Föstudagur 1. desember 2023

Engri manneskju á að líða eins og hún þurfi að deyfa sig til að finna ekki fyrir eigin tilfinningum

11.04.2020

Einstaklingar sem upplifðu áföll í æsku eru fimm sinnum líklegri til að þjást af áfallastreituröskun heldur en þeir sem urðu ekki fyrir áfalli og í nýrri rannsókn Margrétar Tórshamar Georgsdóttur koma fram sterk tengsl milli áfalla í æsku og fíkniefnaneyslu síðar á lífsleiðinni.

Rannsókn Margrétar er hluti af meistaraverkefni hennar við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri „Ég var í meistaranámi í heilbrigðisvísindum með áherslu á sálræn áföll og ofbeldi. Skemmtileg tilviljun að aðalleiðbeinandi minn var Sigrún Sigurðardóttir sem vann sem lögreglukona í Vestmannaeyjum á sínum tíma.“

Aðspurð um valið á rannsóknar-efninu sagði Margrét að náin fjölskyldumeðlimur hafi verið henni ofarlega í huga. „Á þeim tíma sem ég var að velta fyrir mér hvað ég ætti að taka fyrir var náinn fjölskyldumeðlimur að ganga í gegnum erfiða tíma og var hann mér ofarlega í huga. Það er svona meginástæðan. Ég veit að þessi einstaklingur hefur lent í allskonar áföllum í gegnum ævina og hefur svo barist mikið við fíknina á fullorðinsárum. Mig grunaði að það gætu verið tengsl á milli þess að einstaklingar lendi í áföllum í æsku sem er svo lítið sem ekkert unnið úr og að þeir misnoti fíkniefni seinna á ævinni. Ástæða þess að ég ákvað að taka karlmenn sérstaklega fyrir var sú að miklu fleiri rannsóknir eru til um konur og örfáar íslenskar rannsóknir sem tengjast þessu,“ sagði Margrét aðspurð um rannsóknarefnið.

Leið vel í edrúmennsku en höfðu flestir allir fallið

Niðurstöður úr rannsókn Margrétar sýndu að allir karlarnir sem tóku þátt sáu skýra tengingu á milli þeirra áfalla sem þeir lentu í fyrr á ævinni og þeirra leiða sem þeir notuðu til að lina sársaukann. „Eftir áföllin og oft ennþá í dag upplifðu þeir kvíða, þunglyndi, vantraust í garð annars fólks, áfallastreituraskanir og sjálfsvígshugsanir. Án undan-tekninga sögðu þeir allir að áföllin hefðu áhrif á þeirra andlegu líðan enn þann dag í dag. Sumir reyndu að stinga þessu í rassvasann á meðan aðrir voru ennþá að reyna að vinna úr þessu. Þeim leið öllum vel í edrúmennsku en höfðu flestir upplifað það að falla eftir ákveðinn tíma og var einn sem lýsti því þannig að: „Fyrst og fremst bara af því maður er bara ekkert orðinn heill sko“. Þeir notuðu fíkniefnin sem bjargráð gegn vanlíðaninni. Þeir voru allir með svipaða lýsingu á því hvernig fíkniefnin gátu hjálpað þeim að líða vel á meðan þeir voru undir áhrifum þeirra og að þeir gátu deyft sig með þeim. Fíkniefnin gat gefið þeim eitthvað sem þeir höfðu ekki fundið annarsstaðar, vellíðan. Félagsskapur átti stundum þátt í upphafi neyslunnar hjá sumum þeirra en það var alltaf vanlíðan sem var ástæða þess að þeir héldu áfram,“ sagði Margrét.

Aðeins var rætt um eitraða karlmennsku eins og það er oft kallað en voru þeir flestir á því máli að umræðan hefur sem betur fer opnast mikið og er ekki eins „tabú“ að karlar gráti eins og það var áður fyrr. 

Svo var mikið rætt um meðferðar-úrræði og þó að þeir sem höfðu nýtt sér slíkt gátu allir nefnt jákvæðar hliðar á þeim að þá voru neikvæðu hliðarnar líka nokkrar. Þá nefndu þeir til dæmis að það væri mikil þörf á einstaklingsmiðaðri meðferð, það sé ekki góð aðferð að setja alla í sama hóp. Þeir töluðu líka um hvað biðlistarnir eru langir og hvað það geti haft slæmar afleiðingar fyrir þá sem þurfa hjálp strax. Einnig voru margir þeirra ósáttir við hvað meðferðarúrræði eru oft trúartengd.

Vantar sálræna þjónustu í meðferðarúrræðum

Það sem kom Margréti mest á óvart við niðurstöður rannsóknarinnar var hversu algengt það var að karlarnir höfðu margir lent í mörgum áföllum í æsku. „Þeir töluðu líka um hversu mikil þörf það er á meiri áherslu á sálræna þjónustu í meðferðarúrræðum. Það er alveg eitthvað um slíka þjónustu en að mati margra þeirra var ekki nóg framboð og það var einhvernveginn ekkert verið að spá í undirliggjandi orsökum þess að þeir notuðu fíkniefni. Aðal áherslan var bara að hætta að nota þau.“

Þurfum öll að standa saman

„Þetta eru niðurstöður úr þeirri rannsókn sem ég gerði en ekki er hægt að alhæfa þær yfir á almenning. Ég er ekki að segja að þeir sem neyti fíkniefna hafi lent í áföllum í æsku eða að þeir sem lendi í áföllum muni koma til með að neyta fíkniefna. En svona var þetta hjá þessum hóp af körlum. Við þurfum öll að standa saman og koma til móts við þá sem leita í fíkniefni því þeir finna enga aðra lausn. Þegar neyslan er orðin að leið til að líða betur er augljóst hún snúist ekki lengur um fíkniefnin og mikilvægt að við gerum eitthvað. Engri manneskju á að líða eins og hún þurfi að deyfa sig til að finna ekki fyrir eigin tilfinningum,“ sagði Margrét að lokum.

– Sara Sjöfn Grettisdóttir

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is