Ekki sjálfgefið að sjómenn skili sér heim

Díana Íva Gunnarsdóttir var ung að árum þegar hún uppgötvaði hætturnar sem steðja að sjómönnum. Faðir hennar, Gunnar Kristján Oddsteinsson vélstjóri, upplifði sinn skerf af hættum hafsins og komst oftar en einu sinni í hann krappann er hann var til sjós.

Að sögn Díönu Ívu óttaðist hún oft um líf föður síns og átti það til að leiða hugsanir sínar til hins versta þegar faðir hennar var á sjó. Hann sagði skilið við sjómennskuna árið 2009 eftir að hafa orðið fyrir slysi sem olli honum miklu heilsutjóni.

„Það er ekki sjálfgefið að sjómenn skili sér heim eftir sjóferð. Það versta sem ég upplifði þegar pabbi var á sjó var hræðslan við að hann kæmi ekki aftur,“ segir Díana og rifjar upp sjávarháska sem faðir hennar upplifði á sjómannsferli sínum. 

Atvikin, sem eru fleiri en eitt, segir hún aldrei koma til með að víkja sér úr minni. Þau séu í eðli sínu ólík en höfðu víðtæk áhrif á föður hennar og fjölskyldu, en ekki síður þá skipsfélaga sem réru með honum á þeim tíma þegar slysin áttu sér stað.

Gunnar Kristján Oddsteinsson neyddist til að hætta á sjó þegar hann lenti í slysi um borð í Stíganda árið 2009.
Ljósmynd/Sigurgeir Jónasson

Sendur í Vélskólann eftir að vélin gaf sig

Gunnar faðir Díönu hóf feril sinn á sjó sem háseti á Kristbjörgu VE 70 í byrjun árs 1991. Þar réri hann fram á haustið eða allt þar til vélin um borð í bátnum varð að bráð. Í kjölfarið réðust örlög Gunnars sem ákvað að feta menntaveginn á þeim tíma og lauk námi við vélstjórn.

„Pabbi var þá í raun sendur í Vélskólann og vann hjá sömu útgerð næstu sjö ár á eftir sem vélavörður og vélstjóri en fór svo í eigin rekstur ásamt nokkrum félögum,“ segir hún frá upphafi sjómannsferils föður síns. 

„Svo stofnuðu þeir félagar útgerðarfélag og keyptu saman bát sem hét Vigdís Helga VE 700. Þeir gerðu þann bát upp og pabbi var vélstjóri á honum í þrjú ár. Árið 2000 seldu þeir bátinn og pabbi réði sig sem vélavörð á Ófeig II VE 325.“

Díana segir að alltaf hafi verið í nógu að snúast þegar pabbi hennar var í landi. Hér má sjá þau feðgin útreiðartúr á hesti. Ljósmynd/Aðsend

Horfði á bátinn fara niður

Díana kallar fram í hugann söguna af harmafullu sjóslysi sem átti sér stað um borð í botnvörpuskipinu Ófeigi í desembermánuði árið 2001. Skipið hafði lagt af stað í túr og var á veiðum í um það bil 40 sjómílum suðaustan við Vestmannaeyjar þegar veður versnaði og aftakarok skall á.

„Þetta situr alveg á sálinni,“ segir Díana Íva um leið og hún reynir að lýsa aðstæðum og tildrögum slyssins. 

„Pabbi hafði verið á Ófeigi á annað ár þegar lagt var í þennan túr. Þetta var í byrjun desember og veðrið vont. Pabbi hefði vel geta dregist niður með bátnum en báturinn sneri skutinn niður og stefnið upp í loftið,“ lýsir hún.

„Með ótrúlegum hætti náði pabbi að synda undan brúnni, spyrna sér frá bátnum og synda frá honum. Hann horfði á bátinn fara niður og sá neyðarljósin á honum þegar hann var að sökkva.“

Eins manns saknað

Díana segir skipið hafa sokkið á fáeinum mínútum. Miðað við lýsingar hennar átti faðir hennar líf sitt að leysa en tókst að berjast hetjulega við sjóinn og erfiðar aðstæður. Þarna hefði til beggja landa geta brugðið.

Það var lán í óláni að skipið Danski Pétur VE 423 var á veiðum skammt frá slysstað. Varð áhöfnin vör við neyðarkall frá Ófeigi rétt áður en skipið sökk og hvarf af ratsjá. Átta skipverjum tókst að bjarga en eins manns var saknað. 

„Ég man að við fórum til fjölskyldu mannsins til að votta þeim samúð okkar. Þetta var virkilega átakanlegur og erfiður tími fyrir ástvini mannsins. Hann átti son sem var nokkrum árum yngri en ég. Honum kynntist ég svo aftur á fullorðinsárum og höfðum við verið vinir í nokkur ár þegar við komumst að því hversu tengd við vorum,“ segir Díana og þykir ótrúlegt hvernig lífið á það til að leiða fólk saman á mismunandi tímum æviskeiðsins. Allar götur síðan hefur henni þótt sérlega vænt um þessa tengingu og þann vinskap sem hún öðlaðist við son mannsins sem fórst um borð í Ófeigi.

Feðginin í góðum félagsskap hvors annars. Ljósmynd/Aðsend

Greypt í minnið

Slysið segir hún oft koma til tals á milli fjölskyldumeðlima sinna sem oftar en ekki endurupplifa erfiðar tilfinningar sem fylgdu í kjölfarið. Frásögn föður hennar af því sem hann upplifði þetta örlagaríka augnablik er óhugnalegt og lýsir hættulegu starfsumhverfi sjómanna í þaula.

„Ég mun aldrei gleyma mynd sem ég sá í Morgunblaðinu af mömmu og pabba þar sem mamma var grátandi að taka á móti pabba niður á bryggju. Þessi mynd er gróin í minnið á mér og ég er gráti næst að hugsa um hana.“

Stuttu eftir slysið fór faðir hennar aftur á sjóinn þrátt fyrir að áfallið hafi verið mikið og margt óuppgert.

„Pabbi skellti sér á sjóinn strax aftur eftir áramót og var á sjó í níu ár eftir að Ófeigur sökk. Hann var á nokkrum bátum á þessu níu ára tímabili; Gissuri hvíta SF 55, Alfa HM, Huginn VE 55 og endaði svo sem yfirvélstjóri á Stíganda VE 77.“

Aldrei náð sér eftir að hafa dregist inn í togspilin

Í september árið 2009 lauk sjómannsferli Gunnars Kristjáns eftir að hann varð fyrir slysi um borð í Stíganda. Það varð til þess að hann átti ekki annarra kosta völ en að hætta til sjós vegna líkamlegra meiðsla.

„Togspilin voru sett af stað þegar hann var að vinna við þau. Hann dróst inn í spilin, inn fyrir öryggisslá og slitnaði af við fundamentið,“ lýsir Díana og segir föður sinn aldrei hafa náð sér að fullu eftir áverkana sem hann hlaut.

„Upp frá þessu hefur hann aldrei verið sá sami og hann var áður. Fjórar vöðvafestingar slitnuðu í bakinu á honum og sinar tognuðu. Mátturinn í fótum hans dettur út í tíma og ótíma og hann er sífellt verkjaður líkamlega, með tilheyrandi vanlíðan sem því fylgir,“ segir hún.

Hlaut heiðrun fyrir frækilega björgun

Tveimur árum áður en að umrætt slys átti sér stað hafði faðir hennar unnið hetjulegt björgunarafrek við höfnina á Reyðarfirði þegar hann bjargaði skipsfélaga sínum sem hafði fallið á milli báts og bryggju. Mikil mildi þótti að ekki hafi farið verr og var það Gunnari að þakka.

„Pabbi var heiðraður á Sjómannadeginum 1. júní 2008 fyrir þessa frækilegu björgun. Hann hélt manninum við bryggjuna og upp úr sjónum þar til hjálp barst,“ segir Díana stolt af sínum manni sem óhætt er að segja að hafi unnið margar þrekraunir í gegnum tíðina.

„Ég man eftir því að hafa montað mig rækilega yfir þessu og leit svo stórt á pabba minn. Enda er hann mikil hetja í mínum augum. Pabbi minn er sterkari en pabbi þinn,“ segir hún kímin en minnir um leið á mikilvægi þakklætisins því lífið geti breyst á örskotsstundu.

„Við eigum að halda fast um fólkið í kringum okkur því við vitum ekki hversu langan tíma við höfum með því. Ég hef verið nálægt því að missa pabba minn oftar en ég kæri mig um. Ég er svo þakklát fyrir hann og mömmu. Þau eru klárlega hetjur í mínum augum,“ segir Díana full þakklætiskenndar í garð foreldra sinna sem hafa báðir fært fórnir til að eiga farsælt fjölskyldulíf samhliða sjómannsferli föður hennar.

„Það er mjög mikilvægt að fagna sjómönnum og fjölskyldum þeirra, heiðra og minnast hetja hafsins. Sjómannadagurinn gefur okkur aukið tækifæri til þess og því lít ég þennan dag mikilvægum augum þar sem við klæðum okkur upp og fögnum honum hátíðlega með pabba.“

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search