Brotið var blað í sögu Bjarnareyinga þegar kona gekk í félagið laugardaginn 4. janúar síðastliðinn. Bjarnarey hefur verið ansi mikið karlavígi mjög lengi eða síðan félagið var stofnað, lengi vel máttu konur ekki koma út í Bjarnarey líkt og aðrar úteyjar. Að okkar vitund þá eru Bjarnareyingar fyrstir til að vígja konu inn í félagið sem er virkilega vel gert og mættu hin félögin taka þá til fyrirmyndar.
Það var hún Kristín Bernharðsdóttir sem braut þessa reglu með því að vera tekin inn í félagið 4. janúar 2020. Kristín er dóttir Bernhards Ingimundarsonar og Fjólu Sigurðardóttur (Dedda og Fjólu) og er gift honum Sigurði Baldurssyni og eru þau nú bæði félagar og hafa mikið gaman af. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum þá eru þau virk í að koma og hjálpa til við viðhald í eynni.
Kristín fór með félögunum til Grímseyjar fyrir síðasta lundaball til að veiða fyrir ballið, hún hafði aldrei veitt lunda áður og gekk það vel að hennar sögn. Þeir Ómar Krabbi og Pétur Steingríms veiddu og veiddu og ég kippti (að kippa þýðir að binda saman lundana í búnt líkt og á myndinni sem fylgir með af Kristínu með kippu af lunda)
Bjarnareyingar eru með lokaða facebooksíðu þar sem Pétur Steingrímsson óskar Kristínu til hamingju með að vera fyrsta konan sem samþykkt er inni í Veiðifélag Bjarnareyju.
“Ég hef frábæra reynslu af dugnaði Kristínar frá því í Grímsey s.l. sumar þegar við Bjarnareyingar fórum þangað til veiði á lunda fyrir lundaballið. Skemmtileg, jákvæð og umfram allt harðduglegur kvenmaður og er ekkert að væla þó þurfi að taka til hendinni. Sama hvort það var að elda, smyrja brauð handa okkur, veiða lunda eða hamfletta, ekkert mál hjá minni. Fyrir nokkrum árum hefði þetta aldrei gerst en karlrembuvígin falla eitt af öðru og er það bara gleðiefni. “ segir Pétur.