- Bæjarfjölmiðillinn í Vestmanneyjum -

Bræðurnir Matthías, Sigurjón, Kristján og Leó heiðraðir af Verðanda á sjómannadaginn

Valmundur Valmundarson byrjar á að minnast föður þeirra sem hér verða heiðraðir fyrir störf sín af Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Verðandi í ræðu sinni á sjómannadaginn síðast liðinn.

Óskar Mattíasson hóf sinn sjómannsferil þegar hann var 17 ára á Emmu Ve með Ragnari Þorvaldssyni. Sagði Óskar eitt sinn að hann hefði verið rekinn í land eftir um hálfan mánuð fyrir sjóveiki og annan ræfildóm.
Hann hélt sig þó ekki nema í eitt ár frá sjónum. Hann var háseti og vélstjóri á hinum ýmsu bátum fram til ársins 1944 þegar hann hóf formannsferil sinn. Árið 1944 byrjaði Óskar sem skipsstjóri á Glað Ve, síðan Skuld Ve og loks aftur með Glað. En árið 1946 keypti hann Nönnu, síðan Leó og loks Þórunni Sveinsdóttur með Sigurjóni syni sínum.

Þarna var grunnurinn lagður að þeim sómamönnum sem Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi heiðrar hér í dag. Ekki má gleyma kvennablómanum sem stendur að þeim bræðrum, Þóru Sigurjónsdóttur móður þeirra og auðvitað Þórunni Júlíu Sveinsdóttur föðurömmu þeirra. Snemma beygðist krókurinn hjá þeim bræðrum og sjómennska og útgerð varð þeirra ævistarf. Fjölskylda þeirra er talandi dæmi um þá atorku og þolgæði sem Eyjamenn hafa ástundað í glímunni við Ægi í langan tíma.
Í grúski mínu rakst ég á formannavísur um Óskar Matt. Formannavísur eru skemmtileg hefð frá horfnum tíma.

Óskar Kárason orti formannavísu um Óskar Matt árið 1950 þegar hann var með Nönnu Ve.

Óskar Matta ýtinn mjög
afla föng að kanna.
Þó að hristi stormur stög,
strauminn mylur Nanna.

Matthías Óskarsson fæddur 1944

Byrjar á Auði ve 133 árið 1960 fer síðan á Leó með föður sínum og síðan Suðurey Ve. 1964 á Leó aftur. Suðurey 1967. Veturinn er hann stýrimaður á Júlíu. Sumarið á Gjafar. 1968 skipstjóri á Friðrik Sigurðssyni. Síðan Sigurði Ve, þar næst Engey síðan Viðey. Byrjar útgerð með Björgvini Ólafssyni á Metu Ve 1971. Tekur Emelí Ve 1973, Kristbjörgu 1974. Í mars 1976 kemur Bylgja ný hún brennur 8 sept 1991. 1992 kemur önnur ný Bylgja Ve 75 sem enn er í útgerð Matta á Bylgjunni undir stjórn sonar hans Óskars Matt yngri.
Matti er kvæntur Ingibjörgu Pétursdóttur. Þau eiga tvö börn Óskar og Bylgju sem er látin.

Sigurjón Óskarsson fæddur 1945

Sigurjón byrjar til sjós 17 ára 1962 á Leó VE 400 með föður sínum Óskari Mattíassyni. Úskrifast úr stýrimannaskólanum 1967. Byrjar í útgerð 1969 með föður sínum í Ós hf. Sigurjón varð fyrst formaður árið 1968 á Leó Ve 400 og var hann strax mikil aflakló.
Sigurjón varð afla- og/eða fiskikóngur Vestmannaeyja 11 sinnum á 19 árum. Árið 1989 nennti hann ekki lengur að vera aflakóngur enda réði kvótinn því hver yrði í efsta sæti eftir tilkomu þess kerfis.
Er síðan skipstjóri og útgerðarmaður með Þórunni Sveinsdóttur sem eru orðnar 3 talsins, fyrsta Þórunn kemur 1972, önnur 1991 og þriðja Þórunn Sveinsdóttir 2010. Sigurjón var ekki skipstjóri á nýustu Þórunni en hefur fengið að fara lausaróðra með sonum sínum Viðari og Gylfa.
Sigurjón rekur í dag ásamt fjölskyldu sinni útgerðarfyrirtækið Ós ehf og fiskvinnsluna Leo Seafood.
Sigurjón hefur orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa bjargað fjölmörgum sjómönnum úr lífsháska á sínum ferli.
Sigurjón er kvæntur Sigurlaugu Alfreðsdóttur og eiga þau þrjú börn. Viðar, Gylfa og Þóru. Og slatta af barnabörnum.

Kristján Óskarsson fæddur 1946

Stjáni byrjar til sjós 1963 sem matsveinn á Ver VE. Engum sögum fer af matreiðslu hæfileikum Stjána í lúkarnum frá þessum tíma. Kristján útskrifast úr stýrimannaskólanum 1967.
Stýrimaður verður Stjáni hjá Matta bróður sínum á Friðriki Sigurðssyni ÁR veturinn 1968. Stýrimaður á Engey RE 11 1969 og 1970
Er einnig á Leó Ve 400 með föður sínum og á Gideon VE 7.
Stjáni fer í útgerð með Arnóri Páli Valdimarssyni árið 1971. Þeir kaupa saman Ísleif II Ve 36, gefa honum nafnið Emma VE 219. Síðan þá hefur Stjáni verið kallaður Stjáni á Emmunni í fleiru en einu tilliti. Þeir félagar láta byggja nýjan bát í Póllandi 1988 sem líka er gefið nafnið Emma VE 219. Emma var lengd 1998 og ný vél sett í hana. Stjáni og Addi Palli hætta í útgerð árið 1999 og snúa sér að veiðum á túristum hvor með sínu lagi. Addi Palli flaug með túrhesta til Eyja og Stjáni hýsti þá sem vildu gista. Nú er Stjáni sestur í steininn helga og býr til minningar fyrir okkur í formi hreyfimynda sem hann hefur verið duglegur að taka í gegnum árin. Bræður hans Sigurjón og Matti segja að Stjáni hafi sjósprungið 1999.
Þess má geta að Stjáni keypti sér kvóta fyrir fermingarpeningana sína. Kristján Óskarsson er kvæntur Emmu Pálsdóttur og eiga þau þrjú börn, Óskar Þór, Hafdísi og Berglindi. Barnabörnin eru fjölmörg.

Leó Óskarsson fæddur 1953

Byrjar á Leó árið 1968. Er síðan á Þórunni Sveins með Sigurjóni bróður sínum. Byrjar sem stýrimaður á Leó árið 1974. Skipstjóri á Leó 1976 og 1977. 1978 á Sigurbáru II. Fyrsti stýrimaður á Klakk 1978 og 1979. Útgerðarmaður og skipstjóri á Nönnu Ve 1981 til 1989 þegar Nanna sekkur út af Portlandi. Sigurjón bróðir Leós og áhöfn Þórunnar Sveinsdóttur bjargaði áhöfn Nönnu. Árin 1990-1993 er hann á Haukafelli Sf. 1993 til 2004 á Arnari Re. 2004 til 2009 skipstjóri og útgerðarmaður á Drífu Er. Hættir í útgerð 2010. Er svo til 2014 á Stíganda Ve.Eiginkona Leós er María Kjartansdóttir og börnin eru tvö Sveinbjörn og Ágúst.

 

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is