Dellukallinn Mari pípari í Miðstöðinni: Fuglar, skátarnir, fjallaklifur og Manchester United í uppáhaldi

Sigurvin Marinó Sigursteinsson, betur þekktur sem Mari pípari eða bara Mari í Miðstöðinni er með mörg járn í eldinum

Miðstöðin er fjölskyldufyrirtæki sem hefur vaxið og dafnað undir hans stjórn.

Miðstöðin er í dag öflugt iðnfyrirtæki á sviði pípulagna og verslun sem býður upp á flest sem notað er í byggingariðnaði, ekki síst innanhúss. Marinó er fæddur 7. desember 1952 og tók við af Sigursteini föður sínum. Nú er fjórði ættliðurinn, Bjarni Ólafur sonur hans tekinn við stjórnartaumunum. Langafi hans, Sigurvin Marinó Jónsson stofnaði fyrirtækið árið 1940 en það hefur verið rekið undir nafni Miðstöðvarinnar frá 1950.  Eigendur eru Marinó og Marý Kolbeinsdóttir kona hans og eru starfsmenn 22.

Þrátt fyrir að Miðstöðin taki mikinn tíma hefur Mari alltaf stund fyrir áhugamálin og þau helstu eru skátastarfið, fuglaskoðun og merkingar helstu kennileita í Vestmannaeyjum. Má sjá skilti sem Mari á veg og vanda að og svarta stólpa vítt og breitt um bæinn sem sýna hvað hátt vikurinn náði í gosinu 1973. Merkilegt framtak sem hjálpar þegar sagt er frá þeim ósköpum sem gengu yfir Vestmannaeyjar og Eyjamenn á þessum tíma.

Skilti sem segja sögu

Þegar rætt var við Mara var  hann með kort á borðinu þar sem merkt var leið Flakkarans og Hannibals sem rofnuðu frá Eldfelli í gosinu 1973 og tóku strikið yfir hraunið, alls 1100 metra. Þegar Flakkarinn stoppaði vantaði aðeins fáa metra upp á að hann endaði í innsiglingunni. 

„Kortið sýnir stefnu, hraða og hvar þeir enduðu,“ segir Mari. „Annars er þetta af ýmsum toga hjá mér. Þar má nefna drykkjarfontinn úti á Skansi og staurinn á útsýnispallinum á móti Klettsvíkinni. Í honum eru merktar holur og ef horft er í gegnum þær sjást kennileiti bæði hér í Eyjum og uppi á landi. 

Það síðasta sem Óskar í Höfðanum bað mig um áður en hann hætti var að koma upp skilti við gamla slóðann upp Höfðann. Þar eru nöfn vitavarða og veðurathugunarmanna sem voru ekki alltaf sami maðurinn. Fyrsti vitavörðurinn neitaði að hætta og voru vandræði að koma honum út,“ segir Mari sem er með fleira í pípunum.

 „Við staurinn á útsýnispallinum ætla ég að setja upp skilti sem tilgreinir vegalengd að hverjum stað fyrir sig, hæð og er raðað eftir aldri. Við hliðina kemur blágrýtisstuðlaberg, tveir og hálfur metri á hæð þar sem nöfnum kennileitanna er raðað upp eftir aldri og endað á Eyjafjallajökli sem er 700 þúsund ára gamall. Heimaklettur, Miðklettur og Ystiklettur eru 40 þúsund ára gamlir, El- liðaey og Bjarnarey 6000 ára gamlar og Helgafell 5000 ára. Þetta verður sett á ás til að auðvelda áhugasömum að sjá þróunina. Þetta er viðbót við staurinn sem er mjög vinsæll. 

 

Lundinn heimakær

Eitt skiltið verður uppi á Stórhöfða með upplýsingum um allar fuglamerkingarnar hans Óskars. Bæði á lunda og fýl. Það er margt merkilegt sem kemur fram þar og sýnir hvað lundinn er heimakær. Óskar merkti 55.500 lunda og endurheimtur eru 10.500 merki. Þar af veiddi Ragnar heitinn Helgason, lögregluvarðstjóri yfir 900 merkta fugla.  Aðeins hafa 129 fundist annars staðar en í Vestmannaeyjum sem sýnir að nánast allir lundarnir sem fæðast hérna koma aftur og eru hér.“

Mari segir að þetta hafi enn betur komið í ljós eftir að Pálmi, sonur Óskars fékk bílpróf og fór að veiða pysjur niðri í bæ. „Hann fór með þær út í Stórhöfða, merkti og sleppti þar.  Hvar finnast þær síðan? Þær veiðast í Miðkletti og Ystakletti  þannig að lundapysjan sem fer út í sjó veit eftir tvö ár hvar hún er fædd. Alveg stórmerkilegt og verður eitt af því sem við setjum á skiltið. 

Óskar hefur líka merkt bróðurpartinn af þeim fýl sem merktur hefur verið á landinu. Það er líka merkilegt að uppáhaldsfuglinn hans er fýll en ekki lundi,“ segir Mari.

 

Goggi í Klöpp plataði mig

Þegar talið berst að skátastarfinu segir Mari að það  hafi verið það besta sem hann hefur gert á ævinni. „Goggi í Klöpp plataði mig til að ganga í Skátafélagið Faxa þegar ég var þrettán ára. Skátastarfið er mjög þroskandi  og ég fann mig strax í starfinu. Maður fór á öll skátamót og kom að útgáfu Skátablaðsins sem þá byrjaði að koma út. Allt mjög skemmtilegt og gefandi en það besta er að eiga þennan vinskap ennþá sem þarna varð til. Það eru þessi tengsl sem þú myndar og endast ævina á enda. Tengsl sem ekki er hægt að rjúfa.“

Þegar Mari er beðinn um að nefna helstu hetjurnar í skátunum þegar hann var að byrja, nefnir hann Halldór Inga, Bjarna Sighvats og Sigurð Þ. Jónsson. „Traustur maður hann Siggi, búinn að vera gjaldkeri hjá skátunum og nú Björgunarfélaginu, samtals í nokkrar aldir. 

Þetta var mjög þroskandi og við fengum að gera það sem okkur datt í hug sem er ekki í dag. Fórum t.d. fjórir í viku gönguferð upp á land og ekki með tjald. Sváfum bara úti, eitthvað sem við myndum ekki leyfa krökkunum í dag.“

Vinahópur eldri skáta.

Hæstu fjöll Evrópu og Ameríku

Mari var í hópi vaskra Eyjaskáta sem klifu hæstu fjöll Evrópu og Afríku. „Það er rétt. Við klifum Mont Blanc í Ölpunum 1973 og Kilimanjaro í Afríku 1974. Ekki erfitt en spurning um úthald. Auk mín voru í hópnum, Siggi Þ,  Daði Garðars, Bjarni Sighvats, Halldór Ingi, Einar Hallgríms, Gaui Páls, Eiríkur Þorsteins, Óli Magg, Lási og Snorri Hafsteins og Kjartan Eggerts sem ekki var með í Afríkuferðinni. Leiðsögumaður og þjálfari var Nebojsa Hadzic,  þaulreyndur fjallamaður sem flutti til Eyja.“

Mari er óforbetranlegur stuðningsmaður Manchester United og hefur verið frá því hann man eftir sér. „Ég hef aldrei vitað að annað lið sé til í enska boltanum. Það er bara svona, maður getur skipt um konu en ekki fótboltafélag. Ég hef farið a.m.k. tíu sinnum á Old Trafford. Að upplifa stemninguna þar er frábært og félagsskapurinn í þessum ferðum er ómetanlegur.“

Lúnir eftir frábæra ferð til Manchester og Liverpool. Ómar Garðarsson, Mari og Kári Bjarnason.

Ekki mörg lundalíf á samviskunni

Þá er komið að fuglunum sem átt hafa hug Mara frá æsku. Hefur hann m.a. unnið að rannsóknum á lundanum með dr. Erpi Snæ Hansen, forstöðumanni Náttúrustofu Suðurlands í Vestmannaeyjum. Vopnaðir myndavél sem keypt var til að kanna ástand lagna og fráveitukerfa skoða þeir lundaholur. „Ég var byrjaður á þessu nokkru 2003“ segir Mari sem er Elliðeyingur. „Ég byrjaði að veiða lunda í Elliðaey fimmtán eða sextán ára en ég hef alltaf verið mjög hamingjusamur með að vera lélegur lundaveiðimaður. Hef ekki mörg lundalíf á samviskunni.“

Upp úr 1995 á lundinn í Vestmannaeyjum undir högg að sækja og gerðu menn sér ekki grein fyrir því strax hvað var að gerast. „Skoðun okkar á lundaholunum sýndi að pysjan var að deyja. Ástæðan var lítið æti sem lundinn þurfti að sækja langt. Hafði ekki orku til að fæða pysjurnar og sjálfan sig. Lundinn afrækti eggin sem drápust og var merkilegt að sjá hann velta fúleggjunum upp úr holunum. Vissi hvað var að gerast. Nú virðist lundinn vera á uppleið og er það vel.“

 

Leyndardómur Elliðaeyjar

Rodrigo og Mari við sjósvölurannsóknir í Elliðaey sumarið 2020.

Annað stóra verkefnið sem þeir Erpur hafa sameinast um er merking á sjósvölum og stormsvölum í Elliðaey þar sem er stærsta varp þeirra í Evrópu.  „Við höfum gert þetta í nokkur ár og það er í fyrsta skipti í Evrópu sem settur er dægurriti á svona litla fugla. Við náðum tveimur merkjum í fyrra sem sýndu leiðina sem þær fara. Þær fljúga alla leið til Suður-Afríku, fugl sem er ekki nema 45 grömm. Sést aldrei á daginn, það er ekki fyrr en komið er svartamyrkur að svalan fer á stjá.“

Þeir veiða svöluna í sérstök net, vigta og mæla og setja dægurrita á þær.  „Að upplifa svona nótt í Elliðaey getur þú hvergi gert annars staðar á norðurhveli jarðar. Það merkilega er að fæstir Vestmannaeyingar vita af þessu. Það er langt síðan byrjað var að merkja svölurnar í Elliðaey en þessi hópur sem nú er að byrjaði árið 2007. Mest höfum við veitt 2377 á tveimur nóttum sem er algjört met.“

Mari segir erfitt að áætla svölustofninn í Elliðaey en ýmislegt bendi til þess að þeim hafi fækkað. „Það er erfitt að meta þetta en elsta svala sem við höfum náð var 28 ára. Annars eru þetta litlir fuglar, stormsvalan er 25 grömm og sjósvalan 45 grömm. Eru ekki neitt og þú heyrir ekki eitt einasta hljóð fyrr en komið er myrkur,“ segir Mari sem að lokum minnist á tuðruferð í kringum landið sem hressir Eyjapeyjar fóru sumarið 1972.

„Við vorum fimm á tveimur tuðrum. Ég, Gaui á Látrum, Kristinn R., Torfi Haralds og Óli Kristinn. Siglingin tók 34 daga og fengum við alls staðar höfðinglegar móttökur. Slegist var um fá okkur í gistingu og þarna kynntumst við Íslandi sem var. Algjör snilldarferð í alla staði.“

   

Kortið sýnir ferðir sjósvölu sem varp í Elliðaey. Settur var á hana dægurriti í júní 2019 og náðist hún aftur í júlí 2020.

Þetta er fyrsta sjósvala í Evrópu þar sem ferðalagið hefur verið rakið með dægurrita, til og frá vetrarstöðvum við Suður-Afríku.

Sjósvölur fara mismunandi leið suður eða norður. Lituðu punktarnir sýna daglegar staðsetningar hvern mánuð, skrásetning á ferðalaginu til Suður-Afríku hefst í október (bláir punktar). Í apríl (svartir punktar) er heimferðin hafin og stefnan tekin með vestlægum staðvindum frá Kanaríeyjum yfir Atlantshafið í apríl/maí og síðan alla leið til Vestmannaeyja. Rétt er að taka fram að hér er um frumgögn að ræða og óleiðrétt er fyrir nákvæmum staðsetningum (sbr. punkta yfir landi).

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on google
Share on pinterest

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is