Eyjakonurnar Eyrún og Þóra í grunnbúðum Everest um jólin

– Algjörlega geggjuð tilfinning komast að alla leið –

Algjörlega geggjuð tilfinning að komast alla leið. Þér finnst þú geta allt!  Það var -22° og mikil vindkæling. – Mjög samtaka og ákveðnar í að klára þetta saman!

„Mér dettur ýmislegt í hug og sem betur fer læt ég sumt af þessum hugmyndum verða að veruleika. Að fara í grunnbúðir Everest hefur verið fjarlægur draumur í nokkur ár en ég hef svo sem ekki hugsað mikið um það af alvöru fyrr en núna í vetur.

 Ég kom heim til Eyja í október og nefndi  við mömmu að ég stefndi á að fara þangað í október 2020,“ segir Eyrún Haraldsdóttir, Eyjakona sem ekki beið eftir næsta ári heldur dreif sig af stað með Þóru Margréti Ólafsdóttur vinkonu sinni og voru þær í grunnbúðum Everest á þriðja í jólum í 5364 m hæð, 22 stiga frosti og vindi. En tilfinningin að komast alla leið var einstök tilfinning, segir hún. Þær voru heppnar með veður en þægindin ekki mikil á leiðinni.

Eyrún er dóttir Haraldar Þorsteins Gunnarssonar og Kristínar Gunnarsdóttur, Leist foreldrunum rétt mátulega vel á hugmyndina en eru í dag stolt af stelpunni sinni. Þóra er ættuð úr Eyjum og foreldrar hennar eru Sigurveig Andersen og Ólafur Þór Ólafsson. 

En áfram með söguna. „Þann 11. nóvember fæ ég skilaboð frá Þóru um að hún væri búin að bóka göngu um jólin. Ég fór strax að spyrja hana frekar út í ferðina og hvort hún vildi félagsskap. Ég hætti reyndar við í millitíðinni að fara  þar sem ég hélt ég væri orðin of sein með bólusetningar og ég var ekki byrjuð að safna fyrir ferðinni. Sem betur fer kíkti ég í heimsókn til Hrefnu systur viku síðar sem var fljót að sannfæra mig að þetta væri tækifæri sem ég gæti ekki sleppt. Fjórum vikum síðar var ég sest upp í flugvél á leiðinni til Nepal,“ segir Eyrún og viðurkennir að þetta hafi borið brátt að.

Stuttur fyrirvari

„Fyrirvarinn var svo sannarlega stuttur hjá mér en Þóra var búin að bóka allt svo ég fékk allar upplýsingar frá henni um hvað ég ætti að bóka og hvað þyrfti til. Ég fór í að bóka gönguna, kaupa ferðatryggingu, panta flug og fara í bólusetningu. En fyrirtækið sem við völdum heitir Himalayan Wonders og það var í raun allt innifalið fyrir utan flugið til Kathmandu. Þeir bókuðu hótel fyrir okkur í Kathmandu bæði fyrir og eftir göngu, sóttu okkur út á flugvöll og keyrðu okkur á hótel, bókuðu flugið til og frá Lukla, alla gistingu á meðan á göngunni stóð, þrjár máltíðir á dag og öll leyfi upp í fjöllunum. Algjör lúxus.“

Eyrún og Þóra eru báðar í ný-liðaþjálfun hjá Flugbjörgunar-sveitinni í Reykjavík þar sem þær kynntust. „Þjálfunin þar er mjög krefjandi og frábær grunnur fyrir göngu eins og þessa. Við erum búnar að lenda í allskonar aðstæðum saman í allskyns veðrum svo við þekkjum hvor aðra frekar vel þrátt fyrir að vera búnar að þekkjast í stuttan tíma. Þóra er líka ættuð úr Eyjum og mamma hennar og systir búa þar svo Eyjablóðið rennur í okkur báðum sem er ekki verra. 

Ég hef líka verið dugleg að æfa í Spörtu síðasta eina og hálfa árið svo ég vissi að ég væri í ágætis standi líkamlega. Ég hef gengið á fjöll síðan ég var barn en hef tekið langar pásur á milli meðan ég stunda önnur áhugamál. Mér verður oft hugsað til Ágústar æskuvinar míns þegar ég fæ dellu fyrir nýju áhugamáli og áður en ég veit af er ég búin að kaupa racer hjól, gönguskíði og farin að skoða kajak, fjallahjól og fleira. En gönguskórnir mínir eru kannski það sem ég hef notað mest af þessum “dellum” svo vonandi er það áhugamál komið til að vera.“

Mamman kvíðin

Eyrún segir að það hafi eiginlega ekki gefist tími til að verða kvíðin þar sem fyrirvarinn var svo stuttur. „Ég var meira spennt en kvíðin fyrir ferðinni, mamma tók á sig að vera kvíðin. Það kom þó smá stress þegar kom að fluginu frá Kathmandu til Lukla en það var svo ekkert mál. Ég og Þóra erum vanar að fljúga til og frá Eyjum bæði frá Reykjavík og Bakkaflugvelli og þetta minnti á það, “smá” hristingur.   

Ferðalagið út tók um 36 klst. Því miður vorum við Þóra ekki samferða út en ég er vön að ferðast ein svo það truflaði mig lítið. Ég flaug út eldsnemma 16. desember og var fyrsti leggur til Amsterdam, svo Qatar og þaðan til Kathmandu þar sem ég lenti um miðjan dag 17. desember. Ferðalagið gekk vel fyrir sig, töskunar tékkaðar inn alla leið og lúxusinn með Qatar Airways er mikill svo ég gat lítið kvartað.“ 

Einkaferð

„Hópurinn” samanstóð af mér og Þóru,“ segir Eyrún þegar hún er spurð um ferðafélaga. „Það er pláss fyrir tíu í hverri ferð en það var enginn annar sem hafði keypt sig í ferðina svo við vorum með okkar einka leiðsögumann og burðarmann (porter) alla ferðina og þar með gátum við labbað á okkar hraða, splæst í hópmyndir og sagt endalaust “vá” yfir náttúrufegurðinni og menningunni. 

Gangan í heild tekur tíu daga, það eru sjö dagar upp og þrír dagar niður. Við lögðum af stað frá Kathmandu til Lukla sem er í 2860 m hæð þar sem við lentum snemma morguns þann 20. desember og hittum Drag On, leiðsögumanninn okkar og burðarmanninn. Í Lukla vorum við þegar komnar hærra en hæsti tindur Íslands.

 Fyrsti dagurinn var í styttra lagi og gengum við til Phakding í 2610 m hæð. Það var ekkert sérstaklega erfitt að vakna daginn eftir þar sem spenningurinn var mikill að halda áfram. Leiðin lá til Namche Bazaar í 3440 m hæð sem er stærsta Sherpa þorpið í Sagarmatha þjóðgarðinum. Leiðin lá meðfram Milky River í frábæru veðri, náttúru og við fórum yfir fimm hengibrýr.“

Í frábæru veðri 

„Á hverjum degi stoppuðum við til að fá okkur te sem varð eitt af því besta við ferðina. Staðirnir voru með svo dásamlegu útsýni og sólin skein nánast alla dagana. Hef ekki verið mikil temanneskja hingað til en ég og Þóra vorum farnar að bíða spenntar eftir að fá okkur ginger lemon honey tea alla daga. 

Við eyddum tveimur dögum í Namche Bazaar þar sem annar dagurinn var til að „hvíla“ og venjast hæðinni. Þann dag gengum við upp að Everest viewpoint í 3840 m hæð og fengum okkur að sjálfsögðu te í dásamlegu umhverfi. Nýttum okkur að komast í sturtu því næsta sturta yrði líklega eftir sjö til tíu daga.

 Frá og með Namche Bazar mældi Drag On leiðsögumaður alltaf súrefnismettun og púls hjá okkur og fylgdist vel með heilsunni. Þann 23. desember héldum við ferð okkar áfram og gengum til Pangbuche, við áttum að ganga til Phortse en stígurinn þangað var illfær vegna hálku og var því ákveðið að fara öruggustu leiðina. 

Gönguleiðin varð því aðeins lengri þennan dag en við vorum sáttar með það því við vorum sammála um að setja okkur ekki í neina óþarfa hættu. Hæðin var farin að segja til sín og við að ganga aðeins hægar. Drag On var duglegur að minna okkur á að ganga hægt og stoppa til að drekka. Við þurftum að drekka fjóra lítra af vatni á dag sem leiddi af sér fleiri klósettferðir við mismunandi aðstæður.“

Kaldur aðfangadagur

„Á göngunni til Pangbuche blasti Ama Dablam við okkur sem er sá toppur sem heillaði mig mest. Hækkunin þennan dag var um 1200 metrar og var því kærkomið að koma á náttstað. Á tehúsinu þar sem við gistum var allt frosið, vatnið í vöskunum og klósettunum og maturinn var ekki sá besti sem ég hef smakkað. En Drag On var búinn að vara okkur við að maturinn batnaði ekki eftir því sem við færum hærra. 

Það var erfitt að koma sér fram úr á aðfangadag þar sem frostið var mikið. Það tókst á endanum og enn einn daginn klæddum við okkur í sömu göngufötin sem voru farin að ilma af samblandi af svitalykt og svitalyktareyðinum. Leiðin lá svo til Dingboche í 4410 m hæð og þar erum við komin upp fyrir 4000 metra og því engin gróður og loftið orðið þunnt. Ekkert rennandi vatn og næturnar orðnar vel kaldar. Við eyddum jóladegi í Dingboche ásamt öðru göngufólki að taka hæðaraðlögunardag.“

Markinu náð

Eyrún segir að hún hafi vissulega saknað jólanna heima og kannski mest matarins. „Ég viðurkenni að ég saknaði graflaxins töluvert á meðan ég borðaði bragðlaus hrísgrjón með eggi. Við gerðumst grænmetisætur á meðan við vorum í Nepal sem var lítið mál en ég saknaði mest að fá ekki ferska ávexti og ferskt grænmeti sem ekki er í boði á þessum árstíma. Það er mjög dýrt að fá þyrlur til að flytja upp dót svo flest er borið upp á bakinu á fólki eða jakuxar og asnar nýttir í það.

Þegar við tókum af okkur bakpokana og teygðum úr okkur viðurkenni ég alveg að það kom samviskubit þegar burðarfólk kom upp brekkurnar með allt að 130 kíló á bakinu.

Á annan í jólum gengum við til Lobuche í 4900 m hæð og farið að styttast í að ná markmiðinu. Þann 27. desember lögðum við af stað eldsnemma morguns í miklu frosti og mótvind áleiðis í grunnbúðirnar. Dagurinn var svo sannarlega kaldur og krefjandi en við náðum takmarkinu og vorum skælbrosandi þegar við komumst í grunnbúðir Everest sem eru í 5364 m, “We made it to the bottom of the top”! Við stoppuðum stutt við í grunnbúðunum, rétt um 15 til 20 mínútur til að taka myndir og gengum svo niður til Gorakshep í 5146 m hæð þar sem við gistum.“

Með bros á vör 

Það var mæld hjá okkur súrefnismettun þegar við komum niður til Gorakshep og vorum við báðar í kringum 55 svo það var ákveðið að slaka á það sem eftir var dags enda vorum við frekar þreyttar en ótrúlega ánægðar með okkur. Niðurtúrinn hófst svo 28. desember og við gengum hann með bros á vör og vorum glaðar að komast aftur í gróðurinn, meiri hita og rennandi vatn. Það var ekkert rennandi vatn í sjö daga svo við tannburstuðum okkur með því að hrækja í flöskur og notuðum baby wipes til að þvo okkur um hendurnar. Við komum til Lukla þann 30. desember þar sem við skáluðum í einum bjór og flugum svo til Kathmandu 31. desember þar sem við fögnuðum nýju ári og eyddum nokkrum dögum áður en við flugum saman heim til Íslands.“

Ólíkt íslenska veðrinu

Desember er svokallað „low season“ til að ganga í grunnbúðirnar þar sem það getur verið mjög kalt og voru Eyrún og Þóra vel búnar til að mæta kuldanum. „Við erum vanar að vera í tjaldi upp á hálendi um hávetur í vondu veðri og miklum kulda svo við erum orðnar nokkuð sjóaðar í að klæða okkur rétt fyrir mikinn kulda. Þetta er þó mjög ólíkt veðrinu á Íslandi og kom okkur á óvart hvað var í raun og  veru hlýtt þrátt fyrir frost. Nokkrum dögum áður en við flugum til Lukla hafði snjóað mikið og flugvöllurinn hafði lokast. Snjórinn var þó að mestu bráðnaður þegar við komum og göngustígar að mestu greiðfærir. Himininn var heiðblár og sólin skein á hverjum degi. Veðrið var því mun betra en við bjuggumst við og mikið hlýrra. 

Ég hefði alveg verið til í að vera með einn stuttermabol með mér en í staðinn fékk ég nokkra auka daga í sama bolnum. Þegar við vorum komnar upp fyrir 4000 metra þá er engin gróður svo það var ekkert skjól frá trjám og því meiri vindur og töluvert kaldara. Kosturinn við að ganga í desember er að það eru miklu færri að ganga og engin örtröð af fólki á göngustígunum. Einu skiptin sem við þurftum að stoppa og víkja var þegar kom röð að jakuxum eða ösnum sem voru að bera vörur upp eða niður. 

Algjörlega geggjuð tilfinning 

„Það voru margir búnir að vara mig við litlum svefni, klósettunum og hæðinni. Svefnin varð aldrei vandamál og svaf ég átta til tíu klukkustundir á nóttu. Hæðin hafði ekki teljandi áhrif á mig en ætli ég sé ekki þakklátust fyrir rennandi vatn! Bæði til að þvo sér um hendur, tannbursta og sturta niður því það var af skornum skammti vegna frostsins. Eftir á sá ég hvað við höfum það ótrúlega gott á Íslandi og neysluhyggjan er mikil. Lífið í Himalaya fjöllunum er allt öðruvísi og allir hefðu gott af því að eyða nokkrum dögum þar. 

Það var algjörlega geggjuð tilfinning komast alla leið og þér finnst þú geta allt! Það var -22° og mikil vindkæling. Það tók okkur langan tíma um morguninn að ganga í sólina svo hausinn þurfti að vera rétt skrúfaður á til að hughreysta sjálfa mig. En ég og Þóra vorum mjög samtaka og ákveðnar í að klára þetta saman!

Þegar við komum svo í grunnbúðirnar kemur auka adrenalín og hamingjan verður ólýsanleg. Markmiðinu var náð og brosið varð enn breiðara. En það var mjög kalt svo leiðsögumaðurinn gaf okkur tíu til fimmtán mínútur til að taka myndir og svo var lagt af stað niður til Gorakshep.“ 

„Toppurinn heillar ekki,“ sagði Eyrún aðspurð, „allavega ekki toppur Everest. En þarna er fullt af öðrum fjallatoppum og margir sem voru heillandi og margar gönguleiðir í boði. Svo hver veit nema ég verði komin aftur til Nepal fyrr en síðar,“ sagði Eyrún að endingu.

– Ómar Garðarsson

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search