Er mikið jólabarn og hrekkjalómur

26.12.2020

Hann Ágúst Halldórsson er eins og við þekkjum flest öll hér í Eyjum dáltið mikill prakkara ormur. Hann hefur til að mynda skotið hressilega á blaðamann Tíguls, hrekkt Sindra hjá Eyjafréttum ( þið munið með minkinn í Herjólfi og svo skírði hann fálkann sinn í höfðið á Sindra til að bæta honum það upp).

Okkur á Tígli fannst tilvalið að fá hann til að gera skrítlur með okkur, þá texta og við fengum hana Guðný E. Tórshamar til að teikna mynd við. Það fór nú ekki betur en svo að við náðum einni mynd. Því hinar sem komu voru svakalegar, önnur var þokkalegt skot á bæjarstjóran okkar og hin á Eyjafréttir við einfaldlega lögðum ekki í þær. Þótt jú það hefði verið mjög mjög fyndið.

Við tókum smá yfirherslu á Ágúst í jólablaðið okkar, en vorum samt alveg sek. frá því að taka út eina frásögnina hér að neðan en létum vaða samt. Mikið létti okkur þegar við drógum svo út úr jólaleik okkar Tíguls þar sem við drógum tengdamóðir Ágúst. Og þess má geta að hann bætti við allavega þremur spurningum, við viðtalið til að gera það eins og það er. Það er BARA einn Ágúst Halldórsson …. sonur Guðbjargar í bankanaum.

Að fylgjast með Ágústi á Instagram er eins og að fylgjast með þessum frægu youtuburum eða Instagram stjörnum sem eru endalaust að finna upp á einhverju klikkuðu rugli.. t.d. pannataði hann dúfna- eða hænsnakofa án þess að ræða það við konuna um daginn henni ekki til mikillar gleði. Mæli með að þið bætið honum við og fylgist með þessum prakkaraormi það einfaldlega lífgar upp á tilveruna: agusthall

Hérna er svo yfirherslan sem birstist í síðasta Tígulblaði ársins:

Nafn, aldur og fjölskylda? 

Ég heiti Ágúst Halldórsson, þrjátíu og fimm ára þriggja barna faðir. Giftur Guðbjörg Erlu Ríkharðsdóttur og er sonur Guðbjarkar í Bankanum og Dóra Löggu.

Saman eiga ég og Guðbjörg Erla þessi þrjú börn sem ég nefndi áðan en þau heita Emilíana Erla, Sveinn Jörundur og Rebekka.

Ertu mikið jólabarn?

Já það má segja það. Ég var það auðvitað alltaf sem krakki. Síðan tók maður þetta klassíska unglingadæmi frá fimmtán til tuttugu sem þetta þótti ekki töff. En þá höfðu ég og Sævald vinur minn trix til að gera jólin bærilegri en það gerðum við með því að drekka bjóra frá fjögur til sex. 

Þá var bara stemning í jólunum, en í dag er það allt löngu búið en jólabarnið vaknaði með fyrsta krakkanum og núna þegar þau eru orðin þrjú þá er stemningin auðvitað eftir því og allir mikil jólabörn.

Fóru jólaljósin fyrr upp í ár en í fyrra?

Ekki hugmynd. Ég er þeim hæfileikum gæddur að eiga erfitt með að muna hvað ég gerði í síðustu viku og hvað þá það sem gerðist fyrir meira en ári.

En mig minnir að ég hafi verið sendur upp á háaloft að sækja jólaljósin upp á svipuðum tíma og í fyrra. Yfirleitt finnst mér eins og ég sé búinn að vera að horfa á jólaljósin hjá Kötu Harðar nágrannakonu minni í marga mánuði áður en Guðbjörg mín sendir mig upp á háaloft.

Skreytir þú heimilið mikið?

Ég verð nú bara að viðurkenna það hérna að ég sjálfur skreyti nákvæmlega ekki neitt. Guðbjörg hefur nú líka svo gaman af því skreyta. 

Ég verð nú líka að viðurkenna að það væri nú frekar ósanngjarnt ef ég þyrfti líka að skreyta miðað við hversu mikið af heimilsverkum heimilisins eru á mínum herðum. Það má segja að ég hefi nú ekki verið sá allra sniðugsasti að semja þegar maður kom loksins í land.

Áttu einhverja sérstaka minningu frá jólum?

Ætlu það séu ekki fyrstu jólin sem ég var heima hjá tengdaforeldrum mínum Möttu og Rikka. Þá ætlaði ég aldeilis að slá í gegn hjá tengdamömmu í gjöf þar sem hún var búin að vera gift sjómanni sem réri stóran hluta af árinu án þess að taka sér frí.

Rikki les á pakkann: „Til Möttu frá Ágústi“ Hún tekur gjöfina. Virðir hana fyrir sér og byrjar að opna. Ég viðurkenni að þegar hún var byrjuð að opna pakkann þá hugsaði ég: „Æjjjiii… ætli þetta hafi verið sniðugt…“ 

Síðan heldur hún áfram að opna og tekur síðan upp úr pappírnum þennan glæsilega bleika titrara og batterý með. 

Rikki tengdapabbi missti hökuna og byrjaði að hvítna í framan. Ég sá það á svipnum á honum að þetta gat farið á báða boga en Matta lyfti upp titraranum upp og skellihló og allir með.

Hvað er ómissandi á jólum?

Ég er voðalega lítill hefðarpeyji. Og er það mjög sterkt í mér að brjóta allar hefðir en þó síðustu fimmtán ár hef ég farið í jólaboðið hjá Grímstaðarættinni. 

Ég er þar ekki einn því með í ættina tók ég æskuvin minn Sævald með sem Fjóla Sif tók að sér og síðan hefur Halla Björk æskuvinkona mín og systir Sævalds tekið greyið hann Karl Haraldsson að sér í liðvörslu út ævina og erum við því þrjú af Túngötu tuttugu og fimm og tuttugu og sex sem heldur betur bætum genamengi Grímstaðarættarinnar.

Hvað finnst þér skemmtilegast um jólahátíðina?

Samveran með fjölskyldunni minni finnst mér lang skemmtilegust. 

Spila, horfa á myndir, lesa, lyfta inni í bílskúr, hitta fjölskyldu og vini, borða góðan mat og hafa gaman.

Bakar þú fyrir jólin og hvað þá helst?

Nei því miður þá baka ég ekki neitt. En krakkarnir baka með ömmunum sínum og síðan baka systurnar Fjóla og Guðbjörg eitthvað saman með krökkunum.

Þar sem ég hef engann áhuga á að þurfa á stinningalyfjum að halda í framtíðinni þá forðast ég að éta drasl og þá helst sykur. Fæ mér frekar harðfisk, gúrme osta eða steik þegar eitthvað bökunardæmi er á boðstólnum.

Eins og mig minnir að málshátturinn segir: „Smákökur eru fyrir börn og aumingja“.

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?

Ég er þeirra gæfu aðnjótandi að þurfa bara að kaupa eina jólagjöf. Það er ekki handa konunni minni eins og margir lenda í heldur Sævaldi vini mínum. 

Þegar við vorum ungir og á þessu tímabili sem okkur þótti ekkert svo gaman á jólunum þá ákváðum við að gefa hvorum öðrum alltaf flotta jólagjöf. Gjafirnar hafa oftast verið mjög ófyrirsjáanlegar. Allt frá uppstoppuðum fuglum, plötuspilurum, listaverkum að handlóðum. 

Margir hrista örugglega hausinn yfir því að ég skulu ekki nefna konuna mína en við erum alveg sultuslök yfir þessu. Ég sjálfur auðmjúkur þræll kapítalismans og því búinn að glepjast af öllum auglýsingum sem ég sé og búinn að kaupa það sem mig langar í og hún svipuð en ekki jafn rugluð og ég.

En yfirleitt þá sammælumst við um að kaupa eitthvað fyrir heimilið saman sem sameiginlega jólagjöf. Okkur er alveg sama um þessa pakka því jólin snúast um börnin. En auðvitað höfum við gefið gjafir þegar okkur dettur eitthvað snallræði í hug. Höfum bara ekki reglu á því.

Hvenær setjið þið upp jólatré?

Einhverntímann í byrjun desember. Það getur vel verið að Guðbjörg sé með einhverja reglu á þessu en hún er allavega það flókin að ég átta mig ekki á henni.

Eftirminnilegasta jólagjöfin

Ætli það sé ekki þegar ég, Rikki tengdapabbi og Sævald fengum miða á leik með Leeds á móti Derby sem við fórum strax í janúar frá eiginkonum okkar.

Höfðum ekki hugmynd um það og úr varð hin skemmtilegasta ferð. Síðan fengum við aftur svoleiðis ferð seinna og þá bættust Helgi Braga, Grímur Júlla og Júlli Hallgríms við og þvílíka skemmtiferðin og það var ekki að spyrja af því að Leeds hefur aldrei tapað með okkur í stúkunni.

Hvenær eru jólin komin fyrir þér?

Ætli það sé ekki bara magakveisan sem ég fékk alltaf eftir kvöldmatinn á aðfangadag alveg frá því að ég man eftir mér. 

Þetta var alltaf stimplað sem spenningur hjá mér af foreldrum mínum sem var örugglega að hluta rétt en þegar þetta hélt áfram á fullorðinsaldur þá fór að renna á mig tvær grímur.

Þá hætti ég að borða hamborgarhrygg og skipti yfir í ribeye nautakjöt og hef ekki fundið fyrir magaverkjum síðan.

Hefurðu sótt messu um jólahátíðirnar í gegnum tíðina?

Það var í eitt skipti sem við fjölskyldan fórum öll saman. Þá var Fríða systir eitthvað að reyna að komast nær drottni með því að draga mig, mömmu og pabba í miðnætur messu á aðfangadag.

Það fór nú ekki betur en svo að ég og pabbi steinsofnuðum og pabbi hraut svo hátt að hvorki Fríða systir né Guðbjörg í bankanum hafa reynt að draga okkur feðgana í kirkju.

Gætu svo sem náð að plata Dóra Löggu en þar sem ég hef turnast og gengist við Ásatrú þá er ég alveg laus við þetta.

Eru jólin eitthvað öðruvísi þegar maður er í Ásatrú?

Nei ég get ekki sagt það, ekki fyrir mér. Allt jólahald er auðvitað upprunnið frá því að við mannfólkið héldum sólhvarfahátíðir eða öllu heldur heiðir menn sem fögnuðu því að sólin væri að aukast aftur. Þetta gripu auðvitað Kristnir menn og ákvaðu að Jesús hafi fæðst á þessu leyti og höfðu jólin á svipuðum tíma og við heiðingjarnir.

Það skiptir reyndar engu máli fyrir mig. Það er bara svo oft verið að skjóta á mig hvernig heiðingjar haga jólunum. Eins og það hafi ekkert annað gerst á jörðinni síðan ljóshærði, bláeygði Jesús með sléttujárnið birtist í jötu einhverstaðar í Ísrael.

En auðvitað má fólk trúa því sem það vill trúa og virði ég það.

Að lokum vill ég óska öllum gleðilegra jóla, gleðilegra sólhvarfa eða gleði í lífinu á þessum skrítnu tímum.

Hlakka til að knúsa ykkur öll eftir bólusettningu árið 2021.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is