Jólastressið er eflaust farið að gera vart um sig hjá flestum. Kannski gerum við okkur ekki grein fyrir því að við séum að upplifa streitu en undirmeðvitundin ræsir upp streitukerfið okkar og við finnum fyrir innri spennu þegar við veitum núlíðandi stund athygli.
Mótaði partur heilans er komin í margra ára gamlan vana varðandi það hvað þurfi að gera til að upplifa „fullkomin jól“.
Jólahreingerningin, jólakortin, jólamaturinn, jólafötin og jólapakkarnir er eitthvað sem okkur hefur verið kennt að hafa alveg 100% á hreinu.
Öll höfum við væntingar varðandi það hvernig jólin eiga að vera, margar af þessum væntingum valda okkur sjálfum vonbrigðum þar sem viðmiðin frá fortíð miðað við nútíð byggjast ekki á raunhæfum viðmiðum.
Hraði, óraunhæf viðmið og sýndarveruleiki einkennir oft það sem við erum að hlaupa á eftir í dag sem gerir það að verkum að misræmi myndast í huga okkar á milli raunveruleikans og þess sem við erum að sækjast eftir.
Besta ráðið til að minnka jólastressið er að draga niður viðmiðin, einfalda hlutina og sætta sig við ófullkomleikann.
Aðventan á að einkennast af góðum og notalegum stundum með sínum nánustu en ekki stressi og spennu.
„Einföldun“ er besta leiðin til að minnka eða draga úr jólastressinu, fækkum hlutverkum og verkefnum sem valda manni óþarfa streitu, sættum okkur við meðalveginn og njótum þess að lifa í núlíðandi stund þrátt fyrir að allt sé ekki fullkomið.
Eina sem við eigum er „núlíðandi stund“ er þá ekki eina verkefnið að njóta hennar hverju sinni og hætta að stressa sig yfir því sem er framundan.
Ragnheiður Guðfinna – www.hugaheimur.is
