02.09.2020
Bæjarráð kom saman í gær til þess að ræða stöðuna hjá Herjólfi ohf., eftir ákvörðun stjórnar og framkvæmdastjóra félagsins um uppsagnir á starfsfólki til þess að ráðast í endurskipulagningu félagsins.
Telja að ríkið standi ekki við þær greiðslur sem kveðið var um
Þann 17. ágúst sl. átti bæjarráð fund með samgönguráðherra og vegamálastjóra til að fara yfir alvarlega fjárhagsstöðu Herjólfs ohf. Á fundinum kom fram að Vestmannaeyjabær telur ríkið ekki standa við þær greiðslur sem kveðið er á um í þjónustusamningi, m.a. vegna öryggismönnunar á skipinu. Af því leiðir að framlög til félagsins eru um 200 m.kr. lægri en umræddur samningur segir til um. Mikilvægt er fyrir áframhaldandi vinnu að samgönguráðuneytið svari því sem allra fyrst hvort það hyggist standa við sínar skuldbindingar skv. þjónustusamningnum.
Covid hefur haft mikil áhrif á rekstur Herjólfs
Að auki hefur kórónuveiran haft mikil áhrif á rekstur félagsins á þessu ári og hefur enn, enda miklar takmarkanir varðandi samgöngur á sjó. Það skapar félaginu töluverða fjárhagslega óvissu sem ekki sér fyrir endann á.
Endurskipurleggja þarf allan rekturinn
Í gær ákvað stjórn Herjólfs ohf. að grípa til sársaukafullra aðgerða með uppsögnum á starfsfólki félagsins, en með þeim aðgerðum skapast ákveðið svigrúm til þess að enduskipuleggja reksturinn á þessum óvissutímum. Mikilvægt er að ekki komi til skerðinga á ferðatíðni milli lands og Eyja, heldur verði að lágmarki boðið upp á sex ferðir á dag. Unnið verður að því að ljúka endurskipulagningu sem allra fyrst til þess að eyða þeirri óvissu sem starfsfólkið býr við.
Bæjarráð hefur falið bæjarstjóra að óska eftir fundi með þingmönnum til þess að upplýsa þá um alvarleika stöðunnar
Herjólfur og samgöngur í Landeyjahöfn eru lífæð samfélagsins í Vestmannaeyjum. Það skiptir mikilu máli að ríkið og sveitarfélagið standi saman um rekstur Herjólfs ohf., reksturinn sé sjálfbær, rekstrarumhverfi og forsendur fyrirsjánlegar, fjárveitingar samkvæmt þjónustusamningi séu tryggðar um þetta mikilvæga hagsmunamál einstaklinga og fyrirtækja í Vestmannaeyjum, sem og allra landsmanna.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska eftir fundi með þingmönnum Suðurkjördæmis til þess að upplýsa þá um alvarlega stöðu Herjólfs ohf.