Drengurinn sem leitað er að í Núpá í Sölvadal er ættaður úr Vestmannaeyjum, ekki er hægt að birta nafn hans að svo stöddu.
Visir.is greinir frá: Unglingspiltur féll í Núpá í Sölvadal inni af Eyjafirði í gærkvöldi þegar hann var að aðstoða bónda við ána. Pilturinn er enn ófundinn en leit verður haldið áfram í dag.
Hermann Karlsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri er í aðgerðastjórn almannavarna, sem stjórnar leitinni. Hann staðfestir í samtali við Vísi að um hafi verið að ræða unglingspilt en hann féll í ána þegar krapabylgja hreif hann með sér.
Í frétt RÚV kemur fram að pilturinn og bóndinn hafi verið að vinna að því að koma á rafmagni. Hermanni var þó ekki kunnugt um það. Þá segir hann að lögregla hafi grófa hugmynd um aðdraganda slyssins í gærkvöldi en vildi litlu við það bæta.
RÚV hefur eftir Jóhannesi Sigfússyni aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra að bóndanum hafi tekist að forða sér frá krapabylgjunni. Þá hafi bóndinn og drengurinn verið að vinna að því að hreinsa krapa frá inntaki, en við ána er heimarafstöð, lón og stífla.
TF-LIF og TF-EIR, þyrlur Landhelgisgæslunnar, fluttu í nótt fjóra kafara, lögreglumann og tíu sérhæfða björgunarsveitarmenn norður í Sölvadal þar leit fer fram í Núpá. TF-LIF lenti við Saurbæjarkirkju laust eftir klukkan eitt í nótt þar sem kafararnir fóru frá borði. Þyrlan var við leit á svæðinu til 4:30 en þá var skyggni farið að versna. TF-EIR var einnig kölluð út og tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli með tíu björgunarsveitarmenn klukkan 2:50 og lenti á Akureyrarflugvelli með björgunarsveitarmennina á fimmta tímanum. TF-EIR flaug að því búnu aftur til Reykjavíkur en TF-LIF er til taks á Akureyri.
Landhelgisgæslan óskaði eftir liðsinni danska flughersins vegna leitar sem nú stendur yfir í Sölvadal.
Danir tóku vel í hjálparbeiðni Landhelgisgæslunnar og var danskri C130 Hercules flugvél flughersins sem var skammt undan ströndum Íslands snúið við og lenti vélin á Reykjavíkurflugvelli klukkan 11:48.
Vélin flytur kafara, björgunarsveitarmenn og búnað norður á Akureyri til að aðstoða við leitina.
Fjölmennt lið björgunarsveitarmanna frá höfuðborgarsvæðinu og Norðvesturlandi var sent á slysstað við Núpá í Sölvadal í Eyjafirði. Unglingspiltur féll í ána í gær og er hans enn leitað. Aðstæður eru erfiðar á vettvangi og verða erfiðari eftir því sem kólnar.
Önnur þyrla Landhelgisgæslunnar er á leið á vettvang með 10 manna hóp sem sérhæfður er í straumvatnsbjörgun. mbl.is/Hari Dönsk herflugvél á leið norður í leitina
Greint er frá á vef landhelgisgæslunnar. Einnig eru myndir frá vef gæslunnar.
Birt með leyfi aðstandanda.