En hvað gerið þið þar?

10.03.2020

En hvað gerið þið þar?

Þessa spurningu fékk ég reglulega sem krakki. Þegar farið var í fótboltaferðalög til Reykjavíkur eða maður hitti krakka á ferðalögum um landið kom þessi spurning reglulega frá borgarbörnum þegar ég sagðist vera frá Neskaupstað.

Ég bjó í Reykjavík í 13 ár og fékk þá þessa spurningu reglulega líka. „Hvað er eiginlega hægt að gera þar?“ Oft var líka slegið á létta strengi og hafði maður að húmor fyrir því þegar maður var spurður: „Og hvað? Er Home Alone nýkomin á leiguna hjá ykkur? Er komið Internet þangað?“ O.s.frv. Sjálfur svarði ég oft að hitt og þetta hefði ekki komist í gegnum göngin.

Fyrir tveimur árum settumst við Leifa mín niður og veltum fyrir okkur kostum þess að búa í Reykjavík. Það stóð ekki á svörum. Kostirnir er gríðarlega margir. Mjög margir sem við þekkjum búa í Reykjavík og afþreygingarmöguleikarnir nánast endalausir. Alltaf eitthvað í boði, alltaf hægt að vera í stuði.

Síðan kom hin spurningin. Svörin við henni komu okkur skemmtilega á óvart. Nei, hin spurningin var ekki hverjir eru gallarnir við að búa í Reykjavík. Þeir voru augljósir: Fáránlegur húsnæðismarkaður, gríðarlegur tími í bíl, miklar vegalengdir á milli vina og þar sem við vorum orðnir foreldrar vorum við ekki með neitt bakland í borginni, enda bæði utan af landi.

Hin spurningin var; hvernig erum við að nýta okkur alla þá kosti sem Reykjavík hefur upp á að bjóða? Þá var frekar fátt um svör. Eitthvað, en fátt. Sú hugmynd að flytja til Vestmannaeyja var fyrst rædd fyrir alvöru helgina eftir páska 2018. Þann 1. júní á eftir fengum við svo húsið okkar afhent! Já, það var ekki aftur snúið. Okkur langaði út á land. Við keyptum 226 fm einbýlishús á 34,5 milljónir. Við gátum keypt hús þar sem ég er með mína skrifstofu og þar fyrir utan er nóg af svefnherbergjum og ættum við aldrei að þurfa að flytja aftur á lífsleiðinni. Ég nenni ekki að grafa upp hvað fengist fyrir 34,5 milljónir í Reykjavík.

En þá kom enn og aftur spurningin sem skotið hefur verið að mér síðan ég veit ekki hvenær: „En hvað gerið þið þar?“ Nú kvað hins vegar verið aðeins nýjan tón. Oft var sagt við mig að sumrin í Vestmannaeyjum séu eflaust frábær en veturnir hljóti að vera dauði og djöfull. Ég meina hvað er eiginlega hægt að gera í Vestmannaeyjum á veturna? Einhverri hraunhrúgu úti í ballarhafi. Mig langar að reyna að svara þessari spurningu en ég veit að til þess þyrfti ég helst meira en einhvern netpistil á Eyjamiðlana. En byrjum á þeim.

Í Vestmannaeyjum eru þrír staðarmiðlar. Hver með sína nálgun en allir skipta máli. Nú, í þessum miðlum er síðan fjallað um það sem er hægt að gera.

Í Vestmannaeyjum eru fjögur flott meistaraflokkslið í hand- og fótbolta og er hægt að finna leik nánast í hverri viku, allt árið um kring, sem vekur áhuga minn, enda mikill íþróttaunnandi.

Glæsilegt handboltamót yngri flokka er haldið hvern vetur og svo stóru fótboltamótin á sumrin. Nóg um að vera fyrir þá sem hafa áhuga á íþróttum og fullt af tækifærum fyrir fólk sem vill hjálpa til.

Tónleikar og skemmtanalíf er með mesta móti í Vestmannaeyjum og ætla ég að fullyrða að hvergi í heiminum eru haldnir fleiri viðburðir m.v. höfðatölu en í Eyjum.

Verslunarlíf er með besta móti miðað við hvað þekkist á landsbyggðinni og taka þær sig gjarnan saman og halda alls konar viðburði. Rakarastofan heldur einnig sína viðburði en þar er líka félagsmiðstöð manna sem takast á um ýmis mál og segja sögur. Má einnig nefna hið ótrúlega úrval veitingastaða sem eru í Eyjum. Fjölbreytnin og gæðin í þeim efnum svíkja engan.

Allt árið um kring eru listasýningar á hverju strái og svo er nokkuð metnaðarfullt kvikmyndahús í Eyjum. Þá er ekki hægt að sleppa því að nefna Leikfélag Vestmannaeyja sem heldur úti öflugu starfi og sýnir tvær metnaðarfullar sýningar á vetri.

Klúbbastarfið í Vestmannaeyjum er ótrúlega öflugt og ætlaði ég ekki að trúa því að svona margir klúbbar væru á ekki stærri stað. Einn „klúbbur“ er í sérstöku uppáhaldi á mínu heimili en það er Sunnudagaskólinn. Eftir að hafa gert smá samanburð var auðséð að starf hans í Landakirkju er meira og betra en á mörgum stöðum, og mætingin eftir því.

Ferðaþjónusta í Vestmannaeyjum hefur alið af sér alls kyns anga. Mætti segja að einn þeirra sé ölstofa The Brothers Brewery. Að vera með jafn metnaðarfulla ölstofu, þar sem heimamenn og aðrir geta smakkað allt mögulegt, er magnað á ekki stærri stað.

Eitt og annað er hægt að bralla á sumrin hvað ferðaþjónustu varðar en söfnin í Eyjum eru opin allt árið um kring. Þau eru öðruvísi an annars starðar, svo ekki sé fastara að orði kveðið, og eitthvað sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

Sumrin í Vestmannaeyjum eru frábær og flestir virðast gera sér grein fyrir því.

Sjómannadagurinn, TM- mótið, Beer and Streetfood festival, 7 tinda hlaup, Orkumótið, Goslokahátíð og Þjóðhátíð eru meðal stærstu viðburða. Þá kviknar líka fyrir alvöru á golfvellinum, sem er einhver sá glæsilegasti á landinu, þó að hægt sé að spila á honum meira og minna allt árið.

Reyndar er hægt að njóta allrar náttúru Eyjanna allt árið um kring og þeirra ótelgjandi gönguleiða sem í boði eru. Ég veit það ekki. Þessi upptalning gæti verið svo margfalt lengri. Auðvitað nefnir maður helst það sem er næst manns áhugasviði og verður það að duga í pistli þessum.

Eitt af því sem ég geri ekki í Eyjum er að lenda í umferðarteppu eða vera í miklu kapphlaupi við tímann. Fjölskyldan á Heiðarvegi græddi marga klukkutíma í vikunni við það að flytja út á land. Það eru lífsgæði sem verða ekki metin til fjár. Við finnum mjög fyrir því hvað það er ódýrara að lifa úti á landi og höfum komið okkur fyrir á annan hátt en við gætum nokkurn tímann í Reykjavík.

Svo þegar við veltum fyrir okkur þeim kostum sem Reykjavík hefur upp á að bjóða þá er staðan sú að við notum þá kosti jafnvel meira eftir að við fluttum til Eyja og förum í helgarferðir. Engu að síður nánast hætt að hugsa um þá valkosti – enda nóg um að vera í Vestmannaeyjum.

Eitt sem mig langar að nefna í lokin er að einn stærsti vinnustaður Vestmannaeyja er ekki í Vestmannaeyjum. Hvað á ég við með því? Jú, þeir skipta tugum sem vinna hjá fyrirtækjum sem ekki eru í Eyjum en búa engu að síður í Vestmannaeyjum. Af hverju ætti fólk að borga meira fyrir óhentugra húsnæði og tapa mörgum klukkustundum úr vikunni þegar hægt er að búa úti á landi?

Ég veit það ekki en ég er glaður með að hafa valið hitt og geta notið daglega þeirra lífsgæða sem eru í Vestmannaeyjum.

Daníel Geir Moritz

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search