Hildur Þóra Hákonardóttir, Linda Líf Boama og Karen María Sigurgeirsdóttir voru á skotskónum fyrir U19 ára landslið Íslands í knattspyrnu þegar liðið mætti Svíþjóð í vináttulandsleik í Fífunni í Kópavogi í kvöld. Leiknum lauk með 3:0-sigri íslenska liðsins en öll mörk leiksins komu í fyrri hálfleik.
Hildur Þóra kom íslenska liðinu yfir strax á 16. mínútu með föstum skalla úr markteignum eftir hornspyrnu Evu Rutar Ásþórsdóttur. Linda Líf Boama tvöfaldaði forystu íslenska liðsins á 25. mínútu eftir vel útfærða skyndisókn. Arna Eiríksdóttir hreinsaði frá marki og boltinn barst til Clöru Sigurðardóttur átti hárnákvæma sendingu inn fyrir vörn Svía á Lindu sem lagði boltann snyrtilega fram hjá markmanni Svía og staðan orðin 2:0.
Karen María Sigurgeirsdóttir skoraði þriðja mark íslenska liðsins á 35. mínútu, aftur eftir vel útfærða skyndisókn hjá íslenska liðinu. Clara Sigurðardóttir átti þá sendingu inn á Kareni sem skaut föstu skoti frá vítateigshorninu og boltinn fór yfir markmann Svía og í netið. Liðin mætast á nýjan leik í Egilshöllinni á morgun og hefst sá leikur klukkan 19:15.
Frétt og mynd er tekin af mbl.is