„Ég hef grúskað talsvert i safni RÚV og leitað sérstaklega að gömlum sjónvarpsfréttum tengdum útgerð og fiskvinnslu í Vestmannaeyjum. Afraksturinn sýndum við að hluta á Bryggjunni um sjómannadagshelgina og goslokahelgina í ár og fleira kom í leitirnar sem varð hluti af myndinni sem sýnd verður 11. september,“ segir Atli Rúnar Halldórsson um dagskrána, Heiður sé sjógörpum sem verður í Safnahúsi á laugardaginn kl. 13.00.
„Margt forvitnileg fannst þarna eins og við mátti búast en ég er líka hugsi yfir því sem EKKI er að finna í þessu annars merkilega safni.
Til dæmis fann ég einungis eitt einasta viðtal við Tedda og það tók Sigrún Stefánsdóttir fréttamaður á Höfn eftir að Sæbjörg strandaði í desember 1984. Teddi er annars hvergi finnanlegur í spjaldskrá safnsins, maður sem bjargaðist fjórum sinnum úr sjávarháska!
Engin önnur dæmi eru um slíkt, fullyrðir Óttar Sveinsson, rithöfundurinn sem hefur sérhæft sig í að fjalla um slys, hamfarir og björgunarafrek til sjós og lands. Ríkisútvarpið hefur nú tekið fólk í lengri viðtöl af minna tilefni. Það vill því miður verða svo að hvunndagshetjurnar fá ekki þann sess í fjölmiðlum sem þeim ber.
Ég er viss um að gömlu fréttamyndirnar í RÚV-safninu munu vekja athygli nú sem fyrr, þarna eru gullmolar og dramatískar myndir líka. Ég nefni sömuleiðis stórmerkilegar myndbandsupptökur Stefáns Friðrikssonar um borð í Sæbjörgu nr. 2. Við erum með búta af veiðum og aðgerð á dekki, fínustu myndir sem eru verðmæt heimild um horfinn tíma til sjós.“
„Dagskráin, Heiður sé sjógörpum er unnin í samvinnu við Sjómanndagsráð og Safnahús. Um goslok var dagskrá helguð Óskari Matthíassyni á Leó VE og Þóru Sigurjónsdóttur konu hans. Núna eru það Hilmar og Teddi og ætlunin að gera dagskrána að árlegum viðburði í tengslum við sjómannadag þar sem farið er yfir sögu sjógarpa og aflaskipstjóra og áhafna þeirra,“ sagði Atli Rúnar að endingu.
Tónninn var gefinn í Sjómannadagsblaðinu 2020 þar sem fjallað er um Hilmar og Theódór og rætt við fjölskyldur þeirra og menn sem með þeim reru. Það sama var gert með Óskar og Þóru í Sjómannadagsblaðinu í ár.