hvað gerist segir Elliði rólegur í fasi. En það er ómögulegt að segja með framtíðina, en ég stefni á að vera úti að spila alla vega nokkur ár í viðbót. 

Elliði passar greinilega upp á að leggja sitt af mörkum til að halda skemmtilegri stemningu í leikmannahópnum því þegar við ræddum við hann hafði hann nýlokið við að bjóða leikmönnum og starfsmönnum liðsins upp á íslenska veislu í klefanum eftir æfingu.  Hann bauð þar upp á íslenskar pylsur með öllu, skyrtertu og lakkrístoppa. Vakti íslenska veislan mikla lukku.  

Aðspurður um stemninguna á áhorfendapöllunum að þá sagði Elliði að það sé kannski ekki alveg marktækt ennþá því allan tímann sem hann hefur spilað með Gummersbach hafa verið einhverjar takmarkanir í gangi út af Covid. Á tímabili voru engir áhorfendur leyfðir en í dag má nýta helming sæta í heimahöllinni.  

 

Mikilvægast af öllu er að hafa trú á sjálfum sér

Við spurðum Elliða út í hvað maður þyrfti að gera til að verða góður í handbolta. “Það þarf bara að leggja á sig mikla vinnu til að ná langt og það þarf að huga að mörgum þáttum. Mæta á aukaæfingar, mæta á lyftingaræfingar og hafa rétta hugarfarið til að fara alla leið, það er kannski það mikilvægasta af öllu að hafa trú á sjálfum sér” sagði Elliði. 

Jólin í Þýskalandi

Gummersbach spila leik milli jóla og nýárs svo það lá beint við að spyrja Elliða hvernig jólin yrðu í Þýskalandi.  “Þau verða áhugaverð annað árið í röð.  Í fyrra vorum við þrír saman á jólunum, ég, Arnór bróðir minn og Guðjón þjálfari en núna verðum við átta saman, ég Hákon Daði, bróðir hans og kærasta, svo Óðinn nýji leikmaðurinn sem er hérna tímabundið í fjóra leiki og svo koma Arnór og tveir vinir mínir í heimsókn”. Eins og staðan er núna stefna þeir á að vera með nautasteik og graflax í forrétt en ekki er búið að skipuleggja eftirréttinn.  En hver skyldi nú elda jólamatinn ?  Elliði reiknaði með að hann og Beddi vinur hans yrðu yfirmenn í eldhúsinu þó það væri ekki búið að negla neitt niður ennþá. 

 

Hákon Daði Styrmisson að upplifa drauminn

Hákon Daði kom út til Gummersbach 20.júlí 2021 og spilar hann vinstra horn. Hann var búinn að vera hjá ÍBV samfleytt síðustu þrjú ár en hefur einnig spilað með Haukum.  Hann segir að það hafi gerst hratt snemma síðasta vors að skrifað var undir samning við hann.  Hann er með samning hjá Gummersbach til 2024. 

Aðspurður hvernig það sé að vera kominn í atvinnumennsku segir Hákon “Fyrir mig er það geðveikt, það er búið að vera draumur og nú er draumurinn byrjaður og það er alveg magnað, það gerðist líka bara allt í einu”.  Hákon Daði segir að hann hafi markvisst stefnt að þessu markmiði, sérstaklega síðustu þrjú árin og hafi innst inni vitað að hann fengi tækifæri á einhverjum tímapunkti. Það sé auðvitað svo munur á því að geta orðið einbeitt sér að handboltanum í stað þess að þurfa að vinna fulla vinnu með líkt og hann þyrfti að gera ef hann væri að spila með félagsliði á Íslandi.

Geggjaður klúbbur, flottur bær og umgjörðin tipp, topp !

Hákon Daði er mjög ánægður í Gummersbach og segir að honum finnist klúbburinn geggjaður, bærinn ótrúlega flottur og umgjörðin í kringum handboltaliðið sé tip, top.  Svo sé þjálfarateymið ótrúlega gott og framtíðarsýnin hjá félaginu stór og mikil.  Hann segir að andinn í liðinu helgist svoldið af því að liðið sé frekar ungt og allir að róa í sömu átt.  

Hann segir að það séu allir að leggja sig ótrúlega mikið fram og æfingarnar séu góðar.  Viljinn er fyrir hendi að ná langt sem sé frábært. Strákarnir í liðinu reyna svo að gera stundum eitthvað skemmtilegt saman fyrir utan æfingar til að tengjast betur. Það eru stundum matarboð á milli, farið í spa og fleira. Flestir í liðinu tala þýsku en þeir sem gera það ekki fá einkakennslu í þýsku tvisvar sinnum í viku, það skiptir sérstaklega miklu máli að við getum talað allir saman segir Hákon.  Hann segir að þýskan fari öll að koma hjá sér

En hvernig sér Hákon Daði framtíðina fyrir sér í handboltanum.   “Mig langar að vera úti og spila fyrir besta liðið sem mér er kostur á , langar að vera úti og vera í landsliðinu, það eru mín markmið”.

En hvernig leggst það í Hákon Daða að halda jól í Þýskalandi?

“Það verður öðruvísi, en verður örugglega ógeðslega gaman og við verðum saman nokkrir sem erum góðir vinir.  Svo það leggst bara vel í mig” sagði Hákon að lokum. 

+

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is