Ekki hægt að útiloka möguleikan á eldgosi

Á facebooksíðu Eldfjallafræði og náttúruvárhóps Háskóla Íslands er flottur pistill og útskýring frá Þorvaldi sem er einn forsvarmanna þessa hóps um hvað sé mögulega um að vera á Reykjanesskaga þessa daganna.

Á síðu þeirra er að finna ýmsar spár og útreikninga um þessa jarðskjálftahrinu sem er í gangi þessa daganna. Ef þú hefur brennandi áhuga á að fylgast með og velta ýmsum mögleikum upp þá mælum við með að kíkja þarna inn: Eldfjallafræði og náttúruvárhópur Háskóla Íslands

Í ljósi umræðunnar undanfarna daga þá er rétt að benda á eftirfarandi.

Vöktunin á Reykjanesskaga sýnir engin skýr ummerki um kviku-hreyfingar í grynnsta hluta skorpunnar (þ.e. efstu 5-6 km), en ekki er hægt að afskrifa slíkt því hreyfingarnar sem tengjast skjálftavirkninni eru það stórar að þær geta hulið ummerkin um kviku-hreyfingar, sér í lagi ef kvikumagnið er frekar lítið. Jafnframt er mikilvægt að horfa ekki fram hjá þeirri staðreynd að jarðeðlisfræðilega vöktunin nær aðeins yfir efsta stökka hluta skorpunnar (þ.e. niður á 5-6 km dýpi, samkvæmt upplýsingum frá jarðeðlisfræðingum).

Stór hluti kvikunnar sem myndaði hraunið á Reykjanesskaga frá 8-10 km dýpi

Af þeim sökum segja þessi vöktun lítið sem ekkert um það sem er í gangi í mið- og neðri hluta skorpunnar. Í ljósi þessa, er rétt að benda á að bergfræði hrauna á Reykjanesskaga gefur til kynna að stór hluti af þeirri kviku sem hefur myndað hraunin á Reykjanesskaga kemur frá kviku-geymslum á 8-10 km dýpi og í sumum tilfellum hefur kvikan komið af enn meira dýpi. Viðstaða kviku í grynnsta hluta skorpunnar tengist því fyrst og fremst grunnstæðum innskotum og/eða myndun aðfærsluæða rétt fyrir gos.

Litla líkur á að þessi hrina sé undirbúningur á eldgosi en ekki hægt að útiloka það

Það er því rétt ályktað að það eru litlar líkur á því að atburðirnir sem nú eru í gangi sé beinn undirbúningur fyrir gos. En í ljósi þess sem að ofan er sagt, þá getum við ekki útilokað þann möguleika, sér í lagi ef til lengri tíma er litið, einfaldlega vegna þess að við höfum litlar sem engar upplýsingar um það sem gæti verið í gangi í mið- og neðri hluta skorpunnar, hvað þá í möttlinum. Ef hreyfingarnar undanfarna daga tengjast hniki eftir plötuskilunum, þá er næsta víst að þær nái í gegnum alla skorpuna og án efa munu valda einhverju róti í dýpri hlutum hennar. Það er mikilvægt að kanna hvers konar rót þetta er og hvaða afleiðingar það getur haft fyrir samfélögin á Reykjanesskaga.

Alveg öruggt að einhvern daginn verður eldgos á skaganum

Jafnframt er það öruggt að einhvern daginn verður eldgos á skaganum enda er hann byggður upp af ungu gosbergi, og að stórum hluta hraunum sem mynduðust eftir að jökla leysti (þ.e. á síðustu 12000 árum) og sum þeirra á sögulegum tíma. Jafnframt má benda á að gagnabankinn um hraungos á Reykjanesskaga sýnir að meðal stærð hrauna frá sprungugosum er um 0.12 km3 sem þekja að meðaltali 10 km2 og 5 km á lengd. Stærstu þekktu hraunin frá sprungugosum á Reykjanesskaga eru 0.7-1 km3 að rúmmáli, þekja >60 km2 og hafa flæðilengdir upp á 15-20 km. Ef við tökum svo með hraunskildina þá eru þeir stærstu á bilinu 5-10 km3 og hraun frá þeim hafa flætt allt að 30 km frá upptökum. Það er því óvarlegt að fullyrða um nokkuð um stærðir eldgosa á Reykjanesskaga í framtíðinni án þess að taka tillit til jarðfræðilegra staðreynda.

 

Að búa í samlyndi við náttúruna á eldfjallaeyju krefst þess að við þekkjum þau öfl og krafta er móta landið

Það getum við gert með því að halda utan um þá þekkingu sem hefur skapast í aldanna rás og með því að auka við þekkinguna og stuðla að auknum skilningi á þessum málum í samfélaginu. Eins og sýnt hefur verið fram á, er miðlun þekkingar mikilvæg, vegna þess að þegar samfélag er vel upplýst um vá og hættur í nærumhverfinu eru viðbrögð fumlaus og markviss.

Með kveðju
Þorvaldur

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on google
Share on pinterest

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is