Miðvikudagur 17. júlí 2024

Erum í skýjunum yfir móttökunum

Á dögunum opnaði nýr veitingastaður í Vestmannaeyjum, Vöruhúsið. En staðurinn sækir nafn sitt í nafn hússins. „Við vildum halda í nafnið Vöruhúsið þar sem við fundum í framkvæmdunum þegar fólk kíkti við að margir nota þetta enn um húsið. Vöruhúsið hefur hýst mörg fyrirtæki, lengi vel verslanir en einnig veitingastaði, bókabúð og fleira. Okkur fannst það því eiga vel við að heiðra sögu hússins og halda í nafnið sem margir þekkja,“ sagði Hildur Rún Róbertsdóttir einn eigenda veitingastaðarins þegar Tígull settist niður með eigendahópnum.

„Móttökurnar hafa verið stórkostlegar og erum við í skýjunum og meyr yfir viðtökunum. Við finnum fyrir miklum meðbyr og verðum ævinlega þakklát öllum sem koma til okkar og vonumst til að fólk komi aftur!“

Ásamt Hildi eiga staðinn unnusti hennar, Anton Örn Eggertsson og foreldrar hennar Róbert Agnarsson og Sigrún Ósk Ómarsdóttir en þeim langaði mikið að stofna fyrirtæki þar sem öll fjölskyldan hefur hlutverk „Það sem fékk okkur til að fara út í reksturinn er brennandi áhugi á að stofna fjölskyldufyrirtæki þar sem öll fjölskyldan er með hlutverk. Við sjáum Vöruhúsið fyrir okkur sem stað þar sem gestum líður vel, í notalegu umhverfi að borða ferskan og ljúffengan mat með fjölskyldu og vinum.“

Útisvæði í bígerð

Vöruhúsið tekur um 50 manns í sæti og stendur svo til að bæta við útisvæði sunnan við húsið. „Við erum að hefja framkvæmdir á útisvæði sunnan megin við húsið sem verður skemmtileg viðbót við salinn okkar. Eldhúsið er opið frá kl. 11-21:30 en barinn verður opinn lengur ef stemningin er þannig.“

Matseðillinn í Vöruhúsinu er fjölbreyttur og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Aðspurð sagði Hildur hann hinsvegar koma til með að verða lifandi „Matseðillinn verður breytilegur með nýjum og spennandi réttum í bland við vinsælustu réttina okkar sem halda sínu plássi.“

Matarlyst og myndlist

En matarlystin er ekki eina listin sem sinnt er í Vöruhúsinu, myndlistin er einnig í hávegum höfð. Þau fengu t.a.m. Unu Þorvaldsdóttur til þess að mála listaverk á veggi baðherbergjanna hjá sér ásamt því að vera með eitt verk á veggjum veitingarstaðarins. Vilhjálmur Ísfeld Vilhjálmsson er sýnir einnig nokkur verka sinna á veggjum Vöruhússins sem og Bjartey Gylfadóttir og stendur til að gera vestmanneysku listafólki hátt undir höfði. „Já, listafólk Eyjanna verður áfram áberandi hjá okkur. Við höfum verið að auglýsa listasýninguna reglulega á okkar miðlum og höfum fengið skilaboð frá listafólki um að taka þátt. Við hvetjum upprennandi listafólk á öllum aldri að hafa samband ef þau hafa áhuga að sýna hjá okkur.“

Mikið um mat í Vöruhúsinu

Húsið Vöruhúsið við Skólaveg 1 og var byggt fyrir Einar Ríka árið 1926. Lengst af hefur verið verslað með matvöru í Vöruhúsinu; Bæjarbúðin, Verslun Guðjóns Scheving og Eyjakjör voru slíkar verslanir en einnig var raftækjaverslunin Kjarni þar til húsa. Einnig var Bókabúðin Helgafell þarna til húsa auk Ragga rakara, ljósmyndastofu og Athafnaverinu. Verbúðir voru líka í húsinu í fyrri tíð. Fleiri veitingastaðir hafa verið til húsa þar t.a.m. Café María/Hrói Höttur og Fiskibarinn. Það er því vel til fundið að enn á ný séu salir Vöruhússins fylltir matarilm.

Að lokum vildu eigendur Vöruhússins koma á framfæri þökkum til allra sem hafa stutt þau. „Við viljum enn og aftur þakka fyrir viðtökur Vestmannaeyinga á Vöruhúsinu. Þessir fyrstu dagar hafa verið stórkostlegir. Við viljum einnig þakka okkar góðu samstarfsaðilum fyrir gott samstarf, Miðstöðin, Heildverslun Karls Kristmanns, Bragginn, Eyjablikk, Vélaverkstæðið Þór og fleiri, án ykkar væri þetta ekki hægt.“

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search