Þriðjudagur 16. apríl 2024

Er spennt að fylgjast með þeim í framtíðinni

Þrír nemendur í Grunnskóla Vestmannaeyja (GRV) náðu þeim frábæra árangri að vinna til verðlauna í árlegri teiknisamkeppni Mjólkursamsölunnar (MS).  Alls bárust 2000 myndir frá 89 skólum sem er nýtt þátttökumet en 10 myndir voru verðlaunaðar, þar af tvær úr GRV. 

Milena Mihaela Patru fékk verðlaun fyrir sína mynd og þær Mía Bjarný Haraldsdóttir og Hlín Huginsdóttir unnu saman sína verðlaunamynd.

Þóra Gísladóttir myndmenntakennari í GRV sagði í samtali við Tígul að mikil vinna liggi að baki þátttöku í keppninni.  „Keppnin er opin fyrir alla nemendur í landinu í 4. bekk.  Ég byrja í raun að undirbúa nemendurna strax í byrjun skólaárs fyrir keppnina, sýni þeim myndir úr fyrri keppnum og reyni að fá þau til að koma upp með frumlegar hugmyndir að mynd.  Við ræðum hugmyndirnar og við förum líka yfir verðlaunin sem eru í húfi en bekkur nemendanna sem vinna til verðlauna fær 40 þúsund krónur til að gera eitthvað skemmtilegt.“

Hefur GRV unnið áður til verðlauna í þessari keppni?

„Já við höfum tvisvar sinnum áður unnið.  Fyrst árið 2017 þegar Ástþór Hafdísarson vann með frábærri geómatrískri mynd sem er nokkuð sem hafði ekki sést í þessari keppni áður.  Síðan Bjartey Ósk Sæþórsdóttir ári seinna með ofboðslega flotta túlkun á skjaldarmerki Íslands. Við tókum ekki þátt á síðasta ári en bætum upp fyrir það með því að vinna tvöfalt í ár,“ sagði Þóra.

Vinningsmyndirnar í ár er sérlega glæsilegar

„Myndin hjá Míu og Hlín er í anda Andy Warhol, sem krakkarnir hafa einmitt verið að læra um í vetur.  Það var gaman að sjá að þær hafi unnið myndina út frá því sem við höfum verið að læra, það gleður alltaf þegar maður sér nemendur nýta sér það sem þau hafa lært.  Milena er sérstaklega vandvirk og á myndinni má sjá ofboðslega fíngerðar pennastrokur og mikið af smáatriðum. T.d. gerir lopapeysumynstrið mikið fyrir myndina og það er gaman að sjá hvernig hún tengir náttúru Íslands inn í keppnina,“ sagði Þóra sem segist spennt að fylgjast með þessum hæfileikaríku stelpum í framtíðinni.

   

Nafn:  Milena Mihaela Patru.

Aldur: 10 ára. Átti afmæli 23. febrúar.

Fjölskylda: Mamma mín heitir Marinela Patru og pabbi minn heitir Emil Patru. Ég fæddist í Færeyjum, flutti svo til Rúmeníu og við fluttum svo til Íslands frá Möltu þegar ég var 3ja ára. 

Í hvaða bekk ert þú? Ég er í 4.MK. 

Kom það þér á óvart að vinna til verðlauna? Já og allir í bekknum voru mjög glöð. 

Hver er uppáhalds námsgreinin þín í skóla? Lotur, frímínútur og föndra með bekknum og búa til kókoskúlur. 

Teiknarðu mikið? Svona smá. Því að ég á ekki það mörg blöð eftir heima. 

Hvernig kom hugmyndin að myndinni? Pabbi hjálpaði mér með hugmyndir. Ég var búin að ákveða kýrina og kálfinn en pabba datt umhverfið í hug. 

Stefnir þú á að halda áfram að teikna og mála? Ég á ekki málningu heima en ég stefni á að teikna meira. Þegar ég fæ fleiri blöð. 

Hvað ætlar bekkurinn að gera fyrir verðlaunaféð? Við erum ekki búin að ákveða en hugmyndin er að fara upp á land með bekkinn eða fara í Ribsafari. 

 

Nöfn:  Mía Bjarný Haraldsdóttir og Hlín Huginsdóttir 

Aldur: Við erum báðar 9 ára að verða 10 ára. 

Fjölskylda: 

Mía: Ása Jenný Kristínardóttir er mamma mín og Haraldur Ari Karlsson er pabbi minn. Ég á tvær systur, þær heita Ara Eirný og Una Árný. 

Hlín: Mamma mín heitir Lára Dögg Konráðsdóttir og pabbi minn heitir Huginn Magnús Egilsson. Systkini mín heita Birta, Máni og Jóel. 

Í hvaða bekk eruð þið? Við erum í 4.GE.

Kom það ykkur á óvart að vinna til verðlauna?

Mía: Já mjög á óvart.

Hlín: Jahá, mjög á óvart.

Hver er uppáhalds námsgreinin ykkar í skóla?

Mía: Myndmennt, dans, sund og saumar. 

Hlín: Myndmennt, dans og tími.

Teiknið þið mikið?

Mía: Rosa mikið, mjöög mikið. 

Hlín: Ógeðslega mikið, ég er sko alltaf að teikna heima og hjá vinum. 

Hvernig kom hugmyndin að myndinni?

Hlín: Mía gerði bara einhverjar línur síðan föttuðum við að okkur langaði að gera 4 mismunandi myndir. 

Mía: Svo þegar Þóra sýndi okkur mynd frá Andy Warhol þá vissum við hvað við vildum gera. 

Stefnið þið á að halda áfram að teikna og mála?

Mía: Alltaf. Þegar ég byrja að teikna þá get ég bara ekki hætt. 

Hlín: Sama og Mía sagði, ég get ekki hætt að teikna. 

Hvað ætlar bekkurinn að gera fyrir verðlaunaféð?

Mía: Ribsafari eða dagsferð. 

Hlín: Við vitum það ekki alveg en kannski Ribsafari eða dagsferð.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search