13.03.2020 kl 20:35
Á vefjum sveitarfélaga í Húnavatnssýslum eru skilaboð frá sveitarstjórum vegna Covid-19 faraldursins og aðgerða yfirvalda vegna hans. Biðlað er til íbúa að sýna skynsemi. Á vef Húnavatnshrepps biðlar Einar Kristján Jónsson sveitarstjóri til íbúa sveitarfélagsins að sýna almenna skynsemi í öllum samgangi fólks. „Við þurfum að snúa bökum saman og standa okkar plikt því aðgerðirnar eru settar til að draga úr faraldrinum, svo að álag á heilbrigðiskerfið verði ekki of mikið.“ Á vefnum covid.is kemur fram að eitt smit hafi verið staðfest á Norðurlandi vestra.
Fréttin hefur verið uppfærð en áður sagði í henni að ekkert smit hefði verið staðfest á Norðurlandi. Það hefur nú breyst því samkvæmt tölulegum upplýsingum sem finna má á covid.is hefur eitt smit verið staðfest á Norðurlandi vestra og er viðkomandi í sóttkví. Á Norðurlandi eystra eru 34 í sóttkví en ekkert staðfest smit hefur fundist þar.
Fréttin er tekin frá huni.is