Þriðjudagur 25. júní 2024

Ég var að upplifa draum sem ég hef átt síðan ég man eftir mér

Silja Elsabet Brynjarsdóttir eyjamær og söngkona ásamt Helgu Bryndísi Magnúsdóttur píanóleikara héldu útgáfutónleika í Salnum Kópavogi þann 23. janúar síðastliðinn, en uppselt var á tónleikana.

Þær gáfu út diskinn Heima þar sem þær flytja lög eftir tónskáld Eyjamanna Oddgeir Kristjánsson.

Við fengum að kasta nokkrum spurningum á hana Silju.

 

Uppáhaldslagið þitt eftir Oddgeir?

Það er mjög erfitt fyrir mig að segja hvað er uppáhalds Oddgeirs lagið mitt. Ég elska þau öll svo heitt. Ég finn svo sterka tengingu við þessi lög. Melodíurnar gætu ekki verið fallegri og textinn lýsir lífinu í eyjum svo vel í gegnum árin (ímynda ég mér). Mér finnst líka svo skemmtilegt að staðhættirnir eru þeir sömu í dag eins og til dæmis í laginu hans: Hátíðarnótt í Herjólfsdal, þar höldum við ennþá þjóðhátíðina okkar og í textanum segir: “á fjósakletti brennur bál” það er eitthvað sem allir Vestmannaeyingar þekkja, sama hversu gamlir eða ungir þeir eru.

Ég segi oft þegar ég syng Heima að það sé mitt uppáhalds Oddgeirs lag en ætli það sé ekki uppáhalds textinn minn frekar. Í hvert einasta skipti sem ég kem heim hvort sem það er með flugi eða í Herjólfi og Eyjan okkar birtist í úr sænum í silkimjúkum blænum, með fjöll í feldi grænum. Þá hljómar þetta yndislega lag í höfði mínu.

Ég fékk líka að kynnast öðrum lögum sem ég þekkti ekki við gerð þessarar plötu og af þeim er ég orðin ofboðslega hrifin af “Svo björt og skær” og “Haustnótt” þær melódíur grípa mig alveg.

Það sem heillar mig við Oddgeir er hversu miklar tilfinningar eru í lögunum hans og hversu klár hann var. Hann var klassískt menntaður tónlistarmaður og það skín í gegnum lögin hans. Það er búið að einfalda þau mikið í gegnum árin og mér finnst mjög mikilvægt að Vestmannaeyingar (og bara allir Íslendingar) fái líka að heyra lögin eins og hann vildi láta flytja þau, eins og hann skrifaði þau.

Lög Oddgeirs eru alls ekki einföld, það eru skemmtilegir taktar, spennandi hljómagangar og dásamlegar melódíur sem einkenna hans músík (að mínu mati). Oddgeir er einn af færustu tónskáldum okkar íslendinga og það er kominn tími til að hann fái að komast inní þann hóp.

 

 

Áttu þér eftirlætis tónlistarmann eða konu – íslenskan eða erlendan?

Ég hlusta á tónlist úr öllum áttum og á mjög erfitt með að velja mér uppáhalds tónlistarmann eða konu. Ef við kíkjum á klassíska heiminn hefur Sigríður Ella, óperusöngkona lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér og einnig Diddú og Vala Guðna. Mér finnst frábært þegar óperu söngvarar geta sungið alla tónlist og þar eru Diddú og Vala í fremstar flokki og þess vegna lít ég mikið upp til þeirra. Á erlendum klassískum markaði er Olga Borodina mitt algjört uppáhald.

Ég hlusta líka mikið á pop, og mín uppáhaldssöngkona í þeim geira hefur verið Lady Gaga, alveg síðan ég heyrði í henni fyrst. En ég hlusta líka mikið á eldri tónlist og þar koma Bonnie Tyler, Elvis Presley og Johnny Cash sterk inn. Annars er ég líka mikill Disney aðdáandi og elska öll Disney lög, þá kemur fyrst upp í huga mér Julie Andrews. Eins og ég segi á ég mjög erfitt með að velja mér uppáhalds tónlistarmann eða konu. En hér fáið þið smá innsýn í “playlistann” minn.

 

Hvernig gengu upptökurnar fyrir diskinn?

Upptökurnar gegnu mjög vel. Við vorum í 4 daga að taka upp og frá 5-7 klukkutíma í senn. Það erfiðasta var samt að standa alveg kyrr fyrir framan hljóðnemann, ég á það nefninlega til að dilla mér svolítið við þessi lög og oft eftir að við spiluðum lag í gegn heyrðist úr hljóðbúrinu: “Silja, þú verður að hætta að dansa”. Haha ég bara ræð ekki við mig en auðvitað gengur það ekki í upptökum þar sem heyrist mjög vel ef maður færir sig frá hljóðnemanum. Annars vorum við Helga bara að njóta þess að fá að taka upp þessi dásamlegu lög og settum alla okkar sál í þetta.

 

Hvað er eftirminnilegast yfir þennan tíma?

Eftirminnilegast eru svolítið litlu hlutirnir. Ég fór í göngu á morgnanna fyrir tökur og hugsaði um lögin, fór með textana í hausnum og ímyndaði mér hvers konar blæbrigði hentuðu hverju orði. Svo þegar uppí Salinn var komið var ég alltaf með Te með mér og núna þegar ég drekk þetta te hugsa ég bara um Oddgeirs lögin. Ég man líka hvað mér fannst ótrúlegt að það væri komið að þessu, ég var að upplifa draum sem ég hef átt síðan ég man eftir mér. Ég hef alltaf elskað þessi lög og alltaf viljað sýna hvað er hægt að gera mikið í gegnum liti í röddinni og tilfinningu en samt passa uppá að lögin séu flutt eins og tónskáldið ætlaði sér. Það finnst okkur Helgu það mikilvægasta við þessa útgáfu. Við tökum þessi lög í útsetningu Oddgeirs sjálfs, hvernig hann skrifaði þau niður á blað og því miður hafa þær útsetningar ekki fengið að njóta síns eins vel og dægurlaga útsetningar Ólafs Gauks. Ég vil samt koma því fram að ég er mjög hrifin af þeim útsetningum þar sem þær opnuðu augu fleiri en Vestmannaeyinga á þessum dásamlegu perlum.

 

Hvernig myndiru lýsa síðasta ári?

Síðasta ár var skrítið. Í mars vorum við í skólanum að æfa fyrir óperu sem við ætluðum að sýna í lok mánaðarins. Við vorum vel á veg komin en eins og allir vita stoppaði allt. Ég dreif mig til Íslands (og meira að segja Covid sýkt) einungis til að festast ekki úti. Ég var heppin í mínum veikindum, fékk bara flensu og náði mér fjótt. Reyndar lenti ég í bak veseni sem tók toll á sumrinu. En við áttum sem sagt að fara í upptökur fyrir diskinn í apríl, við frestuðum þeim vegna covid fram í júní, en útaf bakveseninu mínu frestuðum við þeim aftur fram í ágúst og þá loksins gekk allt upp. Ég fór svo aftur til London í September og tók þátt í tveimur uppfærslum, óperu senum og Draumur á Jónsmessunótt eftir Shakespear og Britten. Þar fékk ég að kynnast einhverju nýju og einhverju sem er held ég bara aldrei gert í óperuheiminum. Í óperum er alltaf sinfóníuhljómsveit sem spilar tónlistina en vegna fjöldatakmarkana gekk það ekki upp. Hljómsveitin fór í stúdíó og var látin taka upp alla tónlistina, svo við söngvararnir sungum með playback. En sýningin var tekin upp og ekki streamað á netinu svo ég söng fyrir tóman sal, það var mjög skrítið og manni leið ekki eins og þetta væri sýning meira bara eins og æfing. Þannig að ég er mjög spennt að fá loksins að syngja fyrir fólk, finna fyrir nærveru þeirra, það verður yndislegt.

 

Hvenær reiknar þú með að vínylplatan komi út? 

Vínylplatan á að koma út í mars ef allt gengur upp! Ég er mjög spennt sjálf fyrir vínylplötunni því mér finnst þessi lög, sérstaklega í þessari útsetningu passa fullkomlega í það (ég ímynda mér það alla vegana).

Fallegasti staðurinn?

Mín fagra Heimaey.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search