01.04.2020 kl 20:24
Maður er óneitanlega bæði skelkaður og meyr yfir stöðunni sem komin er upp síðan þessi veira fór að hafa áhrif á okkur öll. Margir tala um sjálfsskoðun og endurmat á daglegu lífi. Hvað er það sem skiptir okkur mestu máli og hvað er það sem býr til samfélag?
Nú þegar við höfum verið svona mikið heima, hvað er það sem við söknum? Er það ekki fólkið sem myndar samfélagið og þeir staðir sem við hittum þau á? Hvaða stund er það fyrir þér? Er það að mæta snemma til bakarans þar sem ilmurinn er bestur og ræða afla vikunnar, eða er það í ræktinni þar sem morgunspjallið hefst hjá þér? Er það að hitta vinina á brugghúsinu eftir að vinnu og börnum hefur verið sinnt og kominn er tími á fullorðins vinatíma. Hversu dýrmætt er að hafa tök á því að fylgja eftir spondant hugmynd og versla óvænta gjöf handa einhverjum sem þér þykir vænt um, geta hoppað inn í búð og keypt stigvél á krakkann því hann steig á nagla og það er vika af snjóslabbi framundan. Að hafa aðgang að leikfangabúð svo þú getir keypt kubba fyrir lítinn frænda sem þú varst búin að gleyma að ætti afmæli á morgun. Fá nýbakaða pizzu heim að dyrum þegar þú ert með
barnaafmæli. Geta farið í klippingu, rætt gengi IBV liðsins og fengið bestu brandarana á færibandi sem meðlæti, látið framkalla andlitið fyrir kvöldið á snyrtistofunni og slakað á í notalegu dekri.
Það hefur aldrei verið eins mikilvægt og nú að versla í heimabyggð. Ef við viljum samfélag með þjónustu verðum að nýta hana til þess að hún lifi og dafni, þetta er ekki flókið. Það hefur oft verið erfitt að halda úti reksti hér í Eyjum en nú erum við að tala um gríðarlegt högg og það er ekki víst hversu mörg fyrirtæki munu lifa þetta af, svo einfalt er það. Við viljum geta labbað í gegnum bæinn í sumar inn í sjoppu og keypt okkur ís með dýfu, setið inná kaffihúsi með blað og nýlagað kaffi og geta gengið inná veitingahús og átt dýrmæta samveru með fólkinu okkar í huggulegu umhverfi. Þessi upplifun fæst ekki í netverslun.
Við að sjálfsögðu hlýðum Víði og höldum okkur sem mest heima en það er ennþá hægt að nýta sér þá þjónustu sem er enn í boði. Það er hægt að kaupa gjafabréf hjá snyrtistofu ef einhver á afmæli t.d. Það er hægt að kaupa Eyjabruggaðan bjór frá ríkinu, það er hægt að panta matinn heim, kaupa nýbakað brauð í bakaríunum og það er mjög sniðugt að taka pylsu- eða ísrúnt til að losna aðeins af heimilinu. Förum varlega, fylgjum tilmælum almannavarna og reynum að hjálpa þeim sem eru í áhættuhópi að fá vörur og þjónustu heim. En verum líka meðvituð um hvernig neyslu okkar er háttað því það hefur áhrif og afleiðingar. Eyjamenn, við erum allra best í þessu, að standa saman.
Stöndum vörð um samfélagið sem við viljum búa í og verslum í heimabyggð.