Búast má við hitafundi í bæjarstjórn um fjölgun bæjarfulltrúa

16.09.2020

Tígull sendi í dag spurningar á bæjarfulltrúa E-listans sem myndar meirihluta í bæjarstjórn Vestmannaeyja ásamt H-lista og fulltrúa D- lista Sjálfstæðisflokks sem situr í minnihluta bæjarstjórnar. Málið snýst um tillögu meirihlutans um fjölgun bæjarfulltrúa úr sjö í níu. Tillagan verður lögð fram á bæjartjórnarfundi á morgun og má búast við átökum um málið.

,,Fjölgun fulltrúa styrkir lýðræði í samfélaginu,“ sagði Njáll Ragnarsson, fulltrúi E-listans þegar hann var beðinn um rökstuðning fyrir tillögu meirihlutans. ,,Til dæmis endurspegla fleiri fulltrúar betur félagslega skiptingu íbúa og hugmyndir kjósenda. Að auki skapa fleiri fulltrúar skilyrði fyrir nánara sambandi milli íbúa og bæjarfulltrúa. Fleiri bæjarfulltrúar eru hvati fyrir fjölgun framboða og koma í veg fyrir kerfi fárra en stórra flokka.

Með öðrum orðum eiga lítil framboð auðveldara með að bjóða fram og ná sínum fulltrúa í bæjarstjórn. Ég get hugsað mér til dæmis framboð ungs fólks eða framboð fólks af erlendu bergi. Almennt séð gæti fjölgunin orðið til þess að tryggja raddir ákveðinna hópa sem hafa ekki rödd í dag. Sveitarstjórnarstigið er lýðræðislegur vettvangur og er kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum ætlað að endurspegla vilja íbúa.

Eftir því sem íbúum í Vestmannaeyjum fjölgar og fjölbreytileikinn eykst í samfélaginu er mikilvægt að bæjarstjórn tryggi tækifæri allra til þess að láta rödd sína heyrast.“

Telur þú möguleika E- lista meiri með 9 bæjarfulltrúum?

,,Möguleikar Eyjalistans felast fyrst og fremst í því að framfylgja þeirri stefnu sem framboðið setti fram fyrir síðustu kosningar, koma heiðarlega fram, berjast fyrir betra samfélagi í Vestmannaeyjum. Veita íbúum framúrskarandi þjónustu, halda álögum í lágmarki og skapa framúrskarandi
samfélag fyrir fjölskyldufólk, íbúa og atvinnulíf. Þannig mun Eyjalistinn ná árangri. Þetta er markmið allra þeirra sem starfa í Eyjalistanum og það er þetta sem
skiptir öllu máli,“ sagði Njáll.

Það kvað við annan tón hjá Trausta Hjaltasyni, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. ,,Það er verið að velta meiri kostnaði yfir á íbúa með þessari ákvörðun,“ sagði Trausti. ,,Það hefur enginn verið að kalla eftir fjölgun pólitískra fulltrúa, og engin stjórnmálaflokkur boðað svona miklar breytingar í sinni stefnuskrá.

Það er ekki hagur sveitarfélagsins að hægt verði á ákvarðanatöku og að hlutirnir taki meiri tíma og þar af leiðandi kosti meira fjármagn. Það er alltaf hægt að draga fleiri aðila að borðinu ef þörf er á. Til að mynda eru fjölmargar fagnefndir skipaðar á vegum bæjarins þar sem skoðanir margra fá að komast að.

Það er sú leið sem hefur verið farin til að auka lýðræðislega aðkomu. Við eigum að leitast við að draga úr bákninu, ekki stækka það. Auka skilvirkni og draga úr kostnaði. Það verður ekki gert með fjölgun pólitískra fulltrúa.“

Telur þú Sjálfstæðisflokkinn eiga minni möguleika á því að ná meirihluta með 9 bæjarfulltrúum?

,,Nei alls ekki, afstaða mín byggir fyrst og fremst á fjárhagslegum forsendum og þeirri grundvallar hugmyndafræði að stjórnsýsla eigi að vera skilvirk og hnitmiðuð. Ég veit ekki til þess að fjölgun pólitískra fulltrúa í Reykjavík hafi leitt til betri kerfis. Þar eru fundir nú mun lengri og ákvarðanir tefjast og tefjast. Auk þess sem kostnaðurinn hefur rokið upp,“ sagði Trausti.

Verði tillagan samþykkt tekur hún gildi frá og með næstu kosningum. ( vorið 2022 )

Forsíðumynd: Halldór B. Halldórsson

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is