Börn þrífast best í rútínu sem er stöðug og fyrirsjáanleg segir Ragnheiður Sæmundsdóttir sálfræðingur hjá Fjölskyldu– og fræðslusviði Vestmannaeyja
Börnunum okkar hefur verið kippt út úr rútínunni sinni eins og okkur öllum. Það siptir miklu máli að hlúa vel að þeim og reyna eftir bestu getu að halda einhverri rútínu fyrir þau eins og Ragnheiður Sæmundsdóttir sálfræðingur sagði í samtali við Tígul. „Flest börn þrífast best í rútínu sem er stöðug og fyrirsjáanleg. Þegar þau vita við hverju er að búast og hvað gerist næst. Nú finna þau auðvitað fyrir því að rútínan og hversdagsleikinn hefur afbakast svolítið, mismikið milli heimila en eitthvað hjá öllum og forsendur geta breyst í einni svipan.“
Gott að halda í eitthvað sem er venjulegt og hversdagslegt
En það er ekki bara skólinn heldur líka áhugamálin, æfigarnar og vinirnir sem eru ekki í boði eins og stendur. „Það er skrítið að mega allt í einu ekki fara út að leika, hitta vini, mæta á æfingar o.þ.h. Fyrir sum börn, sérstaklega þau sem þola óvissuna síður, gæti til dæmis verið gagnlegt að búa til eigin dagskrá fyrir dagana. Hvaða möguleikar eru í boði hjá okkur? Hvað er ekki í boði, eins og staðan er núna, og hvers vegna? Það getur dregið úr togstreitu og vanmætti og auðveldað þeim að fallast á þessar takmarkanir sem við þurfum að sætta okkur við á meðan þetta gengur yfir. Að plana dagana og vikurnar gæti aukið eða endurheimt þá tilfinningu að þeim finnist þau hafa svolitla stjórn á aðstæðum. Og það er gott að halda í eitthvað sem er venjulegt og hversdagslegt,“ sagði Ragnheiður, „það er hins vegar vert að taka fram að öll óvissa er nagandi, sérstaklega þegar mikið liggur við eða raunveruleg áhætta er fyrir hendi. Það er tvennt sem ég vil nefna í þessu samhengi sem ég held að séu kannski grundvallaratriði til að hafa bak við eyrað.
“ Í fyrsta lagi, gullni meðalvegurinn þegar kemur að fréttaflutningi og opinberri umræðu. Þarna þurfum við að gæta okkar svolítið á að festast ekki í lamandi áhyggjum. Það að rýna stíft í allar fréttir og alla umræðu um kórónuveiruna gæti hæglega alið á kvíðanum. Ef við erum smeyk eða finnum fyrir miklum kvíða er líklegt að athyglin okkar stýrist af því og hugurinn fangar ósjálfrátt allt, og kannski eingöngu, það sem gefur okkur ástæðu til að óttast. Þá er gagnlegt að reyna að feta meðalveginn. Skammta t.d. tíma í að skoða erfiðu fréttirnar þ.e. verja ekki of miklum tíma í það, dreifa huganum og taka líka eftir því sem gefur okkur ástæðu til að vera vongóð og bjartsýn. Það sem er t.d. jákvætt er að upplýsingaflæðið í okkar samfélagi hefur verið mjög gott í þessu ferli. Við búum svo vel að eiga margt fært og gott fólk í framlínu á öllum vígstöðum sem vinnur myrkranna á milli til þess að tryggja hag okkar í gegnum þetta og fólk er almennt að fara mjög samviskusamlega eftir ráðleggingum. Það eitt og sér hefur forðað mörgum frá smiti og dregið úr skaða. Við hlustum auðvitað á fréttir, erum meðvituð og förum eftir reglum og tilmælum en reynum líka að halda okkar striki eins og hægt er.
Í öðru lagi, að koma auga á tækifærin í þessari stöðu. Mér finnst svolítið lýsandi og skemmtilegt að kínverska táknið fyrir krísu samanstendur af tveimur táknum. Annars vegar háski og hins vegar tækifæri. Með öðrum orðum þá er mín hvatning sú að ,,nýta sóknarfærin“. Hér skapast t.d. fyrir marga heilmikið svigrúm fyrir mikla og, ef við vöndum okkur, dýrmæta og innihaldsríka samveru. Hér hef ég séð hugmyndaflug fólk virkjast út í hið óendanlega. Möguleikarnir eru endalausir. Margir hafa virkjað sköpunargáfuna og dregið fram pensilinn, prjónana, myndavélina, allt eftir áhugasviði. Það má nýta matmálstímana sem skemmtilegar samverustundir, elda saman eða baka. Það má prufa eitthvað nýtt eða ráðast í verkefni sem hafa kannski lengi setið á hakanum. Sumir gera áhugaverðar tilraunir eða föndra. Það má finna til góðar bækur, gamlar myndir eða spil. Svo er það útivera innan þess ramma sem er í boði hverju sinni eða æfingar heima í stofu til að fá útrás fyrir hreyfiþörf.“
Góður svefn og næra sig vel
Ragnheiður sagði að við fullorðna fólkið verðum að vera leiðandi í gegnum þessa óvissutíma og standa vörð um eigin líðan og þankagang. „Ef við finnum sjálf fyrir miklu óöryggi eða ótta er gott að leita aðstoðar og stuðnings vegna þess. Það er mikilvægt líka, fyrir alla, að gæta sérstaklega að grunnstoðunum eins og góðum svefni og passa að næra sig vel. Og nú er auðvitað hreinlætið í forgangi sem aldrei fyrr.
Hlusta á spurningarnar og svara eftir bestu getu.
Umræðan fer ekki framhjá neinum og sér í lagi ekki börnunum og þetta hefur sennilega verið rætt á hverju einasta heimili. Ragnheiður sagði það mikilvægt að hlusta á spurningarnar sem brenna á börnunum. „Þau gætu haft ýmsar hugmyndir um stöðuna og það er gott að vita hverjar þær eru til þess að geta leiðbeint, leiðrétt eða stutt þau eftir atvikum. Aðstæður eru misjafnar, sumir komast í skólann, aðrir eru fastir heima. Mörg börn hafa e.t.v. heyrt um áhættuhópana og hafa áhyggjur af einhverjum sem þeim þykir vænt um, ömmu og afa eða öðrum sem þau vita að væri viðkvæmur fyrir smiti. Þau þurfa svigrúm til að tjá sig og eiga skilið góð svör -eins góð svör og hægt er hverju sinni,“ Ragnheiður sagði að ef við ætluðum ekki að bjóða upp á samtalið eða reyna að skýla þeim algerlega fyrir allri umfjöllun þá gætu þau fengið á tilfinninguna að þau mættu ekki vita hvað er í gangi eða ræða það. „Þá gæti það óbeint haft kvíðavekjandi áhrif og valdið óöryggi. Það er vænlegast að ræða við þau af yfirvegun að þetta sé eitthvað sem við þurfum að vera meðvituð um og hvernig við förum að því að passa okkur með sama hætti og við kennum þeim að gæta sín á öðrum hættum í umhverfinu t.d. umferðinni á leiðinni í skólann. Það er allt í lagi að segja að við vitum ekki öll svörin t.d. hvenær þetta er búið o.þ.h. en að við munum vera til staðar í hverju sem kann að koma upp.“
Munum að þessi staða er ekki varanleg
„Samstaða og samkennd skipta miklu máli og þar eru Eyjamenn í sérflokki,“ sagði Ragnheiður aðspurð um góð ráð í lokin. „Munum að það er einstaklingsbundið hvernig við svörum þessum óvenjulegu aðstæðum tilfinningalega. Það er mjög eðlilegt að finna fyrir óróa og kvíða. Þessar aðstæður eru óvenjulegar og krefjandi og sumum líður alls ekki vel. Sýnum skilning, nærgætni og hluttekningu. Hjálpumst að, laumum nauðsynjum eða glaðningi til þeirra sem eru fastir heima og stöppum stálinu í hvort annað. Munum líka að sleppa ekki alveg taki á gleðinni. Smá gamansemi og léttur húmor getur nefnilega verið gefandi og gagnlegur hugsunarháttur sem getur klárlega hjálpað í erfiðum aðstæðum! Og að lokum, munum að þessi staða er ekki varanleg. Við getum öll hvílt örugg í þeirri vissu að á endanum líður þetta hjá. Senn er þetta allt að baki og eins og þrengingar í lífinu hafa tilhneigingu til, þá þjappa þær okkur saman. Við munum taka frá þessu reynslu og lærdóm. Og mögulega líka minningar um góðar samverustundir og skemmtilegar sögur að segja.“

sálfræðingur hjá Fjölskyldu–
og fræðslusviði Vestmannaeyja
– Sara Sjöfn Grettisdóttir