Þóra Hrönn Sigurjónsdóttir leyfir okkur að fylgjast með verkefninu sem að hún hefur verið að framkvæma í Gambíu. Einnig er hún með hugmynd sem hún er að koma af stað hér í Vestmannaeyjum. Þóra Hrönn skrifar:
Þar sem allt er öðruvísi en við eigum að venjast þessa dagana finn ég mig knúna til að segja ykkur frá næsta verkefni hjá mér sem tengist Gambíu.
Í síðstu ferð til Gambíu var ég beðin af starfólki heilsugæslunnar um að taka við rekstri heilsugæslunnar þ.e að fjarmagna rekstur hennar. Í dag eru það Danir sem sjá um þetta en þeir eru búnir að gefa það út að þeir munu hætta um áramót. Ég er rosalega spennt fyrir þessu þar sem ég er búin að vera í frábæru samstarfi við starfsfólkið með dömubindaverkefnið og ég er farin að skilja lífið í þorpinu.
Ég er með hugmynd um hvernig ég get fjármagnað reksturinn sem og allt annað sem ég er að gera í Kubuneh (nafnið á þorpinu – borið fram Kúbúne) Ég fékk hugmynd á föstudegi um að opna „second hand charity shop“ með dash-i af Loppu fíling. Ég fann strax húsnæði, skoðaði það á sunnudegi og keypti í vikunni á eftir. Húsnæðið er gamla Magnúsarbakarí eða þar sem Útgerðin opnaði fyrst. Húsið er á besta stað í bænum en ekki í góðu standi.
Við ætlum að taka það algjörlega í gegn að utan og innan. Hugmyndin er að óska eftir því að fólk komi með pokana/fötin sem það fer núna með í Rauða Krossinn til mín og þar með hafi ég leyfi til að selja eða gefa áfram það sem er í pokunum/fötin. Það sem kemur til mín mun ég annaðhvort selja í búðinni, setja í fatapakka og senda til Gambíu eða senda á verkefni sem ég veit að eru í gangi hverju sinni t.d fyrir Frú Ragnheiði, Konukot o.s.frv. Ég veit af verkefni sem Hjálpræðisherinn á Akureyri er með sem snýr að því að safna lopapeysum og senda til heimilislausra á Grænlandi og annað verkefni sem ég veit um er að sauma líkklæði úr brúðarkjólum sem ekki nýtast lengur á andvanafædd börn og börn sem deyja mjög ung. Það sem ég mun ekki nýta fer í Rauða Krossinn. Ég veit ekki hvort fólk sé meðvitað um að það eru fleiri aðilar en Rauði Krossinn sem taka við fötum, Hjálpræðisherinn er með Hertex búðirnar og selur þar notuð föt og ABC tekur líka við fötum þannig að það er ekkert að því að láta aðra en Rauða Krossinn hafa föt.
Mig langar líka að bjóða upp á svona Loppu dæmi eins og er að gera allt brjálað í Reykjavík. Þá verð ég með fataslár þar sem fólk getur selt fötin sín en borgar mér aðstöðugjald (leigu) og prósentu af sölu. Þetta er allt að fæðast í hausnum á mér og á eftir að útfærast betur. Allur ágóði þ.e hver króna sem kemur inn í búðina fer í að reka Gambíu verkefnið mitt, heilsugæsluna o.fl. Ég trúi að þetta geti gengið þó við búum í litlu samfélagi, við erum að verða duglegri við að óska eftir og auglýsa föt og fleira til sölu. En af hverju er ég að segja ykkur þetta núna? Við erum að upplifa ótrúlega skrýtna daga, flestir halda sem heima eins mikið og kostur er og aðrir eru í sóttkví. Ég hef fengið símtöl undanfarna tvo daga frá fólki sem er að taka til í skápunum hjá sér því það er ekkert annað að gera. Þetta fólk hafði heyrt af hugmyndinni minni og var að bjóða mér föt. Ég get ímyndað mér að svona sé staðan hjá mörgum og því langar mig að biðja fólk ef það hefur tök á að geyma fötin þar til ég verð tilbúin með húsnæðið til að taka á móti. Ef þú átt pláss í bílskúrnum eða geymslunni fyrir 1-2 svarta ruslapoka af fötum þá yrði ég mjög þakklát fyrir það. Ég læt svo vita um leið og ég get tekið við. Ég elska að gera góðverk, endurvinna og endurnýta svo ég er að sameina tvær ástríður í þessu verkefni, það væri gaman ef þið vilduð taka þátt í þessu með mér. Það er kannski gott að taka fram að ég mun taka við öllum fatnaði, skóm, gardínum, handklæðum, sængurverum o.s.frv. Handklæði, sængurver og gardínur notum við í dömubindaverkefnið.
Þóra Hrönn Sigurjónsdóttir
