Embla Bachmann er fædd árið 2006 og er því 17 ára. Hún býr í Grafarholtinu ásamt foreldrum sínum Kristínu og Jóni og bræðrum. Hún er elst systkinanna. Hún á ættir að rekja til Eyja en Amma Emblu er Hrefna Guðjónsdóttir og afi hennar Ólafur Guðmundsson sem búa í Eyjum eins og stór hluti móðurættar hennar.
Haustið 2022 hóf hún nám á nýsköpunar- og listabraut í Verzlunarskóla Íslands. Frá unga aldri hefur Embla verið mikill bókaormur. Hún heillaðist fljótt af ævintýraheimi bókanna og ellefu ára gömul ákvað hún að setja sér það markmið að skrifa sjálf sögur og ljóð.
Árið 2018 skrifaði Embla smásöguna Rófulausi hundurinn og hárlausi kötturinn sem var hluti af rafbókinni RISAstórar smáSÖGUR. Yfir grunnskólagönguna fékk Embla fjórum sinnum verðlaun í ljóða- og smásagnakeppni skólans, ýmist fyrir ljóð eða smásögu. Með ljóðinu Úti er ævintýri sigraði Embla ljóðakeppnina Ljóðaflóð árið 2021.
Stelpur stranglega bannaðar! er fyrsta bók Emblu. Bækurnar verða vonandi miklu fleiri því Emblu finnst fátt skemmtilegra en að skrifa. Blaðamaður Tíguls heyrði í Emblu og forvitnaðist um bókina og líf Emblu.
Kemurðu oft til Eyja?
Var duglegri sem barn að kíkja til ömmu, sérstaklega á sumrin. Kem ekki eins oft nú til dags en ef það væru fleiri klukkutímar í sólarhringnum kæmi ég án efa oftar.
Helsta fyrirmyndin?
Lít mikið upp til Vigdísar Finnbogadóttur.
Hver er þín helstu hugamál?
Bækur, tónlist, íþróttir og var ég búin að nefna bækur?
Hvernig kviknaði hugmyndin að bókinni?
Hugmyndin kviknaði þegar mamma var ólétt að litla bróður mínum. Ég elska spurninguna hvað ef? og lék mér mikið með þær hugsanir sem urðu til út frá þeirri spurningu. Ósjálfrátt fór ég að spinna atburðarás í hausnum mínum og tókst svo loksins að koma henni niður á blað.
Bókin heitir Stelpur stranglega bannaðar! en um hvað er bókin?
Bókin fjallar um Þórdísi sem grunar að mamma sín sé ólétt og fer að njósna til að reyna að komast að niðurstöðu. Á sama tíma kemur ný stelpa í bekkinn sem stelur bestu vinkonu Þórdísar. Í kapphlaupi við tímann reynir Þórdís að stoppa allar breytingar og halda öllu eins og það var. Til að vita hvort það takist verður þú einfaldlega að lesa bókina.
Hvenær og hvar og fyrir hverja er útgáfuhófið?
Útgáfuhófið verður haldið laugardaginn 2. september, frá 12 til 14 í Borgarbókasafninu í Spönginni. Öllum sem finnst gaman að vera í kringum bækur, borða köku og hlusta á góða tónlist er velkomið að mæta!
Ertu búin að setja þér ný markmið í dag þar sem þín fyrsta bók er komin út?
Ég er alltaf með nóg af markmiðum sem halda mér á tánum. Mig langar að halda áfram að skrifa bækur og er nú þegar með nokkur handrit í vinnslu. Svo á ég alveg gríðarlega mörg ljóð sem ég hef skrifað í gegnum árin og þætti gaman að gera eitthvað við. Annað markmið er að prófa að skrifa fleira en bækur, til dæmis handrit að leikriti eða stuttmynd.
Fyrir þau sem vilja kaupa bókina hvar er hægt að gera það?
Stelpur stranglega bannaðar! er fáanleg í öllum betri bókabúðum. Með fallegri eintökunum leynast í Pennanum Eymundsson í Eyjum. Annars er líka hægt að panta hana á netinu á bokabeitan.is.

Uppáhalds:
matur: Ekkert toppar gott sushi.
drykkur: Kaffi!!! Hvorki ég né bókin værum eins og við erum ef ekki væri fyrir alla kaffibollana sem ég drekk daglega.
Tónlist: Adele, Harry Styles og SZA eru hin heilaga þrenning fyrir mér. Af íslensku tónlistarfólki finnst mér Aron Can, Una Torfa og Valdimar Guðmundsson bera af.
bók: Bækurnar um Fimmtudagsmorðklúbbinn eftir Richard Osman eru í miklu uppáhaldi.
Þættir: Jane the Virgin, Big Bang Theory og Gilmore Girls klikka ekki. Elska líka glæpa- og heimildarþætti.
Bíómynd: Hef vandræðalega litla þolinmæði fyrir bíómyndum (hef sofnað oftar en einu sinni í bíósal) en í mörg ár hefur My Best Friend’s Wedding átt sérstakan stað í hjarta mér.
lið í enska: Var byrjuð að tilbiðja Liverpool áður en ég lærði að tala.
lið í handbolta: ÍBV þegar ég er í Eyjum, Fram alla aðra daga.