Ert þú búin að sækja stafræna ökuskírteinið í síman þinn?

02.07.2020

Það er óhætt að segja að áhuginn fyrir stafrænu ökuskírteinunum sé gríðarlegur en 12.000 manns hafa sótt skírteinið þrátt fyrir mikið álag á vefnum fyrstu fjóra klukkutímana.

https://www.facebook.com/aslaugarna/videos/2667634576838432/

Frá og með deginum í gær var hægt að sækja um og fá stafræn ökuskírteini í símann. Hægt er að nálgast þau á upplýsingaveitunni Ísland.is með því að nota rafræn skilríki. Stafræna ökuskírteinið gengur hvort tveggja fyrir Android- og iOS-stýrikerfi og góðar leiðbeiningar fylgja með umsóknarferlinu. Stafræn ökuskírteini verða jafngild hefðbundnum ökuskírteinum á Íslandi en megintilgangurinn er að notendur geti sannað ökuréttindi sín gagnvart lögreglu.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, opnuðu í dag formlega fyrir aðgang að nýju skírteinunum og urðu fyrst til þess að fá stafræn ökuskírteini í símann.

„Tilkoma stafrænna ökuskírteina var eitt af þeim málum sem ég hafði mikinn áhuga á að koma í gagnið strax og ég mætti í ráðuneytið. Það er því afar ánægjulegt að sjá það verða að veruleika.“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.

„Það er mikið framfaraskref að fá ökuskírteini í snjallsímann og veitir fólki augljós þægindi. Ísland er annað landið í Evrópu að taka í notkun stafræn ökuskírteini og fetum þar í fótspor Norðmanna. Þetta er stefna stjórnvalda að hið opinbera bjóði upp á stafrænar lausnir í auknum mæli,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

„Stafræn ökuskírteini eru áþreifanlegt skref í þá átt að gera þjónustu hins opinbera stafræna og aðgengilega. Flestir eru með símann á sér öllum stundum, en margir þekkja það að plastið gleymist. Þetta er því liður í að einfalda líf fólks, en það er eitt markmiða okkar með öllum þeim breytingum sem við erum nú að gera á opinberri þjónustu gegnum Stafrænt Ísland, verkefnastofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Hvernig sæki ég stafrænt ökuskírteini?

  • Sótt er um stafræn ökuskírteini á vefnum Ísland.is þar sem notendur auðkenna sig með rafrænum skilríkjum. Með samþykki notenda fer sjálfvirkt umsóknarferli í gang og  samstundis birtist tengill til að sækja skírteinið í símann.
  • Notendum Android-síma er bent á að sækja veski (e. Wallets) í símann áður stafrænu ökuskírteini er hlaðið niður.
  • Þeir sem hafa ekki endurnýjað ökuskírteini sín frá því fyrir árið 1998 þurfa að endurnýja þau hjá sýslumanni til að geta fengið stafrænt ökuskírteini í símann.
  • Einungis er hægt að hafa ökuskírteinið í einu símtæki. Ef það er sett upp á öðrum síma afvirkjast það í fyrsta tækinu.
  • Ökuskírteinin gilda aðeins á Íslandi.

Farsælt samstarf

Verkefnastofan Stafrænt Ísland vann tæknilausn fyrir stafrænu ökuskírteinin í samstarfi við ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðuneytið. Innleiðingin var samstarfsverkefni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, sem ber ábyrgð á umferðarlöggjöf og reglum um ökuskírteini, og dómsmálaráðuneytis, sem fer með málefni ríkislögreglustjóra og sýslumanna. Ríkislögreglustjóri gefur út stafræn ökuskírteini en sýslumenn gefa út hefðbundin prentuð ökuskírteini í umboði ríkislögreglustjóra.

Ökuskírteini eru almennt viðurkennd gagnkvæmt milli EES ríkja en það gildir ekki um stafræn ökuskírteini, þar sem þau uppfylla ekki kröfur Evróputilskipunar um ökuskírteini. Þau verða aðeins gild á Íslandi fyrst um sinn.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is